14.01.1952
Efri deild: 58. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal fúslega viðurkenna, að á síðasta þingi gaf ég þessu máli lítinn gaum. Það var utan míns ráðuneytis, og ég taldi það svo tæknilegt, að það þyrfti langan tíma til að taka afstöðu til þess. Það er ekki langt síðan ég tók við þessum málum, og störfum mínum hefur verið þannig háttað síðan, að ég hef ekki getað sett mig nægilega inn í málið frá þeirri hlið, sem að rn. snýr, svo að ég verð að viðurkenna þessa vanþekkingu mína á málinu. Annars setti ég mig inn í málið eins og ég gat við umr. í hv. Nd.

Það er vitanlegt, að öryggismálum okkar er í mörgu áfátt og nauðsyn ber til að koma þeim í fastara horf. En það er erfitt verk og þarfnast mikils undirbúnings, því að inn í það spinnast mörg tækniatriði, og það verður að viðurkenna það, að við lauslegan yfirlestur þessa frv. rekur maður augun í talsverða skriffinnsku og smámunasemi, en það getur verið, eins og hv. þm. Barð. sagði, erfitt fyrir þm. að sníða þessa galla af frv., sem byggð eru á tæknilegum atriðum, við atkvgr.

Ég er þeirrar skoðunar, að enda þótt heildarlagasetning um þessi mál sé æskileg, þá sé það ekki mjög aðkallandi, vegna þess að við höfum ákvæði í lögum um sum þessi efni, eins og t.d. um eftirlit með uppskipun o.fl. Ég hef talað um þetta við yfirmann þessara mála, og er hann nú að rannsaka þetta. En það kemur að því sama með þetta og annað, að ef á að stækka það, þá þarf það meira fé og fleiri starfskrafta. Þetta er óhjákvæmilegt, sérstaklega ef ekki er hægt að sníða ýmsa skriffinnskuagnúa af þessu frv., ef svo færi, að það yrði samþ.

Hv. þm. Barð. sagði, að það væri álit n., að sumir starfsmenn við eftirlitið ræktu ekki störf sín. Gat hann um tvo sérfræðinga í þjónustu þess, sem stunduðu kennslustörf, og hélt hann því fram, að þeir hlytu að hafa leyfi ráðh. til þess. Mér er ókunnugt um, hvort þetta stendur í skipunarbréfi þeirra. Ég hef ekki gefið þeim leyfi til þess, en hitt getur verið, að þeir hafi fengið heimild frá fyrrverandi ráðh. til þess að inna þessi störf af hendi. Það er full ástæða til þess að láta athuga þetta, og mun ég sjá svo um, að það verði gert. Það er enn ríkari ástæða til að rannsaka þetta, þegar þess er gætt, að eftirlitið telur sig hafa minni starfskrafta en nauðsynlegt sé. T.d. hefur ekki verið tekið upp eftirlit með uppskipun vara vegna vöntunar á starfskröftum. Yfirmaður eftirlitsins hefur kvartað um þetta, en ég álít samt, að þær reglur, sem gilda um uppskipun, komi að notum, þótt eigi séu til menn, er líta eftir þeim, þar sem reglunum verður að hlíta.

Ég sé hér á þskj. 571, að meiri hl. iðnn. telur nauðsynlegt að afhuga, hvort ekki sé ástæða til að sameina undir eina stjórn allt það eftirlit, sem nú er með skipum, verksmiðjum, flugi og bilaflutningum í landinu. Það mun hafa verið rannsakað á síðasta þingi, hvort sparnaður yrði að sameiningu skipa- og vélaeftirlitsins, og er mér sagt, að svo hafi ekki reynzt. Mér er þó ljóst, að þetta er lítið rannsakað. En svo er hitt, og það hlýtur að vera meginatriðið, hvort slík samfærsla mundi auka öryggið eða ekki, og skiptir þá litlu máli, hvort kostnaðurinn eykst eða minnkar við það. Þetta þarf næst nákvæmrar rannsóknar.

Mér skilst, að bæði meiri og minni hl. iðnn. séu sammála um að vísa frv. til stjórnarinnar til frekari athugunar. Ef svo verður gert, mun ég láta rannsaka það sem allra fyrst og eins vandlega og unnt er og þá sérstaklega, hvort sameiningin gæti orðið til þess að auka öryggið eða ekki.