25.10.1951
Neðri deild: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

20. mál, hegningarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frsm. allshn. sagði, að hann teldi, að nánasta fjölskylda forseta væri, auk forsetans, kona hans og börn, enda sennileg skýring. En þá er þetta líka gert víðtækara en er í gildandi lögum. Þar er aðeins talað um konung, drottningu og konungsefni. En nú verður enginn hér, sem samsvarar konungsefni. Til þess að þetta sé eins og áður var, átti þetta eingöngu að ná til forsetans og konu hans. Ég vildi vekja athygli á þessu, svo að nefndin geti athugað þetta, áður en frv. verður afgreitt. Þetta er ekki þýðingarmikið atriði, en ég sé ekki ástæðu til að gera þessi lagafyrirmæli viðtækari en áður hefur verið. Vor blessaður kóngur komst af með þessi ákvæði eins og þau voru, og ég sé ekki ástæðu til að færa þau út.