10.10.1951
Efri deild: 7. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

39. mál, lántaka vegna landbúnaðarframkvæmda

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir skýr svör við spurningum mínum. Að því er snertir spurninguna um það, hvort ríkisstj. hefði leitað eftir láni til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum, var svar hæstv. ráðh. eindregið. Hann kvaðst ekki hafa leitað eftir láni í því skyni. Þetta er stutt og skýrt svar, en ég hefði gjarnan kosið það á annan veg. Um hina spurninguna, hvort útilokað væri nú að fá lán frá Alþjóðabankanum til sementsverksmiðjunnar, var ráðh. langorður, en niðurstaða hans varð sú, að í bili væri ekki að vænta frekari lána frá þeirri stofnun. Hve löng biðin yrði, gat hann ekki sagt um, en það væri engan veginn útilokað, að hægt yrði að fá slíkt lán í framtíðinni. Hæstv. ráðh. lét skína í það, að að hans dómi væri lántaka til húsabygginga í kaupstöðum ekki sambærileg lántöku til landbúnaðarins, þar sem hin síðarnefnda yrði til þess að auka gjaldeyristekjurnar eða spara gjaldeyri með því að draga úr innflutningnum. Nú veit hæstv. ráðh., að það fjármagn, sem fæst með þessu landbúnaðarláni, rennur einmitt mestmegnis til húsabygginga, og það getur því orðið bið á því, að þess gæti í gjaldeyrisöflun okkar. Og ég lít svo á, að það megi sýna fram á það með sömu rökum og beitt er í sambandi við landbúnaðarlánið, að lán, sem varið yrði til þess að byggja íbúðarhús í kaupstöðum og kauptúnum, auki framleiðsluna í landinu og bæti þar með gjaldeyrisafkomuna. Hv. þm. Barð. benti réttilega á það við 1. umr. fjárlaganna, hve mikilsvert það væri fyrir hagsmuni þjóðarinnar, að verkafólkið byggi við gott og heilsusamlegt húsnæði. Í því atriði er ég honum fyllilega sammála. Ég verð því að líta svo á, að annað sjónarmið en hæstv. ráðh. vill vera láta hafi ráðið þessari lántöku. Það má telja víst, að sá gjaldeyrissparnaður, sem hefði orðið af byggingu sementsverksmiðju, hefði vegið margfalt á við þann sparnað, sem skapast af fyrirhugaðri eflingu landbúnaðarins. Ef fyrrnefnt sjónarmið hefði ráðið, hefði því verið byrjað á að taka lán til sementsverksmiðjunnar, og við verðum þá að slá því föstu, að önnur sjónarmið en gjaldeyrissparnaður hafi ráðið í þessu máli.