22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af ræðum hv. 6. landsk. Hann hélt því fram, að ekki væri rétt að samþ. þetta frv., vegna þess að fullnaðarrannsókn heiði ekki farið fram á þeim vatnsföllum, sem hér er um að ræða, og taldi, að samþykkt þess mundi aðeins tefja fyrir framkvæmd málsins. Ég vil benda hv. þm. á, að einmitt vegna þess, að ekki fékkst slík samþykkt til að virkja Dynjanda, er ekki byrjað á þeirri virkjun enn, og því eru Vestfirðingar rafmagnslausir enn. Ef um þá virkjun hefðu verið sett lög 1946, hefði það mál verið komið betur en það er komið í dag. Að ég hef borið hér fram frv. um virkjanir fyrir Barðaströnd, stafar af því, að frv. um virkjun Dynjanda var fellt á síðasta þingi og ekkert hefur gengið í því máli síðan. Það eru upplýsingar frá raforkumálastjóra, að það muni taka um 10 ár að rannsaka og byggja það orkuver. Er áætlað, að framkvæmdir geti ekki hafizt fyrr en eftir 3 ár, og þá er eftir að útvega lán og byggja orkuverið. Það liggja einnig fyrir niðurstöður af rannsóknum raforkumálaskrifstofunnar um virkjanir þær á Barðaströnd, sem hér er um að ræða, og eru þær hagkvæmari en þær virkjanir, sem menn eiga hér viða við að búa, og litur út fyrir, að þær verði hagkvæmari fyrir þessi héruð en ef farið yrði að bíða eftir raforku frá Dynjanda. Þess vegna er full ástæða til að samþ. þetta frv. — Þetta get ég aðeins sagt um þau orkuver, sem hér um ræðir. Ég þekki ekki eins vel til á Austurlandi, en ég geri ráð fyrir, að Austfirðingar geti fært jafngóð rök fyrir sinn máli og ég get fært fram fyrir orkuverin á Barðaströnd. Hv. þm. veit líka sjálfur, að hann hefur stutt virkjunina á Bolungavík vegna þess að hann vissi, að virkjun Dynjanda mundi dragast. Hann gat fylgt því, af því að hans kjördæmi átti í hlut, þótt hann vilji nú sparka í aðra. Það er svo sem eftir öðru, hvernig hv. þm. hefur hagað sér í þessu máli. Þörfin fyrir raforku til þessara staða er svo aðkallandi, að það má einskis láta ófreistað til að flýta fyrir framgangi þeirra mála, og ef fólkið fær rafmagnið fyrr, ef þetta frv. verður samþ. þá er óverjandi að ljá því ekki fylgi sitt. Ég mæli því eindregið með samþykkt frv., eins og það liggur fyrir.