17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

96. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur víst farið þrisvar sinnum af stað hér á Alþ. Í fyrsta sinn var farið fram á tveggja ára undanþágu frá skólalögunum, og þá var látið í veðri vaka, að þessi undanþága væri veitt í eitt skipti fyrir öll. Þessi tvö ár átti að nota til að samlaga skólann nýju skólalögunum, en samkv. þeim áttu þrír bekkir, þ.e. gagnfræðadeild, menntaskólans á Akureyri að falla niður. Svo leið þetta tímabil, og hefur skólinn ekki notað það til að samlaga sig hinni nýju skólalöggjöf, sem hann átti að lúta. Nú er það ein mótbáran, að ef menntaskólinn á Akureyri lúti skólalöggjöfinni, hafi hann of mörgum kennurum á að skipa. Þetta eina vandkvæði stafar af því, að skólinn hefur ekki notað sína tveggja ára undanþáguheimild til að samlaga sig kerfinu. Það eiga að falla niður tvær miðskóladeildir, og upplýsir fræðslumálastjóri, að stundakennsla við menntaskólann sé fullkomlega tveggja kennara starf. Með því að leggja niður deildirnar hefur skólinn aðeins kennslukrafta til að inna af hendi kennslu, en þyrfti ekki að bæta við kennurum. Virðist því ekki vera vandkvæði á því fyrir skólann að beygja sig, úr því að ástandið er svona.

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um áðan, er þetta mál flutt af 8 þm. úr Nd. og hljóðaði um það að veita ríkisstj. með bráðabirgðaákvæði í menntaskólalögunum heimild til að starfrækja tveggja ára miðskóladeild við menntaskólana, ef húsrúm leyfði, og utanbæjarnemendur lærdómsdeildar sætu fyrir um heimavist við menntaskólann á Akureyri. Síðan var gerð sú breyt. á frv. í Nd., að undanþágan næði ekki til menntaskólans í Reykjavík, en áður en d. skildi við málið, bar hæstv. menntmrh., sem frá öndverðu hafði verið andvígur málinu, fram brtt., sem gerbreytti málinu í eðli sínu. Hann vildi þá leita eftir því, hvort þingvilji væri fyrir því að gerbreyta skólalöggjöfinni, svo að ekki væri aðeins um bráðabirgðaúrlausn að ræða á þessum málum. Hann lýsti því yfir, að ef hv. Alþ. vildi gera þessa breyt., þá mundi hann framkvæma hana, þó að hann væri henni andvígur. Það er að vísu ekki algengt, að ráðh. beri fram brtt., sem hann er andvígur, ekki af því að hann telji málið æskilegt, heldur til þess að ganga úr skugga um, hvort þingvilji sé fyrir hendi í máli, sem hann er andvígur, og lýsi svo yfir, að hann muni framkvæma till., ef hún verður samþ. Þrátt fyrir það að brtt. hæstv. menntmrh. verði samþ., liggur fyrir yfirlýsing hans um, að hann sé andvigur málinu í því formi, sem það er, og telji það óheppilegt. Málið er svo þannig komið fyrir Ed., ekki að það sé tengt menntaskólalögunum sem bráðabirgðaákvæði, heldur sem breyt. á menntaskólalögunum, þannig að þeim er heimilt að starfrækja miðskóladeildir, og að því að mér hefur skilizt upphaflega burt séð frá því, hvort húsrúm leyfði eða að utanbæjarnemendur sætu fyrir um heimavist við menntaskólann á Akureyri. Svo illt sem málið var, er þessir átta menn fluttu það, er það orðið margfalt verra eftir samþykkt brtt. menntmrh., því að þar voru numin burt skilyrði um, að þetta skuli vera framhald á breyt. á skólakerfinu.

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat réttilega, var það strax ljóst í menntmn., að meiri hl. var ákveðinn á móti málinu, og var það sent þeim aðilum til umsagnar, sem hann nefndi, og bárust svör frá þeim. Fræðslumálastjóri var á móti málinu, og þess hefur áður verið getið, að hæstv. menntmrh. er á móti því. Landssamband framhaldsskólakennara er á móti því og flutti ýtarlegan rökstuðning gegn því. Námsstjóri gagnfræðastigsins er á móti því og flutti rökstuðning með merkilegu innleggi, sem fylgir nál. í málinu. Uppeidísmálaþing, sem haldið var á s.l. vori. ræddi skólakerfið og þetta þó sérstaklega. Það gerði skelegga ályktun um, að þingið teldi slíka breyt. óheppilega, ekki hvað sízt að hafa þessa miðskóladeild tveggja ára deild. Ég skal ekki fara lengra út í rök þau, sem borin voru fram, en vík næst að því, að strax var bent á það í n., að það væri hin mesta fjarstæða frá formlegu sjónarmiði að skjóta ákvæðum um miðskóla inn í lög um menntaskóla, inn í þá grein menntaskólalaganna, sem fjallar um skiptingu í stærðfræðideild og máladeild. Er fjarstæða að skjóta þar inn í framtíðarákvæðum um gagnfræðamenntun. Ég skírskotaði til form. menntmn., hv. 11. landsk. þm., sem er lögfræðingur, að hann gæti ekki lagt nafn sitt við slíkt hnoð. Varð ég var við það, að þetta bögglaðist mjög fyrir brjósti honum, ekki síður en biblían er sögð bögglast fyrir brjósti vissra manna. Hæstv. menntmrh. er einungis að gera þetta til að vita, hvort hv. þm. geti kingt svo stórum bita að afgreiða lög um nám á gagnfræðastigi í lögum um mentaskóla og hafa það ekki sem bráðabirgðaákvæði, heldur sem lög. Ég er eins sannfærður um það og hv. 1. þm. N–M., að þetta mál ber Alþingi að drepa. Nú hefur hv. 1. þm. N–M. lagt fram till. um að vísa málinu frá og vitnar til þess, að fyrir þinginu liggi þáltill. um að endurskoða skólalöggjöfina. Ég teldi ákaflega óviðeigandi, ef skólalögunum yrði breytt núna í þinglokin, samtímis því sem ákveðið er að endurskoða skólalöggjöfina í heild, eins og kann að verða samþ. Þessi breyting, sem hér um ræðir, getur alls ekki verið svo aðkallandi, að ekki megi bíða eftir því, að skólalöggjöfin verði endurskoðuð. Virðist það auðsætt, að það beri að samþykkja frávísunartill. hv. 1. þm. N-31. Við hv. 1. landsk. þm. höfum báðir tekið það fram, að við mundum greiða atkv. með frávísun. En ef svo ólíklega vildi til, að frávísunartill. yrði felld, af því að hér eru það ekki rök, sem ráða afstöðu manna, þá vildum við, að þessi breyting á skólalöggjöfinni yrði bráðabirgðaákvæði, sem næði til tveggja næstu ára; eða til vorsins 1954. En orsök þess, að við fundum slíkt úrræði, er aðeins sú, að við vildum afstýra því, sem annars yrði gert. Við vildum heldur bráðabirgðaákvæði til tveggja ára en ótímabundna gerbreytingu á skólakerfinu.

Menntaskólinn á Akureyri heldur því fram, að hann hafi að minnsta kosti innan skamms eitthvert ónotað húsnæði, ef niður er felld hjá honum miðskóladeild. Ég hef rætt það hér áður og sýnt fram á það, að svo er ekki. Skólinn hefur, ef réttilega er skoðað, ekkert afgangshúsnæði, jafnvel ekki eftir að heimavistarhúsnæðið, sem er í smiðum, er fullgert. Menntaskólinn á Akureyri notar húsnæði, sem er ekki nothæft sem skólahúsnæði. (Forseti: Ég bið hv. þm. að afsaka, en á hann mikið eftir af ræðu sinni?) Já, allt að hálftíma. (Forseti: Þá verð ég að biðja hv. þm. að fresta henni.) — [Frh.]