22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Út af fsp., er hv. þm. Barð. vísaði til mín, gæti ég lýst yfir því, eins og ég gerði áður, að athuganir verða gerðar á þessum fallvötnum eins fljótt og auðið er, en þær takmarkast af því fé sem ríkisstj. hefur til framkvæmdanna. Ég skal taka það fram, að það eru fyrst og fremst Vestfirðir og Austfirðir, sem hafa orðið harðast úti undanfarið, að sumu leyti vegna aðstöðu sinnar, sem er önnur en á Suðurlandi og Norðurlandi, því að þar eru ekki stórir bæir eins og Akureyri og Reykjavík, og þess vegna hefur raforkuráð ekki lagt eins mikla áherzlu á að rannsaka fallvötnin þar. Raforkumálastjóri hefur farið fram á 100 þús. kr. til rannsókna á Vestfjörðum, en ríkisstj. treysti sér ekki til að verða við því, og geri ég ráð fyrir, að það verði gert næsta sumar, a.m.k. svo fljótt og að svo miklu leyti sem fjármagn það, sem ríkisstj. hefur til þessara hluta, leyfir.