18.01.1952
Efri deild: 64. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. iðnmrh. minntist á það við þessa umr., að honum væri ókunnugt um það, hvort hægt væri að steypa þessum tveimur stofnunum saman, og hann áliti að ekki yrði að því neinn sparnaður. Ég vil ekki ræða málið eingöngu út frá því, hvort sparnaður er að því eða ekki, en það er sýnilegt, að það er óþarfi að hafa þetta skrifstofuhald á báðum stöðunum, ef steypt er saman, og þá mundi einnig sparast húsnæði, en það er fremur aukaatriði. Hitt er aðalatriði, hvort hægt er fyrir sama fé að fá meira og betra öryggi, og tel ég tvímælalaust, að það sé hægt. Ég tel m.a. vera fjarstæðu að vera að senda mann til þess að skoða 100 ha. dieselvél í mótorbát, sem liggur við bryggju, og svo annan til að skoða sams konar 100 ha. vél, sem liggur í frystihúsi 10 metra frá bryggjunni. En þetta er það, sem verið er að gera undir þessu fyrirkomulagi, og það sama er með gufukatlana, þeir eru skoðaðir við bryggju í skipunum og síðan af annarri stofnun í sömu viku eða sama mánuði annar ketill, sem er í verksmiðju nokkra metra þaðan sem skipið liggur. Þetta er svo auðskilið, að það þarf ekki sérfræðing til að skilja, að þetta er ekki það skipulag, sem á að hafa á þessum málum.

Ég vil taka það fram, að ég tel mjög mikilsvert, ef hæstv. ráðh. sæi sér fært, hvort sem frv. verður samþ. eða ekki, að láta athuga á yfirstandandi ári, hvort ekki væri hægt að koma upp öryggismálastofnun með öryggisráði, sem hefði yfir öllum þessum málum að ráða. Ég álít, að það öryggisráð ætti að vera skipað öðruvísi en hér er gert ráð fyrir. Í því ætti að vera fulltrúi frá vátryggingarfélögunum, sem greiða tjónin; það eru ekkert lítil tjón, sem verða hér á hverju ári. Slysavarnafélag Íslands ætti að hafa annan fulltrúa; það er stofnun, sem hefur á þessu mikinn áhuga og starfar alveg sérstaklega í því augnamiði að forða slysum. Síðan ætti ríkisstj. að skipa form., og svo ættu atvinnurekendur að hafa einn fulltrúa og verkalýðsfélögin einn. Margt gott gæti af þessu leitt, og vil ég vænta þess, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að láta athuga þetta. Hitt tel ég fráleitt, að fara aðeins eftir umsögn þeirra manna, sem hafa hagsmuna að gæta í sambandi við það, hvort þetta er sameinað, þ.e. forstjóra véla- og verksmiðjueftirlitsins og forstjóra skipaeftirlitsins. Það eru allt aðrir aðilar, sem eiga að segja um það mál, og ég hygg, að þetta mál hefði verið betur undirbúið á sínum tíma, ef í þessari n. hefðu verið menn, sem einnig þekktu eitthvað annað en það, sem snertir iðnaðinn, því að hún hefur sannarlega ekki farið út fyrir það verksvið. — Þetta vildi ég segja við hæstv. ráðh.

Mér skilst, eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að nú sé því miður fjöldi manna, sem hafa slasazt á s.l. ári í bifreiðaárekstrum, eitthvað um 150 manns, þar af hvorki meira né minna en 5 dauðaslys. Mér finnst fráleitt að vera að semja langan og mikinn lagabálk um þá atvinnugrein, sem enn þá hefur sem betur fer færri slys í för með sér en aðrar atvinnugreinar. Það er siður en svo, að ég sé á móti því að setja á fót öryggismálastofnun og stjórn, en það á ekki að setja það fyrir hverja atvinnugrein fyrir sig og sízt af öllu fyrir þá atvinnugrein, sem er umfangsminnst. eins og hér um ræðir.

Þá vil ég aðeins segja nokkur orð í sambandi við ummæli hv. 6. landsk. (HV). Mér fannst á hans ræðu, að hann væri ekki langt frá minni skoðun og gæti vel fellt sig við þær till., sem hér eru bornar fram, og væri til viðtals um það að breyta frv. Þá held ég, að það sé heldur of mikið sagt, að það hafi ekki verið kastað höndunum að þessu verki. Langmesti tíminn hjá þeim mönnum, sem undirbjuggu málið, fór í að ferðast um landið til að kynna sér, hvort þær ásakanir, sem bornar voru á stofnunina, væru réttar, og svo, þegar því verki var lokíð, að safna að sér alls konar reglugerðum og l. frá öðrum löndum, þar sem eru allt önnur skilyrði en hér hjá okkur, og síðan að taka upp reglugerðarákvæði og setja þau inn í l. Þetta var undirbúningurinn undir málið. En að þeir hafi kynnt sér hitt atriðið, hvort það væri hægt að treysta öryggið með sem minnstum kostnaði með því að setja þetta saman undir eina stofnun, það kom þeim aldrei til hugar.

Hv. þm. sagði, að l. væru frá 1928 og síðan hefði margt breytzt í iðnaðinum.

Það er alveg rétt, en reglugerðum í sambandi við l. frá 1928 hefur verið breytt síðan, og ég veit ekki, hvort það er réttara í sambandi við svona mál að setja inn í það alls konar reglugerðarákvæði en að setja reglugerðir samkvæmt l. eins og gert hefur verið. Hitt er mér óhætt að fullyrða, og þar hef ég fyrir mér einnig ummæli þess manns, sem kom hingað frá Ameríku til að athuga þessi mál, að það hefði verið hægt að fyrirbyggja öll þau slys, sem hafa orðið í sambandi við iðnaðinn á Íslandi, að svo miklu leyti sem það er hægt, með þeim reglugerðum og lögum, sem fyrir eru. Þessi maður hefur bent á það, að til væru lög og reglugerðir, sem gætu heimilað viðkomandi stofnunum að grípa inn í meira en gert hefur verið. Það hafi ekki verið gert, og af þeim ástæðum hafi slysin orðið. Hins vegar er villandi sú slysatala, sem bent er á af hv. flm. í aths., því að þar er átt við öll þau slys, sem orðið hafa á Íslandi, í hvaða grein sem er, og það er ekki nema brot af því í iðnaðinum. Ég er líka hv. þm. sammála um það, að ef farið er inn á svona víðtækt eftirlit, þá komi til athugunar, hvort ekki á að taka svo og svo mikið af landbúnaðinum með, því að það er sannarlega ekki minni slysahætta við notkun margra véla þar en í þeirri grein, sem hér hefur verið bent á.

Ég skal svo ekki beita neinu málþófi í sambandi við þetta mál. Ég hef tekið fram kjarnann í mínum aths. og hirði ekki um að svara hverju einstöku atriði, sem fram hefur komið, en kjarninn er þessi, að það er farið hér inn á í frv., eins og það er, svo víðtækt eftirlitsstarf, sem yrði ekki annað en skrifstofustörf og hefði lítil áhrif á öryggið í landinu, en mundi kosta mjög mikla peninga, ef það ætti að verða nokkuð annað en pappírsgagn. Þetta þykir mér aðallega að l. og finnst nauðsynlegt og hyggilegra að breyta frv. í það horf, að hægt sé að tryggja öryggið með sameiningu á þessum sviðum og föstum tökum á málinu í heild, heldur en að binda það við þessa einu grein, sem hér um ræðir. — Skal ég svo ekki ræða þetta meira, nema sérstakt tilefni gefist til.