13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

96. mál, menntaskólar

Jörundur Brynjólfsson:

Ég vil gera grein fyrir atkv. mínu við þessa umr. — Síðan þetta mál kom fyrir þingið, hefur það verið sótt með kappi, ég vil næstum segja ofurkappi. Við 2. umr. málsins greiddi ég atkv. með brtt., sem fyrir lá, með það fyrir augum, að það gæti orðið til þess, að málið yrði alveg stöðvað. Ég hef frá byrjun verið andvigur því, að þessi skipun komist á skólakerfið. Það er skammt síðan framkvæmd var í þessum efnum breyting, og er lítil reynsla fengin enn þá um notagildi þeirrar löggjafar hvað þetta efni áhrærir, en sú reynsla, sem fengin er, bendir í þá átt, að það sé ekkert við það unnið að gera þessa breyt., sem hér er áformuð, heldur kannske þvert á móti. Ég get tekið undir ummæli hv. 2. þm. Reykv. einmitt um þetta efni, hvernig aðstaða nemenda frá miðskólum viða um land verður til menntaskólanáms, ef á að koma á þeirri skipun, að menntaskólarnir eigi að fá miðskóladeildir hjá sér. Aðstaðan hjá nemendum annarra skóla til menntaskólanáms, þegar þeir hafa lokið gagnfræðaprófi í sínum skóla, verður náttúrlega miklu örðugri fyrir þá en hina, sem hafa verið í menntaskólunum frá byrjun, og er það ekki lítið atriði. Ég álít því, að það sé mjög illa ráðið að gera nú þessa breytingu. Að minnsta kosti ætti að bíða eftir því, að reynslan leiði í ljós, hvernig það fyrirkomulag, sem nú er búið að lögbjóða, gefst.

Hv. 2. þm. Reykv. álítur einnig, og ég held það geti ekki leikið á tveimur tungum, að það sé rétt, að húsrými menntaskólans á Akureyri sé ekki meira en það, að skólinn hafi nóg við allt sitt húsrúm að gera, þó að hann bæti ekki við sig deild. Enn síður er því ástæða til að gera þessa breyt., þegar þannig er ástatt. Því mun reyndar vera borið við af hálfu þeirra, sem sækja þetta mál, að húsrúm sé það mikið, að skólinn geti vel annazt kennslu í miðskóladeild. En þótt svo kynni að vera, að menntaskólinn gæti um skeið misst nokkuð af húsrúmi sínu til þessarar kennslu, ætla ég nú samt sem áður, að ekki ætti að innleiða þetta fyrirkomulag.

Það er farið fram á það í frv., í ákvæðinu til bráðabirgða, að þessi skipun eigi að ná til aðeins tveggja ára. En mér er sem ég sjái, þegar þessi tími er liðinn, að komið verður á ný og beðið um framlengingu, og það verður að játa, að eftir því sem lengri tími liður, verður erfiðara að standa á móti því, eftir að búið er að koma þessari skipun á við skólann.

Hins vegar skil ég mætavel afstöðu rektors og kennara menntaskólans í Reykjavík og er því ekki sammála hv. 2. þm. Reykv., þar sem honum fannst þeir vera of hörundssárir fyrir því, ef menntaskólinn í Reykjavík fengi ekki þessi réttindi um sitt skólahald, ef Akureyrarskólinn fengi þau. Það má reyndar líklega færa nokkur rök að því, að húsrúm menntaskólans í Reykjavík nægi enn síður til þess, að þar verði bætt við miðskóladeild. En mér þykir ekki nema eðlilegt, að kennurum skólans finnist það undarlegt, ef þeir eiga að vera afskiptir í þessu efni og sá skóli má ekki öðlast þessi réttindi, ef hann vill notfæra sér þau og taka upp þessa kennslu; það finnst mér eðlilegt. Annars hefur verið sýnt allt of mikið tómlæti í sambandi við aðbúnað þess skóla, og höfum einmitt við alþm. litla afsökun þar, hve lítið hefur verið sinnt um góðan aðbúnað til handa menntaskólanum í Reykjavík. Og vafalaust finna einnig kennarar þess skóla til þess, að þeim finnst, hvað snertir aðbúnað skólans, þeir vera nokkurs konar hornrekur, og ekki sízt sakir þess mun þeim vera þetta enn viðkvæmara mál, ef þeir eiga að hafa minni réttindi um sitt skólahald en menntaskólinn á Norðurlandi.

Ég er því sömu skoðunar og áður, að þetta mál eigi ekki að ganga fram, en það á ekki að ganga fram í neinni mynd. Og þar sem komið er í ljós frá menntaskólanum í Reykjavík, rektor og kennurum hans, að þeir vilja hafa sömu réttindi og menntaskólinn fyrir norðan, verð ég að játa, að þótt ég sé á móti málinu í heild, sé ég mér ekki fært að greiða atkv. móti þeirri till., sem veitir menntaskólanum í Reykjavík sömu réttindi og stendur til að veita menntaskólanum á Akureyri. Mér finnst sem það mundi ekki vera hægt að neita því, að annars mætti líta svo á, að verið væri að gera upp á milli þessara skóla og setja menntaskólann í Reykjavík skör lægra en hinn, en til þess sé ég enga ástæðu, ekki hina minnstu. Ég mun því greiða atkv. með till. hæstv. menntmrh., enda þótt ég viðurkenni, að það er nokkur galli á henni, að þar er þetta alveg ótímabundið. Það hefði nú kannske mátt setja þessum réttindum skólanum til handa eitthvert tímatakmark, en ég geri bara ekki svo verulega mikið úr því atriði, því að þegar þetta er einu sinni komið á, vill skólinn vafalaust fá að halda þessum réttindum áfram. Vilji menn þess vegna ekki koma þessari breyt. á, er öruggast, að ekkert af þessu gangi í gegn og málið í heild sinni verði fellt. Og þannig mun ég haga mínu atkv. nú við þessa umr., ég mun fyrst greiða atkv. með brtt., en síðan á móti málinu.