18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

96. mál, menntaskólar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka hér til máls, en vegna orða, sem féllu hjá hæstv. menntmrh., þá ætla ég að segja nokkur orð. Hann sagði, að á Akureyri væri ekki verið að leysa neitt upp, því að þar væri enginn miðskóli. Þetta er að vísu rétt á yfirborðinu, en rangt, ef það er krufið til mergjar. Á Akureyri er starfandi 30 manna námsflokkur, sem svarar til miðskóla, eða þar er kennt hið sama og í miðskóla. Þetta er gert til að komast yfir það dauða bil, sem skapaðist, er máli þessu var vísað frá með bolabrögðum á Alþingi í fyrra. Sem sárabót fengu Akureyringar leyfi til að halda uppi þessum námsflokkum, þar sem nemendurnir borga kennsluna sjálfir. Sambandið er ekki slitið, ef Alþingi vildi veita skólanum þann rétt að halda áfram. Það eru í raun og veru þrír bekkir í miðskóladeildinni og ekki búið að slíta þráðinn. Nú vil ég spyrja: Hvers vegna á að slíta þennan þráð?

Hv. 6. landsk. hefur talað mikið um þetta mál og talar þar sem miðskólastjóri. Hann hefur frá því fyrsta verið nokkuð áttavilltur í þessu máli. Þegar ég las nál. á þskj. 618, þá sá ég þar, að hann hafi viljað fella það, en það samkomulag hafi þó náðst milli nm., að 4 þeirra vildu samþ. það með breyt. — Mér virtist hann vera að átta sig. — En þegar ég las aftur á móti nál. minni hl. (PZ) á þskj. 619 — og heyri hv. 6. landsk. lýsa yfir því, að hann styðji till. þá, sem þar kemur fram, leynir sér ekki, að hann er orðinn rammáttavilltur aftur, og í þeirri villu veður hann síðan.

Þegar ég athugaði nál. á þskj. 619, þá fannst mér það undarlegt, vegna þess að hv. tillögumaður sagði, að óþarft væri að ræða till. nánar, en þar segir, að nú liggi fyrir till. um, að ríkisstj. láti endurskoða skólalöggjöfina, og í von um, að svo verði, þá telji hann rétt að vísa þessu máli til ríkisstj. — Í von um hvað? Sennilega, eftir því, sem tillögumaður hefur talað, „í von um“, að miðskóladeildin komi ekki til greina. En rétt rök væru að breyta engu, af því að endurskoðun er sennilega fyrir dyrum. Slíta ekki þráðinn. Raska í engu hinum gamla vinsæla skóla. Leyfa Norðlendingum, úr því að þeir óska þess, að nota það húsnæði, sem fyrir hendi er við skólann og nýbúið er að reisa. Sundra ekki kennaraliði skólans. Hrekja ekki nemendur úr skólanum.

Hið minnsta, sem vinir Akureyrarskólans geta ætlazt til af Alþingi, er, að það bíði með breytingar á honum, þar til þá að skólalöggjöfin hefur verið endurskoðuð og endurskoðunin talið breytingar réttmætar.

Máli þessu var hrundið í fyrra með bolabragði. Verði tillagan á þskj. 619 samþykkt, þá er beitt músarbragði. — Bágborin er glíman af hálfu andstæðinga þessa máls.