22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt, að hæstv. ráðh. hafi þann fyrirvara á um framkvæmd þessa lagafrv., ef að lögum verður, að hún fari eftir því, hvort takast megi að útvega fé til framkvæmdanna. Þetta er ekki nema eðlileg yfirlýsing. Sá hv. þm., sem síðast talaði, lét hér uppi sitt álit á þessu máli, sem var í þá átt, að of fljótt væri að lögfesta virkjanir þær, sem heyra undir 1.–8. lið í frv., þar sem flest þessi vatnsföll væru litt eða ekkert rannsökuð enn. En ég vil taka undir það, sem hæstv. ráðh. sagði viðvíkjandi tölulið 7, sem er um að leggja orkuveitu úr Landeyjum til Vestmannaeyja, að þar er ekki aðra leið hægt að fara eins og nú standa sakir, og skildist mér svo, að hæstv. ráðh. teldi þetta eðlilega till. og rétta. Rannsókn á því að leggja þráð neðansjávar frá Landeyjum til Vestmannaeyja hefur farið fram. Ég hef þó ekki séð ýtarlega skýrslu um þessa rannsókn hjá vitamálaskrifstofunni, sem lét rannsaka þetta, en ég hef fengið munnlega umsögn um þetta frá sjóliðsforingjanum Pétri Sigurðssyni, sem hefur fjáð mér, að fundizt hafi sandgeilar undir kapal alla leið frá Landeyjum út í Eyjar, þó dálítið í boga. Ég held ég muni það rétt, að hann hafi sagt mér, að lengd kapalsins mundi þurfa að vera 12 km. Nú er hér í þessari till. byggt á Sogsvirkjuninni, og þegar er vitað, að leiðslur eru komnar austur í Rangárvallasýslu, t.d. í Fljótshlíðina, og í ráði er að leggja leiðslur austur undir Eyjafjöll og í Landeyjar. Það kæmi þá til athugunar að mínum dómi að tengja þar inn á leiðsluna stóran viðskiptabæ, sem mundi þurfa mikla orku, þ.e. Vestmannaeyjar. Ég álít, að í framkvæmdinni yrði það eðlilegast að fara sunnan við tengingu Landeyja austur, þaðan austur undir Eyjafjöll og út í Eyjar. Ég vildi gjarnan heyra álit hæstv. ráðh. á því, hvort hann líti ekki sömu augum á þetta og ég, að þessar framkvæmdir geti fylgst að. Hitt er svo vitað, að fé til allra þessara hluta, sem hér eru nefndir, verður að útvega með lántöku. Ég ætla ekki að fara inn á það, hvort það er rétt hjá hv. 6. landsk., að þarna sé víðast hvar órannsakað, hvort virkjunarmöguleikar séu fyrir hendi. En hitt er vitað, að til þess að fá raforku til gagns fyrir þau héruð, sem hér um ræðir, þarf mikið fé, eins og til að leggja aðalorkuveitu út í Vestmannaeyjar þarf mikið fé. Og eins og nú horfir í rafmagnsmálum hérna á Suðvesturlandi, að rafmagn er komið inn á flest heimili hér, þá hlýtur það að verða eðlilega ítrekuð og þung krafa hjá öðrum en þeim, er byggja Suðurlandið, að þeirra málum sé sinnt og þá, ef þörf krefur, að þau mál verði leyst með erlendum lántökum. Við höfum glögg dæmi um það fyrir augunum á okkur, hvað vinnst með bæði rafmagninu frá Soginu og hitaveitunni, hve geipilegur gjaldeyrisspárnaður það er að eiga þessar framkvæmdir, og það ekki sízt nú, er olía og kol eru orðin jafndýr og raun ber vitni. Þegar á þetta er litið, ætti djörfung ríkisstj. og Alþ. að geta vaxið til að gera sem stærst átak í virkjunar- og rafmagnsmálum á þeim stöðum, sem hér um ræðir og þar sem Sogsvirkjunin nær ekki til. Það er sýnilegt, að þegar til lengdar lætur, verður rafmagnið heppilegri lausn á þessu máli en að hafa bæði upphitun og suðu með olíu og kolum, eins og viðast hvar hefur tíðkazt allt fram á síðustu ár.

Ég vil sem sagt vænta þess, að hæstv. ráðh. líti hvað Vestmannaeyjalögnina snertir svipuðum augum og ég á eðlilega framkvæmd þess máls, og ég vil undirstrika þá skoðun mína og áskorun til ríkisstj., að hún geri allt, sem í hennar valdi stendur, til að koma rafmagnsmálunum með virkjunum eða á annan hátt þannig í framkvæmd, að sem flestir landshlutar eigi þess kost að hafa ljós og hita á annan hátt en frá olíu- eða kolakyndingu. Ég vil vænta þess, að ekki verði margir hv. þm. svo andvígir þessu frv., að þeir vilji ekki ljá því fylgi sitt sem heimildarl., þótt það hafi nú slegið hv. 6. landsk. þannig, því að vissulega er ekki skaði skeður neinum þessara staða, sem um ræðir, þótt heimild til að styðja framgang þessara mála sé lögfest. Látum svo gott heita, að rannsókn á mörgum þessara vatnsfalla hafi ekki farið fram, og látum spádóma hv. 6. landsk. liggja á milli hluta, en mér finnst þó, að hv. þm. taki of snarpa afstöðu gegn málinu, þegar hann lýsir því yfir, að hann geti ekki fylgt frv. Í þau fótspor vænti ég, að sem fæstir hv. þdm. vilji feta.