29.10.1951
Efri deild: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 125 leyft mér að bera fram frv. til l. um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins. — í 1. gr. frv. er tekið fram, að ríkisstj. skuli heimilt að fela rafmagnsveitum ríkisins að virkja eftirfarandi ár í Vestur-Barðastrandarsýslu: Fossá í Suðurfjörðum í 450 hestafla orkuveri; Seljadalsá við Bíldudal í 450 hestafla orkuveri; Suðurbólsá á Rauðasandi í 850 hestafla orkuveri — og leggja þaðan aðalorkuveitur til Bíldudals, Patreksfjarðar og um nálægar byggðir. Í 2., 3. og 4, gr. eru ákvæði, sem venja er að taka upp í slík l., að öðru leyti en því, að hér er ákveðin 13 millj. kr. upphæð, sem samkvæmt áætlun raforkumálastjóra er talin vera nægileg til þess að standa undir þessum kostnaði. — Þá er einnig sett bráðabirgðaákvæði um það, að þar til framkvæmdum samkv. 1. gr. er lokið, svo að Bíldudalur og Patreksfjörður hafa fengið raforku frá einhverju því orkuveri, sem þar um ræðir, þá skuli þeim veitt aðstoð úr ríkissjóði til þess að framleiða rafmagn með díeselvélum fyrir sama verð og raforkuver ríkisins selja raforkuna. — Ég skal með nokkrum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna þetta frv. er fram borið og hvers vegna bráðabirgðaákvæðið er einnig sett hér inn, sem er óvenjulegt í sambandi við frv. um ný orkuver og nýjar orkuveitur.

Á síðasta Alþ. bar ég fram ásamt hv. 6. landsk. (HV) frv. til l. um nýja orkuveitu rafmagnsveitna ríkisins, á þskj. 201, þar sem gert er ráð fyrir því að heimila ríkisstj. að fela rafmagnsveitum ríkisins að virkja Dynjandisá í 7000 hestafla orkuveri og leiða rafmagnið um Vestfirði. Þetta mál fékk þá meðferð í iðnn. þessarar d., að það var samþ. og gefið út nál. um að leggja til, að frv. yrði samþ., eftir að leitað hafði verið álits raforkumálastjóra um málið, sem var látið fylgja nál., en hann hafði gert aths. í sambandi við frv., sem ég vil leyfa mér að benda nokkuð á. Hann upplýsti m.a., að rannsókn, sem farið hefði fram undanfarin ár, sýndi, að Dynjandisá mundi varla gefa meira en 5000 hestöfl í stað 7000, sem gert var ráð fyrir í frv. Hann bendir einnig á, að mikil truflun mundi verða á veitu frá þessu orkuveri á veturna vegna snjóa og iss. Háspennulinan frá virkjuninni verði að liggja yfir fimm eða fleiri erfiða fjallgarða, og leggja verði sæstreng á fjórum stöðum frá virkjuninni til notenda. Virkjunin yrði því kostnaðarsöm bæði í byggingu og rekstri, enda taldi raforkumálastjóri rétt að setja inn 60 milljónir í staðinn fyrir 30 millj., sem gert er ráð fyrir í frv. Hann gefur svo upplýsingar um raforkuverð í landinu, þar sem það m.a. kemur fram, að Hafnarfjörður er með 14 aura, meðan Patreksfjörður er með 901/2 eyri á kwst. Hann leggur þó til, að frv. sé samþ., en tekur fram í sínu áliti, að ef eigi að samþykkja virkjun Dynjandisár, þá komi varla til mála að samþykkja að virkja Fossá í Hólshreppi samtímis. Afgreiðsla þessa máls hér á Alþ. var sú á s.l. vetri, að samþ. voru heimildarlög til þess að virkja Fossá í Hólshreppi, en neitað um heimild til þess að virkja Dynjandisá. Að vísu var það samþ. hér í d., en Nd. leit svo á, að frv. ætti ekki að verða að l., og þar var því frv. geymt svo lengi, að ekki vannst tími til þess að ganga frá afgreiðslu málsins. Af þessu er sýnilegt, að Alþ. hefur raunverulega tekið þá stefnu í raforkumálum Vestfjarða að fresta um stund virkjun Dynjandisár og reyna heldur að útvega á einn eða annan hátt nauðsynlegt rafmagn með smærri virkjunum og dieselrafstöðvum. Öðruvísi verður ekki skilin afgreiðsla Alþ. á málinu, enda hefur það fengizt upplýst síðan frá raforkumálastjóra, að það komi ekki til mála, að hafin verði virkjun Dvnjandisár fyrr en eftir 10–15 ár. — Út af þessari meðferð málsins á Alþ. og út af þeirri yfirlýsingu, sem ég hef fengið í sambandi við þessi mál frá raforkumálastjóra, þá hafði ég óskað þess á s.l. sumri, að gerð yrði athugun á því, hvaða aðrar ár gæti komið til greina að virkja í Vestur-Barðastrandarsýslu. Hefur raforkumálastjóri orðið við þessum tilmælum mínum og látið rannsaka ýmsar ár í Vestur-Barðastrandarsýslu, og fylgir skýrsla um þær rannsóknir sem fskj. á bls. 3 á þskj. 125. En af þessari rannsókn er ljóst, að þar koma til greina Fossá í Fossfirði með 450 hö., Seljadalsá við Bíldudal með 450 hö., og einnig mætti virkja hana með 260 hö. með því að nota nokkurn hluta af aflinu, og svo Suðurbólsá á Rauðasandi með 850 hö., Ósá í Patreksfirði með 200 hö. og Vatnsdalsá í Vatnsfirði með 585 hö.

Eftir að þessar upplýsingar lágu fyrir, þótti mér rétt og skylt að bera fram það frv., sem hér liggur fyrir, og legg ég aðaláherzlu á, að heimilað sé að virkja þær 3 ár, sem ég hef minnzt á hér í 1. gr. Ef horfið væri að því að lokinni rannsókn að virkja þegar Suðurbólsá, þá mundi sú virkjun nægja um mjög langan tíma til þess að fullnægja þörfum Bíldudals, Patreksfjarðar og annarra byggða, sem þar liggja, um rafmagn. En hins vegar mun þessi virkjun, eftir því sem komið hefur fram hjá raforkumálastjóra, kosta um 5.5 millj. kr. auk veitunnar til Patreksfjarðar og Bíldudals, og mundi kostnaðurinn allur að líkindum verða um 6 millj. Það væri að sjálfsögðu æskilegt, að hægt væri að virkja þessa á fyrst, en það verður að fara eftir áliti raforkumálastjóra annars vegar og getu ríkissjóðs hins vegar um það, hvort hægt er að taka þetta stökk allt í einu. Hins vegar er sýnilegt, að ef það er ekki hægt, þá liggur næst að virkja Fossá í Suðurfjörðum með 450 hö., sem um nokkuð langt skeið mundi geta fullnægt þörfum íbúa Bíldudals og Patreksfjarðar, með því að jafnframt væru notaðar þær dieselrafstöðvar, sem þar eru fyrir, sem eru um 900 hö. og nota mætti sem öryggisstöð fyrir báða þessa staði, en þessi kostnaður er ekki talinn verða meiri en 2.7 milljónir, eftir því sem áætlað er, að viðbættum 500–600 þús. kr., sem veitan um Patreksfjörð og Bíldudal mundi kosta. Þegar litið er á almennan kostnað í raforkumálum, verður ekki annað séð en að framkvæmanlegt sé að koma þessum virkjunum upp, sem mundu bæta úr þeirri rafmagnsþörf, sem er orðin svo aðkallandi á báðum þessum stöðum. Ég vil benda á það, að ef þessi leið yrði valin, mundi fást lína meðfram byggðinni frá Fossi að Bíldudal og þess utan frá Bíldudal til Patreksfjarðar um Tálknafjörð, og sú lína yrði byggð, hvort sem valin væri Dynjandisá eða virkjuð áin, sem hér um ræðir. Þessi veita lægi að vísu yfir einn fjallgarð nokkuð örðugan, sem er 400 m hár, og annan, sem er miklu lægri, en hjá því verður ekki komizt, hvaða leið sem valin er, að leggja veituna yfir þessa tvo fjallgarða. Yrði þessi leið valin, þá er aftur möguleiki til þess að virkja Seljadalsá við Bíldudal í 450 hö. og fá þannig 900 hö. úr báðum þessum orkuverum án þess að bæta við nýrri veitu. Hins vegar væri Rauðasandshérað útilokað, og þess vegna væri æskilegt, ef hægt væri, að taka Suðurbólsá í upphafi og virkja hana í 850 hö. Ég skal geta þess, að ég hef ekki lagt til, að tekin yrði lina til nota á Tálknafirði, vegna þess að mér er kunnugt um, að verið er að undirbyggja þar héraðsrafmagnsveitu, sem þeir menn ætla sér að koma upp sjálfir með framlagi frá sér og ábyrgð ríkissjóðs og hafa þegar gert mjög mikið að undirbúningi undir þetta mál. Þess vegna hef ég ekki talið rétt að taka það inn í þetta frv. Ef þetta frv. verður samþ. og hafizt handa um að byggja þessi orkuver og rafveitur, sem hér um ræðir, og því máli Tálknfirðinga er ekki komið í viðunandi horf, þá má að sjálfsögðu tengja þá byggð með þeirri línu, sem fer um Tálknafjörð.

Ég skal í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að eins og tekið var fram í grg. í fyrra, eru nú liðin allmörg ár síðan Vestfirðingar fóru að hugsa um virkjun í Dynjanda. Það var eytt allmiklu fé af héruðunum þarna á Vesturlandi til að rannsaka Dynjanda. En því miður eru þær rannsóknir þannig, að því nánar sem þær eru gerðar, því meiri virðist kostnaðurinn verða og útlit fyrir, að aflið verði hins vegar minna en gert var ráð fyrir. Ég hygg, að þetta sé aðalástæðan fyrir því, að þessu stóra hagsmunamáli Vestfirðinga hefur ekki þokað meira áfram en raun ber vitni. Hins vegar hefur á þeim tíma, fyrir tilstilli og eftir till. frá raforkumálastjóra, verið komið upp dieselrafstöðvum á sumum þessum fjörðum; mér er kunnugt um, að svo er það á Patreksfirði og Bíldudal. Það var till. raforkumálastjóra þá, að Bíldudalur kæmi upp dieselrafstöð að stærð 400 hö. og Patreksfjörður tveimur dieselrafstöðvum, 250 hö. hvorri, sumpart til þess að bæta úr þörf, sem ekki er hægt að skjóta á frest, og sumpart til þess að undirbúa móttöku raforku frá Dynjanda, en það þótti nauðsynlegt, að samfara þeirri virkjun væri til á báðum þessum stöðum dieselrafstöð sem varastöð, ef rafmagnsbilun yrði á rafveitunni. Það var því fyrir tilverknað þess opinbera, að þessir staðir fóru í þessar framkvæmdir, en reynslan hefur sýnt á báðum þessum stöðum, að það er hvorki meira né minna en 100 þús. kr. árlegt rekstrartap á dieselstöðvunum á hvorum staðnum fyrir sig. Þetta gengur svo nærri hagsmunum Suðurfjarðahrepps, að ríkissjóður hefur orðið að greiða alla vexti og afborganir af þeim lánum, sem hvíla á stöðinni, nú á s.l. ári, sem eru rúmlega 80 þús. kr., og það er ekki sýnilegt annað en að ríkissjóður verði að taka á sig þessa byrði, þar til búið er að bæta úr þessum málum í heild. Eins eru líkur til þess, að hið sama komi til með að ske á Patreksfirði, að ríkissjóður taki að sér að greiða vexti og afborganir af lánum í sambandi við dieselrafstöðina. Út af þessu sendi rn. mann til Bíldudals til þess að athuga, á yfirstandandi ári, hvað hægt væri að gera í sambandi við raforkumálin. Síðan hefur sú skýrsla verið send til raforkumálastjóra og hann hefur gefið það álit, að hann sæi ekki aðra lausn út úr þessu máli en að Bíldudalur selji sina stóru rafstöð og reyni að komast af með miklu minni dieselrafstöð, þar til raforka er fengin til þess að minnka hinn árlega rekstrarkostnað. En rekstrartapið stafar mest af því, að búizt var við að selja raforkuna til iðnaðarfyrirtækja á þessum stað fyrir 158 þús. kr. á ári, en þau hafa ekkert tekið, vegna þess að rafmagnið er svo dýrt, en það hefur aftur torveldað iðnaðinn og valdið atvinnuleysi. Hins vegar hefur fólkið sjálft, til heimilisnota, farið hærra í notkun en raforkumálastjóri gerði sér vonir um, svo að íbúarnir verða ekki ásakaðir um það ástand, sem þarna er, og hið sama er að segja á Patreksfirði. En það verður ekki hægt að fallast á þá till. raforkumálastjóra að leggja niður hina stóru stöð á Bíldudal til þess að þurfa síðar, eftir 6 ár, að leggja í nýjan kostnað til að byggja upp nýja stöð aftur, því að eina ráðið í framkvæmd þessa máls er að hraða því svo, að þeir þurfi ekki að biða eftir rafmagni frá vatnsvirkjun nema skamman tíma, 2–3 ár. Ég sé ekki annað en að það sé leikur að koma því svo fyrir, að þessari framkvæmd verði lokið á þeim tíma, alveg sérstaklega ef horfið yrði að því ráði að virkja Fossá í Suðurfjörðum. Og það er fullkomið réttlætismál, að þessir staðir njóti aðstoðar ríkisins að þeirri upphæð, sem hér hefur verið minnzt á, þegar miðað er við hina mörgu tugi milljóna, sem úr ríkissjóði hafa verið greiddar í aðrar virkjanir á landinu. — Að ég set þetta bráðabirgðaákvæði í frv., kemur einmitt til af því, sem ég nú hef minnzt á, erfiðleikum héraðanna viðkomandi því að standa undir rekstrarkostnaðinum, þeirri staðreynd, að ríkissjóður hefur orðið að taka á sig greiðslur vegna virkjana og mun þurfa að standa undir byrðum af þessum sökum í framtiðinni, og auk þess mundi það skapa enn meiri áhuga fyrir málinu hjá raforkumálastjórninni til þess að hraða framkvæmdum, að lögin ákvæðu, að meðan framkvæmdir ekki yrðu gerðar samkv. 1. gr. frv., yrði mismunurinn á kostnaðarverði raforkunnar, sem um getur í bráðabirgðaákvæðinu, greiddur úr ríkissjóði.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum málum. Ég vil að síðustu benda á, hvílíkt óskaplegt tjón það væri fyrir atvinnuvegina í þessu héraði, sem frv. gerir ráð fyrir virkjunum í, ef því væri neitað um eðlilega aðstöðu í sambandi við útvegun á raforku. Það mundi skapa slíkt ástand í atvinnumálum þess héraðs, að ríkissjóður mundi þá ekki heldur komast undan því að taka einhvern þátt í þeirri byrði, sem af því hlytist, ef ekki yrði úr rafmagnsskorti héraðsins bætt. Ég vil því vænta þess, að þetta mál nái fram að ganga, og vil leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og iðnn.