21.01.1952
Neðri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

96. mál, menntaskólar

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ef þessu máli væri nú frestað, eins og hv. þm. A-Sk. lagði til, þá mundi engin ákvörðun verða samþykkt um það á þessu þingi, hvort þessi deild ætti að halda áfram. En til þess er engin heimild í lögum, að nokkur ástæða sé að halda þessari deild áfram, og ég held, að endurskoðun fræðslulaganna mundi alls ekki verða til þess að beina málinu í þá átt.

Þegar þetta mál var til umr. í Ed., skýrði ég deildarmönnum þar frá því, að ég hefði enga sannfæringu fyrir því, að mér bæri að nota þetta lagaákvæði, þó svo að það yrði sett inn. Hins vegar hygg ég, að þetta bráðabirgðaákvæði hafi verið samþykkt í því skyni, ef svo mætti segja, að vinna upp þessar deildir, sem þarna eru nú starfandi, þ.e.a.s., að þeim verði leyft að starfa áfram, þangað til þeir, sem nú eru í þeim, verða komnir upp í efri bekkina. Og í því sambandi lét ég svo ummælt, að ég mundi nota þessa heimild þangað til svo yrði komið.

Þessi hv. deild ræður auðvitað, hvað hún gerir í þessu máli, en það er áreiðanlegt, að hv. Ed. lítur allmikið öðrum augum á málið, og ef því verður nú breytt enn á nýjan leik hér, þá er mjög hætt við, að það muni daga uppi.