13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

96. mál, menntaskólar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. þetta er að vísu gamall kunningi hér á þingi. Eins og það liggur nú fyrir, er það um að bæta bráðabirgðaákvæði við menntaskólalögin, á þá leið, að hæstv. ríkisstj. sé heimilt að ákveða, að tveggja ára óskipt miðskóladeild starfi við menntaskólann á Akureyri til vorsins 1954. Nú hefur hæstv. menntmrh. flutt brtt. við frv. Ef sú brtt. verður samþ., er hér ekki um bráðabirgðaákvæði að ræða, heldur verða sett ákvæði í l., sem heimila ríkisstj. að láta menntaskólana tvo eða þrjá, en það er víst gert ráð fyrir þremur í lögum, hafa heimild til að hafa miðskóladeild hjá sér. Menn skyldu nú ætla, þegar slíkar till. koma fram, að þeim væri fylgt með því að benda á, að það væri þörf fyrir þessar miðskóladeildir við menntaskólana. Það er langt frá því, að málið sé flutt á þeim grundvelli, enda mun það öllum kunnugt, sem hafa kynnt sér þetta mál, að það er engin þörf fyrir miðskóladeildir við menntaskólana. Fólk, sem vill stunda menntaskólanám, hefur nú möguleika til þess að fá þá undirbúningsmenntun, sem þarf, í flestum, ef ekki öllum héruðum landsins. Það eru sem sagt svo margir skólar nú orðið. sem veita þessa undirbúningsfræðslu undir menntaskólana, að það er engin þörf fyrir það, að menntaskólunum sé veitt þessi heimild. Einnig vil ég benda á það, að ef þetta frv. verður samþ., hvort heldur eins og það nú er eða með breytingu hæstv. menntmrh., hlýtur því að fylgja aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð. Það er engum vafa bundið, að kostnaðurinn við menntaskólana verður miklu meiri, ef þeir eiga að veita mönnum undirbúning að menntaskólafræðslu, og ekki líkur til þess, að kostnaður við hina svokölluðu miðskóla yrði neitt minni, þó að þessar deildir væru starfandi við menntaskólana. Þeir skólar mundu allir starfa áfram eftir sem áður, þótt nemendurnir yrðu eitthvað færri en nú er. En ekki eru líkur til þess, að það mundi minnka kostnaðinn við rekstur þessara skóla, svo að neinn nemi. Mér heyrist nú á mönnum, að þeim finnist fræðslumálin þegar allkostnaðarsöm fyrir ríkissjóð, og ég held, að ekki þurfi að vera neinn ágreiningur um það, að það sé ekki ástæða til þess að auka á þessi útgjöld ríkissjóðs að þarflausu. En ég vil fullyrða, að svo verði gert, ef þetta frv. verður samþ. Málið mun vera þannig til komið upphaflega, að aðstandendur menntaskólans á Akureyri hafa óskað eftir þessari heimild, og er það ekki af því, að það sé nauðsyn, að nemendur fái þessa fræðslu í menntaskólanum á Akureyri. Það er t.d. kunnugt, að það er ágætur gagnfræðaskóli starfandi við hliðina á menntaskólanum, sem getur veitt þessa undirbúningsfræðslu öllu því unga fólki, sem óskar að stunda þar slíkt nám. Þetta mál mun vera flutt af aðstandendum menntaskólans á Akureyri sem metnaðarmál. Þeir telja, að virðing skólans verði eitthvað minni í framtiðinni, ef hann fær ekki að hafa þessa miðskóladeild, af því að hún var þar áður. — Síðan er hafinn mikill áróður fyrir þessu máli, og það merkilega skeður, að mikill fjöldi þm. af Norðurlandi tekur þetta mál upp til flutnings á Alþingi, mál, sem er svona til komið. Mér finnst ástæða til, áður en málið fer út úr d., að benda á þessar staðreyndir, hverjir aðilar málsins eru og hvernig það er til komið. Mér finnst furðu gegna, ef þm. þessarar hv. d. samþ. slíkt frv., þegar sú vissa liggur fyrir, að það er engin þörf fyrir þessa miðskóladeild þarna. Yrði það aðeins til þess að auka að þarflausu útgjöld ríkissjóðs til fræðslumála.

Ég greiddi atkv. gegn þessu frv. þegar við 2. umr. og mun að sjálfsögðu gera það nú, og ég mun einnig greiða atkv. gegn brtt. hæstv. menntmrh.