21.01.1952
Neðri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

96. mál, menntaskólar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð. — Hv. þm. A-Sk. vék aftur að því, að hann teldi ekki ástæðu til þess að samþykkja þetta frv., jafnvel þó að milliþn. um endurskoðun skólalöggjafarinnar leiddi í ljós, að rétt væri að láta þessa miðskóladeild starfa við menntaskólana. Ég held, að það verði nú erfitt, bæði fyrir þennan hv. þm. og eins menntmrh., að fullyrða nokkuð um það nú, að hvaða niðurstöðu þessi nefnd kynni að komast. En það var annað, sem hann benti á, og það var, að fræðslulöggjöfin hefði verið undirbúin af milliþn., sem ég efast ekki um að hefur verið skipuð ágætum mönnum. En þó að svona hafi verið, þá sér nú Alþingi ástæðu til að láta endurskoða verk þessara manna, og sýnist mér, meðan sú rannsókn hefur ekki farið fram, að öll rök hnigi að því, að þetta frv. verði samþykkt. Jafnframt vil ég vekja athygli á því, að í þeim námsflokki, sem nú starfar við menntaskólann á Akureyri, en í honum munu vera um 30 nemendur, gildir það, að nemendurnir verða að greiða skólagjald, sem aðrir nemendur við skólann þurfa ekki að greiða, og af þeim sökum getur það komið sér mjög illa fyrir þessa nemendur, ef þetta frv. verður fellt og nám þeirra þannig að litlu gert. En mér skildist á hæstv. menntmrh., að ef þetta frv. yrði að lögum, þá mundi hann sjá til þess, að þessi námsflokkur fái sín fullu réttindi, þótt heimildin verði ekki notuð að öðru leyti, og það þurfi því ekki að valda þessum nemendum neinum óþægindum, þótt þeir hafi ekki starfað undir skólalöggjöfinni í vetur. Og einmitt þetta, að þessi námsflokkur starfar í vetur, stafar af því, að svo leit út í fyrravetur, að meiri hl. hv. þm. væri fylgjandi þessari lagaheimild um miðskóladeild við menntaskólann á Akureyri. Þess vegna var lagt út í það að láta þennan námsflokk starfa við skólann í vetur, þar sem frv. í fyrra dagaði uppi á óvenjulegan hátt og allar líkur bentu til, að það yrði að lögum á yfirstandandi þingi. — Á þessu vildi ég vekja athygli.