18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

96. mál, menntaskólar

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var til umr. á þinginu í fyrra, þá lét ég það afskiptalaust og taldi rétt að láta þingið skera úr um það, hvort þessi skipan yrði höfð eða sú skipan, er fræðslulöggjöfin gerir ráð fyrir. Þá fór það svo, að málið var stöðvað á síðustu stundu, og nú er það komið fram aftur.

Ég hef talsvert hugsað um málið síðan og hef þurft að gera það, því að sótt hefur verið á. Ég vil segja það, að því lengur sem ég hef um það hugsað, því minni er mín sannfæring um það, að rétt sé að færa þetta í það horf, sem um er beðið af menntaskólanum á Akureyri. Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að verða við þessari beiðni. Hins vegar leit svo út í Nd., að málið mundi ná fram að ganga, að vísu í nokkuð sérstöku formi, og ég sagði þá, að ef málið væri samþ., yrði að vera um vararlega lausn að ræða, en ekki bráðabirgðaráðstöfun. Ég vildi, að d. gerði sér ljóst, að hér væri um varanlega breyt. á fræðslulöggjöfinni að ræða. Þrátt fyrir þetta gekk málið í gegn með miklum meiri hl.

Menntaskólinn á Akureyri hefur aðallega sótt þetta mál, því að menntaskólinn í Reykjavík hefur ekki gert annað en heimta sama rétt og menntaskólinn á Akureyri. Fái menntaskólinn á Akureyri þessa heimild, vill menntaskólinn í Reykjavík fá hana líka, og það sýnist vera sanngirnismál.

Mér hefur skilizt, að aðalröksemd menntaskólans á Akureyri fyrir breyt. sé sú, að skólinn geti alið upp sína menn, fengið frá byrjun stofn, sem gengi gegnum allan skólann, og haft því meiri festu í för með sér fyrir skólalífið. Þetta hefur einnig komið fram hjá rektor menntaskólans í Reykjavík. Mér finnst, að þessi rök séu ekki svo þung, að þess vegna beri að breyta fræðslulöggjöfinni.

Mér skilst, að brtt. á þskj. 618 heimili báðum menntaskólunum að hafa þessa miðskóladeild til ársins 1954. Ég skal ekki segja um það, hvort menntaskólinn í Reykjavík notar þessa heimild, verði hún veitt, þó er ég ekki frá því. En ég vil benda á það, að telja má, að húsrúm menntaskólans í Reykjavík sé þegar fullskipað og meira en það, því að kennsla fer nú fram frá því klukkan 8 á morgnana til klukkan 7 á kvöldin, og það er viðurkennt, að skólinn er ofsetinn með þessum hætti. Það er í fyrsta skipti á þessu hausti, sem menntaskólinn í Reykjavík hefur ekki getað tekið við nemendum, sem æskja þess að fá inntöku og hafa rétt til þess. Það voru um 20–30 af þeim, sem náðu landsprófi í vor, sem rektor neitaði um inngöngu. Þetta mál kom til rn., og eftir þóf varð það að samkomulagi í þetta skipti, að málið yrði leyst með því að stofna einn bekk í viðbót til þess að taka við þessum nemendum, eingöngu vegna þess, að fólk er í þeirri góðu trú, að börn, sem náð hafa landsprófi, eigi rétt á því að fá inngöngu í skólann. Af þessu leiðir, að gera verður ráðstafanir fyrir næsta haust, því að sýnt er, að skólinn getur ekki tekið við öllum, sem rétt eiga þar til framhaldsnáms. Ef skólinn vildi neyta réttar síns og nota þá heimild, sem honum er gefin samkv. þessu frv., hefði það því það í för með sér, að enn fleiri yrðu útundan. Þegar skólinn er orðinn fullsetinn, þá er ekki hægt að taka fleiri nemendur nema með því að skaffa aukið húsrúm og aukna kennslukrafta, og ef þessi þróun heldur áfram, verður að leita til Alþ. og biðja um fjárveitingu til þess að leysa vandann.

Hins og ég sagði áðan, var það afstaða mín í Nd., að þessi heimild yrði veitt varanlega eða ekki. Mig skortir sannfæringu um það, að mér beri að nota þessa heimild, sem felst í ákvæðum til bráðabirgða, og veita þessa undanþágu til vorsins 1954. Hvers vegna miðað er við vorið 1954, er mér ekki ljóst, því að skólinn á Akureyri hefur ekki þessa deild, a.m.k. ekki opinberlega, og það er því ekki verið að leysa skólann upp. Hvað er unnið við að miða við árið 1954? Ber ekki að sama brunni á þinginu 1953, að nýtt frv. verði borið fram um að framlengja þetta enn á ný?

Ég tel rétt að taka það fram, að mig skortir alla sannfæringu um það, að mér beri að nota heimildina.