15.10.1951
Neðri deild: 12. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil ekki skilja svo við þetta mál, að því sé haldið fram, að ég áliti það þýðingarlaust, að þetta frv. verði samþ. Og ég held, að hv. flm. hafi sjálfur misskilið, þegar hann talar um grundvallarmisskilning hjá mér. Ég sagði ekki, að slys hefðu orðið, þó að reglur hefðu verið, og eins og ég tók fram, þá tel ég mikið unnið með því, að settar verði aðrar og fullkomnari reglur til þess að losna við þær þjáningar, sem slysum eru samfara. En ég vildi vekja athygli á því, að það er ekki alltaf að kenna óreglu og skipulagsleysi, þó að slys verði á vinnustöðum, og eins er það ekki nægilegt, að settar séu reglur til þess að fyrirbyggja, að slys komi fyrir á vinnustöðum; þau geta komið fyrir eftir sem áður.

Eins finnst mér það hafa komið í ljós við þessar umr., að um það megi alltaf deila, hvað eigi að standa í reglugerð og hvað í lögum, og ég tel, að það sé full ástæða til, að það atriði verði athugað gaumgæfilega í þeirri n., sem fæ: þetta mál til athugunar, sérstaklega með hliðsjón af þeirri afgreiðslu, sem málið fékk hér á þingi í fyrra. Og eins finnst mér, að sérstaklega ætti að athuga það, að fyrir það, hvernig þetta mál var afgr. hér í þessari d. í fyrra, varð það til þess, að það var afgr. með rökst. dagskrá frá hinni deildinni.