16.11.1951
Neðri deild: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft þetta mál til athugunar og rætt það á nokkrum fundum sínum. Hún hefur einnig áti viðtal við hæstv. iðnmrh. og skipaskoðunarstjóra og verksmiðjuskoðunarstjóra ríkisins, sérstaklega með hliðsjón af þeirri afgreiðslu, sem þetta mál fékk hjá Ed. á síðasta þingi, en þar var málið afgr. með rökst. dagskrá, svo hljóðandi:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti athuga frv. á ný og m.a., hvort ekki sé hagkvæmt og eðlilegt að sameina skipaskoðun ríkisins og verksmiðjueftirlit undir eina öryggismálastofnun og hve mikið það kynni að spara í útgjöldum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta var það fyrsta, sem n. athugaði í sambandi við afgreiðslu þessa máls nú, og kom það í ljós samkvæmt þeim vitnisburðum, sem fyrir lágu um málið, að það mundi að mjög óverulegu leyti sparast nokkuð, þó að þessar tvær stofnanir væru sameinaðar, því að bæði skipaskoðunarstjórinn og verksmiðjuskoðunarstjórinn töldu, að þeirra skrifstofukostnaður og mannahald væri þannig, að hvorugt mundi minnka, að minnsta kosti svo að nokkru næmi, þó að sameinaðar væru þessar tvær stofnanir. Ef skipaskoðunin væri lögð undir verksmiðjueftirlitið, þá töldu þeir, að það yrði a.m.k. að hafa einn fulltrúa í staðinn fyrir skipaskoðunarstjóra, sem mundi þá taka næstum eins mikil laun og skipaskoðunarstjórinn hefði haft, en annað mannahald væri það sama. Og á hinn bóginn væri það alveg eins, þó að verksmiðjueftirlitið yrði lagt undir skipaskoðunina, þá yrði að hafa sérstakan fulltrúa, sem með verksmiðjueftirlitið færi, og mundi mismunurinn á hans launum og verksmiðjuskoðunarstjórans ekki verða meiri en það, að laun og húsnæði og annar kostnaður, sem þar kæmi til, mundi ekki minnka neitt sem héti, þótt þessi sameining færi fram. Hæstv. ráðh. taldi einnig, að rn. hefði athugað þetta mál og ekki séð ástæðu til, að fram færi nein frekari athugun á því en þegar hefur verið gerð. En forstjórar þessara stofnana, bæði verksmiðjuskoðunarstjórinn og skipaskoðunarstjórinn, töldu hins vegar, að síst mundi vinnast neitt í öryggi, þó að stofnanir þessar væru sameinaðar, nema kannske þvert á móti, svo að þessi hugsun um sameiningu á þessum stofnunum var ekki að áliti n. talin vera þannig, að út í það ætti að fara, og það held ég að megi fullyrða, að nm. hafi verið yfirleitt á einu máli um það. Einnig segir í nál. iðnn. á þskj. 184, að n. leggi til. að frv. verði samþ., en með nokkurri breyt. Öll n. er eftir atvikum sammála um þá breyt., sem kemur fram á þskj. 184, að fella niður 12., 13., 14. og 15. gr. frv., sem sundurliða nokkuð nákvæmlega ýmsan aðbúnað á vinnustöðum, hvernig hann skuli vera í einstökum atriðum, bæði um lofthæð, loftrúm, gólf, lýsingu, hita o.fl., sem skal vera á vinnustöðum, en leggur til í staðinn, að ákvæði um þetta verði sett í reglugerð. Þetta tók n. upp, bæði samkvæmt óskum, sem um þetta höfðu komið fram hér í þessari hv. deild, og eins við afgreiðslu málsins í hv. Ed. í fyrra, þannig að hún fellst á, að það mundi vera fullt eins eðlilegt, að þessi ákvæði væru sett með reglugerð, en ekki bundin með l. Með því að hafa um þetta reglugerðarákvæði, en ekki lagasetningu, þá er þetta hreyfanlegra kannske, má segja, eftir því sem ástæður breytast og nauðsyn er á að setja ný ákvæði með breyttum kringumstæðum, þó að hins vegar í nágrannalöndum, sem þetta frv. um þessa lagasetningu er miðað við, séu lagaákvæði um það, hvernig þessum málum skuli skipað. En sem sagt, eftir atvikum og til að greiða fyrir framgangi málsins, þá fellst öll n. á að gera þá breyt. að feila niður þessar greinar með þeim sérákvæðum, sem þær hafa að geyma, og setja í staðinn eina almenna grein um, að ráðh. setji að fengnum till. öryggismálastjóra eða öryggisráðs, ef það verður haft, ákvæði um ráðstafanir til verndar heilbrigði og velferð verkamanna, sem vinna í verksmiðjum og á verkstæðum o.s.frv. Það er í brtt. gert ráð fyrir, að hvort tveggja verði til, að öryggisráð verði, eins og hefur verið gert ráð fyrir, og eins hitt, að það geti komið til, að brtt. hv. þm. V-Húnv. verði samþ., og ef svo verður, þá verða þessi orð, sem standa í svigum um öryggisráð, ekki talin með í okkar till. — Aðrar brtt. hefur n. ekki að gera.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í að ræða einstök atriði frv. Það hefur verið svo margrætt hér á Alþ. áður. Hins vegar flytja tveir nm., 1 . þm. V-Húnv. (SkG) og hv. þm. Mýr. (AE), brtt. nokkrar á þskj. 183, og nú rétt í þessu var verið að útbýta brtt. enn á þskj. 221. Um þessar brtt. skal ég ekki ræða að svo stöddu, en geri ráð fyrir, að hv. flm. lýsi þeim frá sínu sjónarmiði og hvað bak við þær liggur.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði afgr. með þeim brtt., sem iðnn. hefur samþ. og vænti, að málið geti gengið áfram, en þurfi ekki tímans vegna að fara fyrir því eins og á síðasta þingi, að það hálfpartinn dagi uppi. því að ein ástæðan fyrir því, að það var þá afgreitt eins og gert var, var sú, að ekki gafst tími til að afgreiða það.