16.11.1951
Neðri deild: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Auk þeirra brtt., sem hv. iðnn. flytur á þskj. 184 og hv. frsm. n. gerði grein fyrir, þá flytjum við, ég og hv. þm. Mýr., brtt. við frv. á þskj. 183. Það má segja, að þessar brtt. okkar snerti aðeins eitt atriði í frv., sem er 7. kafli þess, um öryggisráð. Samkvæmt þeim kafla er gert ráð fyrir því, að ráðh. skipi 5 manna öryggisráð til 6 ára í senn, og ákvæði eru um það, hvernig þetta ráð skuli skipað og hvert verkefni þess sé. Ákvæðin um öryggisráð voru einnig í frv. því um þetta efni, sem lá fyrir á síðasta þingi, þegar það upphaflega var flutt. En samkvæmt till., sem ég bar þá fram um að fella ákvæðin um öryggisráð niður, þá samþ. þessi hv. d. það. Og þannig fór frv. frá þessari hv. d. á síðasta þingi, að öryggisráðið var fellt niður. Ég er alveg sömu skoðunar um þetta atriði og í fyrra, að aðalatriðið í þessu máli sé það, að sá maður, sem valinn verður til þess að hafa eftirlit í þessum málum, þ.e.a.s. öryggismálastjóri og aðstoðarmenn hans, sinni þessum störfum einungis. Það hefur verið nokkur misbrestur á þessu að undanförnu. Sá maður, sem hefur verið í þjónustu ríkisins við véla- og verksmiðjueftirlitið, hefur haft ýmsum öðrum störfum að gegna fyrir það opinbera, og hefur það tekið tíma frá öryggiseftirlitinu. Þannig tel ég, að þetta eigi ekki að vera framvegis, heldur að þeir menn, sem til þess eru ráðnir að hafa þetta eftirlit, sinni þessu starfi eingöngu. En ég hef ekki trú á, að það sé til bóta, sem hér er lagt til í frv., að hafa 5 manna öryggisráð. Það liggur í hlutarins eðli, að þeir menn mundu hafa þetta sem aukastarf og hefðu aðallega annað að starfa. Og ég hygg, að gagnið verði ekki svo mikið af þessu ráði, þó að það kæmi saman til fundar stöku sinnum, að ástæða sé til að setja það upp. Við höfum nóg af ráðum í þjóðfélaginu og engin ástæða til að fjölga þeim.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, vegna þess að hv. þm. mun vera í fersku minni það, sem um þetta mál var sagt á síðasta þingi. Ég geri ráð fyrir, að eins og meiri hl. hv. d. þá samþ. að fella niður ákvæðin um öryggisráð úr frv., þá muni það einnig verða gert nú.

Eins og ég sagði, þá eru flestar brtt. okkar á þskj. 183 um þetta atriði. Þó er þarna ein brtt., sú 16., um það að umorða 1. málsgr. í 43. gr., og ég má segja, að við leggjum þarna til, að þessi málsgr. verði orðuð á sama veg og ha. d. samþ. á þinginu í fyrra að hafa hana.

Hér hefur borizt nú á þessum fundi þskj. 227, og eru þar brtt. við frv. frá hv. 5. þm. Reykv. (JóhH). Ég geri þær ekki að umtalsefni að svo stöddu, því að hann er ekki farinn að lýsa þeim enn. En þar er að minnsta kosti ein till., sem ég tel varhugavert fyrir hv. þdm. að samþykkja, og kem ég kannske að því síðar, eftir að hv. flm. hefur lýst þessum tillögum.