21.01.1952
Efri deild: 67. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gefið n. tækifæri til að athuga þetta mál. Það var engan veginn vegna þess, að við vildum stöðva málið, að n. vildi fá tækifæri til að athuga frv. eftir þær breyt., sem gerðar voru á því. að vísu var einn nm. ekki mættur, hv. 4. landsk. (StgrA), en n. leggur til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt., sem hún leggur fram skriflegar, og skal ég lýsa þeim nokkuð.

Það er fyrst við 1. gr., að í staðinn fyrir orðin „einn verkamaður“ komi: tveir verkamenn. — Ég bar fram brtt. um það, að í staðinn fyrir einn verkamann kæmi 3 verkamenn, en það var fellt hér í d. og ákveðið, að hvert fyrirtæki skyldi eftirlitsskylt, sem hefði einn mann og einn verkamann. Við teljum þetta óþarft og settum inn, að þetta skyldi aðeins gilda þar, sem væri einn maður og 2 verkamenn, og væntum þess, að hv. d. fallist á þetta.

Þá er 2. brtt. við 2. gr., að í stað orðanna „einn eða fleiri“ í 2. málsgr. komi: tvo eða fleiri — og svo allir þeir undirliðir; það er aðeins afleiðing af því, ef 1. till. verður samþ., og er óþarft að ræða það nánar.

Þá er brtt. við 23. gr., og hygg ég, að sú till. hafi verið felld niður af misskilningi, að síðasta málsgr. orðist svo: „Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um öryggisráðstafanir um fermingu og affermingu skipa.“ En í frumvarpinu stendur nú:

„Um fermingu og affermingu skipa gilda eftirfarandi sérstök ákvæði: Á flutningsstykki, sem eru 1000 kg að þyngd með umbúðum eða meira og fermd eru í íslenzkri höfn, skal þunginn vera greinilega merktur og þannig, að merkingin máist ekki brátt af. Sé ómögulegt eða illgerlegt að ákveða þungann nákvæmlega, getur öryggiseftirlitið leyft, að ágizkaður þunginn sé merktur á umbúðirnar. Að öðru leyti setur ráðherra reglur um fermingu og affermingu skipa í samræmi við ákvæði þessara laga.“

Ég hygg, að þetta ákvæði yrði pappírsákvæði, sem ekkert öryggi yrði að og mundi kosta svo mikla fyrirhöfn, að það yrði aldrei ráðizt í það. Þess vegna leggjum við til, að þetta fallí niður, en ráðh. setji reglugerð um þetta efni, og við ætlumst til, að sú reglugerð sé þannig útbúin, að það verði eitthvert öryggi að eftirlitinu, og teljum málinu betur borgið með þessari breyt. en eins og það er í l.

Þá er síðasta brtt. hjá okkur, þ.e. við 32. gr., að 3. málsgr. falli niður, en hún hljóðar svo: „Trúnaðarlæknir öryggiseftirlitsins er kennari við Háskóla Íslands í heilsufræði.“ Hér er verið að stofna nýtt embætti, og ég er ekki alveg viss um, hvort hv. d. hefur verið það hóst, þegar gengið var til atkv. um þetta mál, og ætlazt til, að það yrði gert, en það er sýnilegt, að ef þessu er ekki breytt, þá er verið að stofna nýtt embætti. Við leggjum því til, að þessi málsgr. falli niður, og þá er það að sjálfsögðu öryggiseftirlitsins að snúa sér til þeirra lækna, sem annars eiga að hafa þessa heilsugæzlu á hendi, sem eru héraðslæknar á hverjum stað.

Einnig leggjum við til, að aftan við greinina bætist: „Fastráðnir starfsmenn öryggiseftirlitsins skulu hafa störfin sem aðalstörf og mega ekki taka að sér önnur störf, er ætla má, að komi í bága við aðalstarfið.“ Þetta var að vísu fellt við síðustu atkvgr., en þá var það orðað þannig, að þetta væru starfsmenn véla- og verksmiðjueftirlitsins, en það ákvæði er nú fellt niður. Þetta er hugsað til þess að tryggja öryggið, að gera þetta að aðalstarfi og banna með l., að þeir, sem við þetta starfa, megi hafa annað starf sem aukastarf, sem ætla má, að komi í bága við aðalstarfið.

Þetta eru þær till., sem n., 4 nm., leggur til að verði samþ. Hins vegar ber minni hl. fram eina brtt. um það, að þar sem notaður er vélakostur, sem er eitt hestafl eða meira, þá komi það undir eftirlit. Ég vil leyfa mér að benda á, að ef það er skoðun d., að allur rekstur í landinu, þar sem notað er eitt hestafl eða meira, skuli vera eftirlitsskyldur, þá sé ég ekki, að það sé hægt annað en taka búrekstur með, þar sem notað er eitt hestafl eða meira, því að það er ekki stætt á því að halda því fram, að t.d. trésmið, sem notar eitt hestafl eða meira á verkstæði sínu, sé skylt að koma undir þau ákvæði, en búrekstur, sem hefur 10–20 hestöfl í sinni þjónustu, sé undanþeginn eftirliti.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða um frv. Það er ekki mín ósk, að þetta mál dagi uppi, en ég vil aðeins leggja þessar brtt. fram fyrir hæstv. forseta.