06.12.1951
Neðri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

96. mál, menntaskólar

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þær athugasemdir, sem fram hafa komið, gefa ekki tilefni til langrar ræðu, og mun ég því ekki hafa þetta nema nokkur orð. Ég vil fyrst út af ummælum hv. 3. landsk. um menntaskóla á Laugarvatni taka það fram, að ég ætla, að ummæli hans séu byggð á misskilningi. Í l. frá 1946 er ákveðið, að stofna skuli menntaskóla í sveit, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum. Þegar þetta var gert, vakti það fyrir mönnum, að þar yrði um sérstakan skóla að ræða. Ef úr því yrði, að skólinn yrði settur á stofn á Laugarvatni, hef ég skilið það svo, að þar yrðu tveir skólar, þ.e.a.s. hann yrði sérstakur skóli, þegar fram í sækir, fráskilinn héraðsskólanum. Ég held því, að það sé á misskilningi byggt, er hv. 3. landsk. talar um 7 ára menntaskóla þar.

Því verður ekki á móti mælt, að ef það eru rök, sem fram koma hjá forráðamönnum menntaskólans á Akureyri, að betra sé, að menntaskólar séu sex ára skólar, þá eru það algild rök, sem gilda einnig fyrir menntaskólann í Reykjavík. Það, sem ég tók fram í ræðu minni út af þessu máli, var, að ef ástæða þætti til að breyta ákvæðunum, sem nú gilda um menntaskólana, og gera Akureyrarskólann að 6 ára skóla, þá ætti að láta það ná til beggja skólanna, en ekki gera það nema að vel íhuguðu máli. Það hefur komið fram, að áhugi er mikill fyrir þessu máli við Akureyrarskólann og þar starfar nú sérstök deild, þar sem áhugamenn stunda gagnfræðanám, og ég vildi segja það, að þótt þetta frv. verði fellt, þarf það ekki að hindra það, að þar geti stundað nám hópur áhugamanna.