29.10.1951
Efri deild: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði nú ekki búizt við, að hv. 6. landsk. þm. tæki þessu máli svo þunglega. Þegar hér í fyrra var til umr. frv. um virkjun Fossár í Hólshreppi, minnist ég ekki, að hann tæki því máli eins og hann tekur þessu máli nú. Þá var líka til umr. frv. um virkjun Dynjandisár, og ég held, að það hafi þá verið sameiginlegur skilningur okkar beggja, að ekki bæri að torvelda framgang frv. um virkjun Fossár í Hólshreppi með því að setja heimild um þá virkjun inn í frv. um að vírkja Dynjanda, sem hefði ekki verið óeðlilegt í raun og veru, að láta raforkumálastjóra skera úr um það, hvort hann teldi rétt að fella burt heimildina um að virkja Fossá. Sú stefna, sem hér kemur fram í þessu frv., sem fyrir liggur, kom fram á Alþ. þá, og ég minnist þess ekki, að hv. 6. landsk. þm. hafi verið andvígur því, að það frv. var látið ganga fram vegna þess að brýn þörf íbúanna í Bolungavík var á því að fá þessa virkjun hvað sem liður virkjun Dynjandisár. Og þetta var rökstutt þá með því, að ef ætti að virkja Dynjanda, þá yrði undir öllum kringumstæðum að byggja rafleiðslu frá Ísafirði til Bolungavíkur. Þessi virkjun þarna bjargar svo lengi sem Fossá dugir Hólshreppi. En aðalástæðan til þess, að þessi virkjun var samþ., var sú, að bæði iðnaðurinn á þessum stað og fólkið sjálft þoldi ekki að bíða eftir virkjun Dynjanda, eins og komið hefur fram.

Nú hefur hv. 6. landsk. þm. undrað sig á því, hve fljótt hefur tekizt að gera þessar áætlanir, sem birtar eru í fskj. með þessu frv. Ég bendi honum á, að það er ekki óeðlilegt, þó að það taki miklu minni tíma að gera áætlanir um virkjanir, sem gefa eiga 450 og 850 hestafla orku og liggja í byggð, heldur en að gera áætlun um virkjun, sem á að vera 3 þús., 5 þús. eða 7 þús. hestafla orkuver, þar sem mestallar athuganir verða að fara fram uppi á heiðum, sem flesta mánuði ársins eru undir snjó eða illviðri. Og ég hygg, að það sé meginástæðan fyrir því, hve seint hefur sótzt að gera raunhæfar áætlanir í sambandi við virkjun Dynjandisár, hve erfitt það hefur reynzt að komast að því að gera þessar áætlanir, sérstaklega á veturna.

Hv. 6. landsk. þm. minntist á, að það hefði verið áætlað á sínum tíma að virkja báðar þessar ár í Arnarfirði, sem hann hefur getið hér, með 13 þús. hestafla virkjun alls, fyrir 13 millj. kr. Hér er misskilningur á ferð. Það var áætlað að virkja Dynjandisá eina á þeim tíma og talið, að sú virkjun mundi gefa 7500 hestöfl, en sú virkjun mundi kosta þá um 12.8 millj. kr., og þá var ekki reiknað með Mjólká til virkjunar. Þetta var samkv. bráðabirgðaathugun á þessu máli. En þegar nokkrir menn — og var ég einn af þeim — athuguðu betur rannsókn þá, sem átt hafði sér stað á þessu, og áætlunina, sem byggð var á þessari rannsókn, þá kom í ljós, að áætlunin var svo losaralega gerð, þó að hún væri framkvæmd af ágætum manni, að hann sjálfur sagði, þegar hann var spurður um málið, á þá leið, að „ef maður byggir á þessum tölum, þá eru þessar tölur réttar, en séu þær rangar, þá eru hinar líka rangar“. Við ákváðum því á fundi, þessir menn, að það skyldi setja nýja athugun í gang til þess að komast að rann um, hvort nokkuð væri byggjandi á fyrri athuguninni. Þessi athugun var sett í gang það sumar, og kom þá í ljós, að ekkert var byggjandi á frumáætluninni, sem gerð hafði verið. Þá kom í ljós, að ekki mundi mega treysta því, að 7500 hestöfl raforku fengjust með virkjun Dynjandisár, heldur aðeins 7 þús. hestöfl. En það, sem verra var, var það, að í ljós kom, að ekki mætti byggja á 12.8 millj. kr. kostnaði, eins og fyrr hafði verið gert ráð fyrir, heldur mundi kostnaðurinn verða um 30 millj. kr. við þá virkjun á því ári. Nú hefur verðlagið stigið í landinu um meira um helming síðan, og þess vegna áætlar raforkumálastjórinn, að ekki sé varlegt að áætla þennan kostnað minni en 60 millj. kr. nú. En hann hafði komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki væri reiknandi með 7 þús. hestafla virkjun þarna, heldur sem hámarki 5 þús. hestöflum. Þó hefur hann tekið fram, að þessar rannsóknir séu ekki endanlega gerðar, svo að ekki sé hægt að byggja á þessu, heldur muni taka langan tíma ekki aðeins rannsókn á þessu, heldur undirbúningur undir virkjun Dynjanda. — En burtséð frá þessu sé ég ekki, að það sé nein goðgá, jafnvel þó að Dynjandi væri virkjaður innan tíu til fimmtán ára, að framkvæma sumar þær virkjanir, sem til eru teknar hér í þessu frv., því að þar er í raun og veru um suma þá hluti að ræða, sem ætti að framkvæma í sambandi við virkjun Dynjanda. Það er vitanlegt, að veitan frá Bíldudal til Patreksfjarðar yrði að koma nákvæmlega eins fyrir því og yfir sömu fjöll og byggðir, hvor virkjunin sem væri tekin og framkvæmd. Þar er ekkert gert, sem ekki gæti staðið alveg eins fyrir því, þó að Dynjandi yrði virkjaður. Og ef talað er um lagningu orkuveitunnar frá Fossá til Bíldudals, þá geri ég nú ekki ráð fyrir, að hv. 6. landsk. þm. geri ráð fyrir, að sú veita skyldi aldrei koma um þessa byggð. Eftir að rafveita vari lögð frá Dynjanda til Bíldudals, yrði knúin fram bygging á veitu innan Fossfjarðar í Arnarfirði, svo að ég sé ekki, að þarna kæmi fram neinn tvíverknaður í sambandi við lagningu veitunnar. — Og þá er raforkustöðvarbyggingin sjálf. Er það rétt að byggja 450 hestafla orkuver við Fossá nú, ef það tækist á tveim til þrem árum, í stað þess að bíða eftir raforku frá Dynjandisvirkjun kannske tíu til fimmtán ár? Ég fullyrði, að þau rök, sem hv. 6. landsk. þm. færði fyrir því, að það hefði verið það vitlausasta, sem hægt hefði verið að gera, að byggja mótorstöðvar fyrir þorpin á Vestfjörðum, sanni einmitt, að það eigi ekki að draga það að virkja Fossá, því að það yrði búið að borga sig á þeim tíma, sem líða mundi ettir þeirri áætlun, sem ég nefndi, þar til Dynjandi yrði virkjaður, miðað við það að nota annars dieselrafstöðvar, meðan beðið væri eftir virkjun Dynjanda. Og eins og ég tók fram áðan, mundi þessi virkjun Fossár sjá borgið raforkuþörf viðkomandi staða kannske allan þann tíma, sem beðið væri eftir virkjun Dynjandisár. Og ég fæ ekki séð, að virkjun Fossár í Suðurfjörðum geti nokkuð fremur torveldað heildarvirkjunarframkvæmdir fyrir Vestfirði en virkjun Fossár í Hólshreppi mundi gera, sem hv. 6. landsk. þm. samþ. ásamt mér að ætti að framkvæma.

Hv. 6. landsk. þm. talaði um, að þetta mundi kosta um 13 millj. kr., ef þetta yrði allt gert, sem í frv. er gert ráð fyrir, og er það rétt. En ég tók fram, að það er ekki þörf á að virkja á öllum þessum stöðum allt í einu til þess að bjarga Barðastrandarsýslu með tilliti til raforku. En mér virtist rétt að setja þessa heimild þannig upp, því að þá getur raforkumálastjórinn valið um, hvað hann vill taka af þessu. - Nú sagði hv. 6. landsk. þm., að það mætti spara veitu yfir fjallið frá Patreksfirði til Rauðasands, ef haldið væri við það eitt að virkja Dynjandisá. Mér dettur nú ekki í hug, að hann ætli Rauðsendingum það hlutskipti, að þeir verði útilokaðir um aldur og ævi frá því að hafa afnot af rafvirkjun. En ef hugsað er að láta þá fá rafmagn, yrði að setja veitu alla leið frá Bíldudal að Rauðasandi, sem kostaði eins mikið og veita frá Suðurbólsá til Bíldudals. En ég álít þó, að það megi fresta þessu um stund með því að virkja Fossá í Suðurfjörðum, þó að ég telji rétt, að þessi veita verði lögð nokkru seinna. Ég vil leyfa mér að benda á, að þegar þessir útreikningar voru gerðir, lá ekki fyrir áætlun, heldur var hún gerð síðar, byggð á þeim upplýsingum, er fyrir lágu um, hvað kostaði að byggja linu frá Patreksfirði til Bíldudals, annars hefðu þær tölur líka verið settar inn á þetta þingskjal. Þær tölur eru settar hér inn, sem mér eru gefnar upp sem bráðabirgðaáætlun. Framkvæmdir á ekki að hefja skv. 3. gr. frv., nema nákvæm kostnaðaráætlun og nægilegt fé sé fyrir hendi til framkvæmdanna. Þetta er trygging fyrir því, að ekki verði byrjað fyrr á framkvæmdunum, þó að þetta frv. verði samþ. nú. Komi á daginn, að þessir útreikningar séu ekki réttir og þessar framkvæmdir verði dýrari en ráð er fyrir gert í dag, kemur til athugunar, hvort ekki eigi að fresta þeim framkvæmdum og fara þá heldur í að virkja Dynjanda. Sé ég því enga ástæðu fyrir neinn að vera andvígan þessu frv. — Síðan vil ég benda á, að þegar borin er saman virkjun Dynjanda og þessara vatnsafla, ber að lita á, að við það að taka þessar ár sparast alveg sælinan frá Dynjanda til Bíldudals, og það er ekki svo lítill kostnaður. Hugsanlegt er að flytja það annaðhvort landleiðina yfir Langanes eða inn fyrir Borgarfjörð og taka línuna svo frá Rafnseyri til Bíldudals, og er sá kostnaður miklu meiri en við að byggja sjálfa stöðina við Fossá. Vil ég síðan benda á, að það er hugsað, að þessar stöðvar verði að langmestu leyti sjálfvirkar, og þyrfti því ekki eftirlitsmenn nótt og dag og rekstrarkostnaðurinn því mun minni en ef þyrfti 3 menn á vaktir allan sólarhringinn. Það væri fráleitt að reisa 450 hestafla orkuver, sem þyrfti 4–5 menn til að gæta.

Ég held, að það sé því rétt að samþ. þetta frv. til 2. umr. og nefndar. Mun n. svo að sjálfsögðu senda það til umsagnar raforkumálastjóra. — Ég skal viðurkenna, að þetta er engin lausn á heildarraforkumálum Vestfjarða, heldur á þeim vanda, sem ekki verður búið við næstu 15 ár. Ef ríkissjóður heldur ekki áfram að borga árlega stórfé til hjálpar þessum héruðum til að halda uppi raforku, leggjast þessi héruð í auðn, og elns verður um Bolungavík, því að hún þolir ekki að bíða eftir raforku frá Dynjanda.