18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1911)

96. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson [frh.]:

Herra forseti. Ég var víst í gær, þegar ég að ósk hæstv. forseta frestaði ræðu minni, að mestu leyti búinn að gera grein fyrir afstöðu minni til frv. Ég hafði lýst því, hvaða breytingum frv. hafði tekið, og ég hafði lýst afstöðu minni til hinnar rökstuddu dagskrár og hvers vegna ég kaus að slást í för með þeim mönnum, er vilja hafa ákvæðin um gagnfræðadeild við mentaskólann á Akureyri aðeins til bráðabirgða, en ekki varanleg lög.

Því hefur verið haldið fram af forráðamönnum menntaskólans á Akureyri, að skólinn hafi yfir miklu húsrými að ráða og ef gagnfræðadeildin þar yrði lögð niður, mundi verða þar mikið pláss ónotað. Ég hef haldið því fram, að svo þyrfti ekki að vera, og var að gera grein fyrir því, er ég hætti ræðu minni í gær. Ég var, að því er mig minnir, staddur í kjallara menntaskólans á Akureyri. Þar var borðstofa heimavistarinnar, og það ber ekki vott um, að nægilegt húsrými hafi verið þar, að hún var tvísetin við allar máltíðir fram að síðasta ári, er hún var flutt í heimavistarhúsið nýja. Í öðru lagi hafa söfn skólans verið geymd niðri í kjallara. Af því hefur leitt, að þau koma að ákaflega litlu gagni við kennsluna. Það ætti þar að flytja eðlis- og efnafræðisöfnin upp á efri hæðina og koma þeim fyrir þar, sem heimavistarherbergin hafa verið fram til þessa. En þetta hefur ekki verið gert, og svo tala forráðamenn skólans um það, að þeir hafi allt of mikið húsrúm. En það er vitað mál, að kennsla í eðlis- og efnafræði kemur ekki að hálfum notum, nema því aðeins að viðeigandi tæki séu fyrir hendi í kennslustofunni. Forráðamenn menntaskólans á Akureyri ættu því að sjá sóma sinn í því að koma þessu fyrir eins og tíðkast í öllum almennilegum menntaskólum. Það mun því mjög draga úr því, að hann hafi nokkurt húsrúm afgangs, ef aðeins þessu verður komið í viðunanlegt horf. Í gamla daga hjá Stefáni heitnum Stefánssyni skólamelstara var náttúrugripasafnið uppi, en nú hefur það orðið að þoka niður, og hefur stofan, sem það var geymt í, verið tekin undir hátíðasalinn. Hátíðasalnum í menntaskóla Akureyrar er skipt í þrennt, og eru að minnsta kosti tveir hlutar hans notaðir sem kennslustofur. Það er mjög bagalegt, svo að ekki sé meira sagt, að þurfa að nota hátíðasalinn sem kennslustofu. Ég mundi að minnsta kosta óska þess í mínum skóla, að þess þyrfti ekki með. Það er mjög bagalegt, að í hvert skipti, sem þarf að nota salinn, skuli þurfa að ryðja þaðan burt stólum og borðum, auk þess sem það hefur í för með sér miklar skemmdir á þessum húsgögnum.

Ég tel, að það, sem forráðamönnum menntaskólans á Akureyri beri að gera, sé að búa sem bezt í haginn fyrir lærdómsdeild skólans og gera hana eins vel úr garði og bezt þekkist hjá sams konar skólum. Þetta á skólinn að gera, en halda ekki eins fast í reipið um það að sleppa ekki gagnfræðadeildinni.

Ein ástæðan, sem forráðamenn skólans bera fram fyrir því, að skólinn mundi hafa of mikið húsrúm ónotað, ef gagnfræðadeildin yrði lögð niður, er sú, að nemendum í lærdómsdeild hafi á hinum síðari árum frekar fækkað en fjölgað. En af hverju stafar þetta? Það stafar af því, að forráðamenn skólans hafa gert allt til þess að reyna að sópa að sér sem flestum gagnfræðanemum, en ekki gert neitt til þess að fjölga lærdómsdeildarmönnum, svo að þeir hafa orðið að leita annars staðar fyrir sér, m.a. á Laugarvatni, en menntaskólinn á Akureyri hefði hæglega getað tekið á móti öllum menntaskólanemum, sem þar stunda nám. Ég held því fram, að forráðamenn menntaskólans á Akureyri hafi misstigið sig illa í því að efla ekki skólann nægilega sem menntaskóla.

Ég skal nú víkja að menntaskólanum í Reykjavík, en frv. er nú komið í það form, að hann hafi einnig gagnfræðadeild áfram. Ekki mun þetta ákvæði samt vera komið inn í frv. af því, að rektor menntaskólans í Reykjavík sé þess svo sérstaklega fýsandi, heldur af því, að hann vill, að sínum skóla sé gert jafnt undir höfði og menntaskólanum á Akureyri.

Ekki mun of miklu húsrými vera fyrir að fara í menntaskólanum í Reykjavík, því að á síðastliðnu hausti taldi rektor sig ekki geta tekið á móti sexskiptri menntadeild og tilkynnti það fræðslumálastjóra og lagði til, að lágmarkselnkunn til upptöku í hana yrði hækkuð úr 6 upp í 6.40, en nú fer rektor fram á að taka við þremur gagnfræðadeildum. Ég get ekki skilið, hvernig hann ætlar sér að fara að því að bæta við þrískiptri gagnfræðadeild, úr því að húsrúm er svo takmarkað til lærdómsdeildarkennslu. Þessir unglingar, sem þannig á að þrengja inn í menntaskólann í Reykjavík, geta farið í hvaða gagnfræðaskóla sem er hér í Reykjavík eða þá annars staðar á landinu. En afleiðingin af því, ef ákvæðið um gagnfræðadeild við menntaskólann í Reykjavík er samþykkt, verður sú, að byggja þarf viðbót við skólann fyrir milljónir króna. Nei, það, sem á að gera í þessu máli, er að efla menntaskólana til síns hlutverks, en hlúa að gagnfræðaskólunum til að undirbúa ungt fólk til 1. bekkjar náms í menntaskóla. Niðurstaðan uf þessu er sú, að nauðsyn menntaskólans á Akureyri til að hafa gagnfræðadeild er engin og menntaskólinn í Reykjavík hefur enga aðstöðu til þess.

Í menntaskólanum á Akureyri munu nú vera um 320–330 nemendur, en það er að áliti allra skólamanna hámark þess nemendafjölda, sem á að vera í einum skóla, því að allt uppeldisgildi fer minnkandi eftir því, sem nemendur eru fleiri. Ég sé því ekki annað en menntaskólinn á Akureyri sé orðinn nógu stór. (GJ: Hvað um menntaskólann í Reykjavil:?) Í honum munu vera 400, ja, upp undir 500 nemendur, og er hann því allt of fjölmennur eins og hann er nú. Ég tel það langt frá því æskilegt að setja þar nú 60–80 unglinga á aldrinum 12–14 ára saman við 16–20 ára unglinga.

Nú er svo fyrir mælt, að á miðskólastiginu skuli auk hinnar bóklegu kennslu fara fram nokkur verkleg kennsla. Þetta hefur ekki verið gert í menntaskólanum á Akureyri þrátt fyrir afgangshúsnæði. Það er ásetningur menntaskólanna að taka ekki upp verklega kennslu, þótt gagnfræðadeildir starfi þar áfram. Ég spyr: Veit nokkur til þess, að menntaskólarnir á Akureyri og í Reykjavík hafi fyrirætlanir um að inna af hendi þessa lagalegu skyldu?

Þá er að víkja að hinni fjárhagslegu hlið þessa máls. Samkvæmt núgildandi lögum eiga kennarar á gagnfræðastigi að kenna fleiri stundir á viku og eru þar að auki í lægri launaflokki en menntaskólakennarar. Ef þetta frv. verður nú samþ. og gagnfræðadeildir verða við menntaskólana, munu kennararnir við þessa skóla annast þessa auknu kennslu. Þeim verða greidd sömu laun og menntaskólakennurum, og þar að auki hafa þeir færri kennslustundir. Við það, að kennsluskylda er minni við menntaskóla, verður að fjölga þarna kennurum, og hefur það í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Kennarar á gagnfræðastigi hafa látið þetta mál nokkurn veginn kyrrt liggja fram til þessa, en ef þetta verður framtíðarákvæði, býst ég við, að þeir fari fram á, að sömu kjör verði alls staðar við kennslu undir miðskólapróf, og verður ekki gott að standa á móti þeirri réttlætiskröfu.

Þá er komið að því, ef þetta frv. nær fram að ganga, hvernig eigi að velja nemendur í þessar gagnfræðadeildir. Ef menntaskólinn í Reykjavík er tekinn sem dæmi, þá verður hann annaðhvort að taka upp samkeppnispróf og velja síðan þá 20–30 unglinga, sem hæsta einkunn hljóta, en þá er búið að sólunda því kerfi, að unglingar hvaðanæva af landinu hafi jafna aðstöðu til inntöku í menntaskóla, og aftur komið í það horf, sem áður var. Ármann Halldórsson kennari hefur komið að þessu í álitsgerð, sem ég mun síðar víkja að. Annaðhvort yrði að fara þessa leið eða þá að úthluta menntaskólanum ákveðið svæði hér í höfuðstaðnum. Ef sú leið yrði farin, mundi það hafa í för með sér, að unglingar með mjög misjafnt gáfnafar settust á sama skólabekk. Við þetta yrði öll kennsla mjög erfið, því að það er hinn mesti vandi að annast kennslu, þar sem nemendur eru misvel að sér, og enn þá verra verður þetta fyrir það, að menntaskólakennarar eru vanir að kenna úrvalsnemendum. Ef þessi leið yrði nú farin, þá kæmu svona jafnaðarlega 5–10 nemendur úr hverjum 25–30 manna bekk, sem hæfir yrðu til að stunda menntaskólanám. Ég held því, að þetta yrði mjög óheppilegt fyrirkomulag. — Á svipaðan hátt yrði þetta á Akureyri. Unglingar úr ákveðnu hverfi í bænum hæfu þar gagnfræðanám, en með því fyrirkomulagi fengi skólinn ekki þann úrvalsstofn, sem hann er vanur að fá strax í 1. bekk, eða þá að skólinn yrði að taka upp samkeppnispróf, en þá er búið að brjóta þessa jafnréttisreglu, sem ég áðan gat um og er einn helzti kostur hinnar nýju skólalöggjafar. Þeir á Akureyri hafa kynnzt því, hvernig það er að hafa gagnfræðadeild við menntaskólann þar samhliða gagnfræðaskólanum. Það er reynt með öllum brögðum að koma sem flestum unglingum strax í menntaskólann til þess að reyna á þann þátt að tryggja þeim framhaldsnám þar. Þetta hefur orðið til þess, að skóli Þorsteins M. Jónssonar hefur orðið fyrir verulegum starfstruflunum.

Ég skal nú reyna að stytta mál mitt, en snúa mér að umsögn Ármanns Halldórssonar uppeldisfræðings. Hann er eins og ég norðanmaður, og hefur hann ekki fyrr sent frá sér álitsgerð um þetta mál. Hann hefur auk þess mikla reynslu sem barnaskólastjóri og kennari við kennaraskóla Íslands. Þá má geta þess, að einn af harðskeyttustu kennurunum fyrir norðan er bróðir Ármanns Halldórssonar. Skoðanir Ármanns Halldórssonar á þessum málum eru því vel grundvallaðar, og hann telur, að ekki eigi að heimila þessa breyt. Í IV. fskj. á þskj. 618 víkur Ármann að kostum þeirrar verkaskiptingar milli gagnfræðaskóla og menntaskóla, sem var tekin upp með fræðslulögunum frá 1946 og hann telur einkum vera fólgna í þrennu. Í fyrsta lagi, að inntökuprófi í menntaskólana er frestað um 2–3 ár. Þá eru unglingarnir vissari um það. hvað þeir ætlast fyrir og hvaða nám þeir ætla að stunda, heldur en ef þeir þurfa að ákveða þetta á 12–13 ára aldri. Þetta er kostur, enda telur Ármann það almennt álit skólamanna, að með þessu móti sé hægt að haga vali nemenda til menntaskólanáms miklu farsællegar en áður var. Í öðru lagi telur Ármann, að betra sé, að unglingarnir eigi sem lengst samleið á námsbrautinni, og að um 15–16 ára aldur taki áhugaefni unglinganna að skýrast, svo að flestir hafi þá að eigin vilja tekið ákvörðun um það, hvað þeir ætlast fyrir, og greiningin komi því af sjálfu sér og sársaukalaust. Í þriðja lagi álítur hann, að þroski nemenda á aldrinum 13 ára til tvítugs sé svo ólíkur, bæði andlega og líkamlega, að vafasamt sé að ala þá upp í sömu stofnun, ef annars er kostur. — Þá víkur Ármann að ókostum samkeppnisprófanna, eins og þau voru framkvæmd áður við menntaskólann í Reykjavík, og telur, að með þessari breytingu sé stefnt að því að taka upp sama hátt á inntöku nemenda í menntaskólann og tíðkaðist þá, nema horfið verði að því, að honum verði úthlutað tiltekið hverfi, eins og á sér stað um gagnfræðaskóla bæjarins. Hann telur hins vegar, að ekki sé hægt að gera ráð fyrir því, að meira en 20 af hverjum 100 unglingum séu lagaðir til langskólanáms, og það yrðu því 5–6 „menntaskólanemendur“ í hæsta lagi í hverjum bekk í miðskóladeildinni. Álítur hann, að kennarar menntaskólans séu sízt hæfir til þess að kenna nemendum, sem séu mjög mismunandi að þroska og gáfnafari, af því að til þessa hafi þeir átt kost á því að hafa samvalinn nemendahóp. — Þá minnir Ármann Halldórsson á það, að þegar breytingin var gerð á fræðslulöggjöfinni, hafi það verið gert í góðu samkomulagi við kennara menntaskólans í Reykjavík, og að þá hafi verið talið sjálfsagt, að menntaskólarnir yrðu bara fjögurra ára skólar, svo að ekki þyrfti að útiloka fólk utan af landi, heldur væri hægt að taka við nemendum hvaðanæva af landinu í 1. bekk. Ef þessi breyt. verður gerð, gæti farið svo, að öll sæti verði setin, svo að aðrir kæmust ekki að, þó að þeir hefðu lokið landsprófi. Þannig gæti meira að segja farið í báðum menntaskólunum, og þá yrðu það Reykvíkingar og Akureyringar, sem fyrst og fremst mundu raða sér í sætin. (Forseti: Menn hafa þegar lesið þessa umsögn Ármanns Halldórssonar með athygli.) Hæstv. forseti segir, að menn hafi lesið þessa umsögn með athygli, og er þá vonandi, að rökin, sem þar koma fram, verði ekki að engu höfð.

Ég vil minna á það, að hæstv. dómsmrh. taldi það ósvinnu, ef afgr. ætti mál, sem hér var til meðferðar fyrir skömmu, án þess að leitað væri álits landlæknis og viðkomandi læknis. Hann taldi það ekki ná nokkurri átt, að málið væri afgr., fyrr en talað hefði verið við þessa lækna. Það var gert, og málið var fært í þann farveg, sem þessir sérfræðingar mæltu með. Í þessu máli liggur fyrir álit margra skólastjóra, fræðslumálastjóra og fræðslufulltrúa gagnfræðastigsins um það, að óhæfa sé að gera þessa breyt. En samt er þetta mál vakið upp á ný og reynt að knýja það fram, þegar komið er að þingslitum. Nú þarf ekki að leita til sérfræðinganna, heldur er málið gert að einhverju því mesta og versta klíkumáli, sem komið hefur fyrir þingið mörg undanfarin ár.