16.11.1951
Neðri deild: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Um þessar tvær brtt. á þskj. 183 frá minni hl. iðnn. og á þskj. 221 frá hv. 5. þm. Reykv. langar mig aðeins að segja nokkur orð. Eins og hv. frsm. minni hl. — eða ég veit ekki, hvort á að kalla það minni hluta, því að n. er ekki klofin um málið — eins og hv. fyrri flm. till. komst að orði, þá eru þessar brtt., þótt yfir 20 séu, að mestu leyti um eitt atriði, þ.e.a.s. um að fella niður úr frv. ákvæðin um öryggisráð. En eins og hann lýsti, þá gerir frv. eins og það er nú ráð fyrir, að kosið verði öryggisráð, þannig skipað, að Alþýðusamband Íslands, Félag íslenzkra iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna tilnefna í ráðið tvo verkamenn og tvo fulltrúa vinnuveitenda og síðan verður einn maður skipaður af ráðh., án tilnefningar. Þetta atriði er sett í frv. til þess að fá viðkomandi aðila, bæði verkamenn og atvinnurekendurna, til þess að reyna að interessera sig fyrir því, að allur aðbúnaður í verksmiðjum og á vínnustöðum sé í því lagi, sem l. gera ráð fyrir, og enn fremur til þess að vera á verði um það að taka upp öll nýmæli, sem fram kunna að koma og gætu verið til að auka öryggi á vinnustöðum frá því, sem lögboðið er, m.ö.o., hafa frumkvæði að setningu nýrra ákvæða, þar sem það gæti orðið til bóta. Ég er þess vegna eindregið á móti því, að ákvæðin um þetta öryggisráð verði felld niður, og vænti, að hv. flm. till. geti einnig á það fallizt, því að ég tel það stórt spor í þá átt að gera l. virkari í því efni, sem þau eiga að ná til, heldur en ella, og það séu meiri líkur til, að þau komi að fullum notum, ef öryggisráð er starfandi, heldur en ef það er ekki.

Um brtt. hv. 5. þm. Reykv. get ég verið fáorður. 1. og 2. og reyndar 3. brtt. líka eru ekki að verulegu leyti a.m.k. neinar efnisbreyt.; að vísu eru ákvæði fyrstu brtt. um það, hver ber ábyrgð á gæzlu farandvélar, nokkuð ólík því, sem tíðkast um aðrar vélar. Er nokkur meiri þörf á því að tilkynna, hver ber ábyrgð á gæzlu farandvélar, heldur en að tilkynna um slíkt viðkomandi öðrum vélum, sem öryggiseftirlitið hefur umsjón með? Ég sé ekki, hver meiri ástæða er til að skýra öryggiseftirlitinu frá því, hver beri ábyrgð á farandvélum, heldur en með aðrar vélar, sem undir eftirlitið heyra. Menn koma og fara í þessu efni, og það er ekki alltaf auðvelt að gera aðvart um það, hver með þessar vélar fari. Ég sé ekki, hvaða ástæða getur verið til þess að hafa þetta öðruvísi en um aðrar vélar. Annars skiptir þetta ekki miklu máli.

Önnur brtt. er um það, að í staðinn fyrir að það beri að lagfæra, ef eitthvað ber út af, þá komi, að það skuli tilkynna það, sem út af ber. Ég kynni betur við það, sem í frv. stendur, og tel ekki verulega bót að því, að fyrst verði byrjað á því að tilkynna þetta, ef l. annars gera ráð fyrir, að það, sem að er, skuli lagfært. Mér er kunnugt um, að verkamenn ýmsir, sem hafa um þessi mál hugsað, eru því mjög fylgjandi, að ákvæði líkt og þetta verði sett í l. Og eins er mér kunnugt um, að atvinnurekendur, sumir að minnsta kosti, sem ég hef litt tal um þetta við, eru einnig áhugasamir um, að einhver ákvæði af þessu tagi verði sett í l. Lagasetningar og reglugerðarsetningar er atriði út af fyrir sig. Og eftirlitið yfirleitt og l. og reglugerðirnar koma náttúrlega ekki að fullu gagni, nema vakað sé yfir því, að þessum l. og reglugerðum sé hlýtt.

Ég er alveg sammála hv. fyrri flm. till. á þskj. 183, hv. þm. V-Húnv., þar sem hann sagði, að öryggismálastjóri ætti að hafa þetta starf á hendi eingöngu. En þó að hann hafi þetta starf á hendi eingöngu, þá getur það verið honum mikið til styrktar að hafa við hlið sér menn, sem eru á vinnustöðunum og hafa aðgang að vinnustöðunum og finna, hvar skórinn kreppir að, og finna, hvar betur mætti fara heldur en er. Ef æskilegt samstarf tækist á milli þessara aðila, verkamannanna, sem eiga að búa að þessum öryggisútbúnaði, og atvinnurekenda, sem eiga að láta þetta í té, þá á það áreiðanlega að verða til þess að auka möguleika fyrir því, að þessi öryggisútbúnaður sé eins og bezt má verða á þessum stöðum.

Mér skilst, að einasta hugsun hv. flm., eftir því sem hann sagði, sé sú í sambandi við afnám þessa öryggisráðs, að það sé þegar of margt af þessum ráðum í landinu og það sé því ekki ástæða til að bæta einu ráðinu þar við. En þessi skoðun réttlætir ekki það að fella niður ákvæði um öryggisráð úr frv., ef rökstudd ástæða er til, að gagn muni vera af því. sem ég hygg tvímælalaust að geti orðið, ef farið er eftir því, sem í frv. er gert ráð fyrir um vinnubrögð þess.

Þriðja brtt. er svo um það, að ekki þurfi að sækja um leyfi til öryggismálastjóra til þess að setja á stofn verksmiðju. Og hins vegar má ekki samkvæmt brtt. taka verksmiðju til afnota tyrr en eftirlitsmaður hefur gefið viðkomandi skoðunarvottorð um, að allur útbúnaður sé í fullu lagi. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir, að samþykki öryggismálastjóra verði fengið áður en hafizt er handa. En samkv. brtt. er gert ráð fyrir, að þetta leyfi verði fengið, þegar búið er að reisa verksmiðjuna, og gæti þá farið svo, að það hefði verið fullt eins heppilegt að leita þessa samþykkis áður en byggingin hefði verið hafin.

Fjórða brtt. er svo um vinnuréttindi vélstjóra, eða m.ö.o., að setja skuli ákvæði um það, að ekki megi aðrir fara með vélar en þeir, sem til þess hafa full réttindi. Þetta var rætt hér á síðasta þingi og til þess vísað, að þessi ákvæði mundu frekar eiga heima annars staðar en í þessum l. Og ég álít enn, að svo sé.

En annars eru þessar brtt. á þskj. 221, að mér finnst, ekki svo sérstaklega veigamiklar, þó að ég hins vegar sjái ekki, að þær séu nauðsynlegar. En ég legði miklu meira upp úr því, að till. á þskj. 183 yrði ekki samþ., og ég fyrir mitt leyti mun ekki greiða atkvæði neinum af þeim af þeim ástæðum, sem ég hef lýst, að ég tel, að þær muni ekki hafa þau áhrif, að það sé að minnsta kosti um verulegar bætur af þeim að ræða, heldur hið gagnstæða.