15.10.1951
Neðri deild: 12. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er fátt að segja um þetta mál nú, en ég vildi aðeins, að það kæmi fram, að það er ekki af ágreiningi um það, að gott sé, að þetta frv. um öryggi á vinnustöðum nái fram að ganga, að ég gagnrýndi það nokkuð hér í fyrra, heldur er það, að svo miklu leyti sem um ágreining er hægt að tala, um breytingar á formi, en ekki á efni frumvarpsins.

Ég lét á sínum tíma í ljós þá skoðun, að ég teldi, að mikið af efni þessa frv. ætti miklu fremur heima í reglugerð en lögum, og ég er enn sömu skoðunar, því að það er ókostur og það meiri ókostur en menn sjá fljótt á litið, ef þau atriði eru sett í lög, sem eðlilegt er að standi í reglugerð. Það leiðir til þess, að löggjöfin verður miklu lausari um þau atriði, sem þar er um að ræða, því að reglugerð má alltaf breyta í samræmi við kröfur tímans og allra aðstæðna, en aftur á móti eru lögin látin danka, unz þau eru orðin úrelt og ekki í samræmi við lífið sjálft eins og það er. En þetta skiptir allt miklu meira form þessa máls en efni þess.

Hitt er það, sem ég vildi vekja athygli á, að ég held, að það sé hæpið að halda því fram, að hægt hefði verið að koma í veg fyrir öll slys á vinnustöðum með því einu að setja nýjar reglur til að fara eftir. Og ég hygg, að margt af því, sem í þessu frv. stendur, ætti betur heima í reglugerð, þó að segja megi, að þar sé um að ræða spor í rétta átt. Mér finnst ekki heldur veigamikið það álit, sem kom fram hjá hv. flm., að embætti skipaskoðunarstjóra og öryggiseftirlitið mætti ekki sameina, og ég hygg, að það sé allt sagt út í bláinn, að þar sé allt svo smátt, að ekki sé unnt að spara neitt með sameiningu þessara embætta. Ég hygg, að þessum málum verði svo bezt borgið, að þau séu í einni og sömu hendi, og vildi, að þetta kæmi fram, áður en þetta mál fer í n. Ég tel að vísu ekki líklegt, að þar verði miklar breytingar á gerðar, en þó vil ég segja, að ég tel ekki loku fyrir það skotið, sérstaklega ef sá háttur yrði tekinn að færa málið í annað og heppilegra form.