25.10.1951
Neðri deild: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

20. mál, hegningarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil segja það, að mér kom á óvart, að það skyldi ekki koma fram frv. um þetta mál án þess að tala um forsetavald, þótt talað sé um forseta lýðveldisins. Þótt við höfum að forminu til forseta, þá nær hans raunverulega vald ekki langt. Aðstaða forseta í þjóðfélaginu er allt önnur en konungsins var, vegna þess að sjálf konungshugmyndin byggir á hugmyndakerfi, sem er að miklu leyti upprætt, en þó mikið eimir eftir af í þeim löndum, sem eru enn konungsríki, frá gömlum tímum, en alls ekki á að vera til þar, sem forseti er. Ég vil beina því til nefndarinnar, að hún athugi, hvernig þetta er í öðrum löndum. Það er enginn vafi á því, að forseti á að hafa alla þá vernd, sem konungurinn hafði. Þó er eitt athugandi, að forsetinn er kosinn og er ábyrgur, en konungurinn var ekki kosinn og ekki ábyrgur. Að fara að láta þá vernd, sem var konungsins, ná til fjölskyldu forsetans, tíðkast ekki í neinu öðru lýðveldi. Fjölskylda forsetans nýtur þar sömu verndar og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Forsetinn er þar bara sá fyrsti meðal jafningja, en konungurinn hefur algera sérstöðu. Fjölskylda forsetans er því bara eins og jafningjar í þjóðfélaginu, en fjölskylda konungsins hefur sérstaka lögvernd. Það var ekki tilgangurinn að yfirfæra konungsvaldið og breyta bara nafninu og kalla hann forseta. Það er ekki hægt að yfirfæra þetta svona. Ég vil á engan hátt draga úr, að forsetinn eigi að njóta sérstakrar verndar, líkt og er í öðrum lýðræðisríkjum. En mér virðist þetta ekki lýsa eins miklum lýðræðishugsunarhætti og ætti að vera og of mikið af gömlum hugmyndum um konung saman við þetta, svo að ég kann ekki við, að þetta verði fært í lög.