22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. og raforkumálaráðh. sagðist ekki geta gefið neinar yfirlýsingar varðandi orkuveitu til Vestmannaeyja, en ég var raunar ekki að fara fram á það og hef ekki hugsað mér að króa hæstv. ráðh. neitt inni með yfirlýsingar. Hitt er annað mál, að ég varpaði því fram, hvort hæstv. ráðh. fyndist ekki eðlilegt, að þetta þrennt fylgdist nokkuð að, tilkostnaður við orkuveitur í Landeyjum, Eyjafjöllum og Vestmannaeyjum, þar sem viðskipti yrðu náttúrlega af skornum skammti, tilsvarandi við þann kostnað, sem tengingin austur þangað mundi kosta — hvort hann liti ekki svo á, að það væri eðlilegt, að um leið væri tengdur þessi stóri og sívaxandi bær, Vestmannaeyjar, við Sogsvirkjunina á þann hátt, sem þar um ræðir. En vitaskuld ætlaðist ég ekki til, að hæstv. ráðh. færi að gefa neina yfirlýsingu á þessu stigi málsins um þetta sérstaka atriði, en ég skírskotaði til hans heilbrigðu skynsemi, og vitað er það, að raforkuráð og sérfræðingar ríkisstj. í þessum efnum hafa náttúrlega sterkan tillögurétt hjá hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. segist fara eftir þeim. En ég hjó eftir því, að einhvern tíma hefði honum brugðið það við, að hann hafi farið aðrar götur en þessir aðilar höfðu lagt til, svo að vitaskuld, eins og eðlilegt er, hefur hæstv. ráðh. sinn eigin gang í þessum efnum samfara þeim bollaleggingum og áætlunum, sem sérfræðingarnir gera. Ég skal svo ekki fjölyrða um það.

Hv. 6. landsk. sagði um mig, að þegar ég talaði um að virkja fallvötn víða um landið, þá gæti ég ekki talað þar af miklum kunnugleik. En mér þykir undarlegt, ef hv. 6. landsk. hefur þann nákvæma kunnugleika til að bera á öllum stöðum, sem mætti skilja að hann byggi yfir eftir hans eigin orðum. Getur hann t.d. rökstutt, að það sé óvit að virkja Hvammsá eða Selá í Vopnafirði í 500 ha. orkuveri, eins og hér stendur undir 2. lið, og leggja veitu til Vopnafjarðarkauptúns? Ég þekki að vísu ekki Selá, hv. þm. hefur sjálfsagt séð hana, en ég geri hins vegar ráð fyrir, að sá, sem hefur lagt þetta efni til í frv., þekki vatnsmagn árinnar og viti, hvernig hún hagar sér vetur, sumar, vor og haust, og hafi einhverja nasasjón af því, hvað Vopnafjarðarkaupstaður er fjarri Selá, o.s.frv. Mér finnst vera allt of sterkt til orða tekið, að hér sé fyrir fram vitað, að það sé óvit í þessari hugmynd. Eða ef við tökum t.d. 4. liðinn, um að virkja Sandá í þistilfirði í 2900 hö. Vissulega hafa þeir, sem gerðu till. um þetta, haft einhverja hugmynd um það frá sínu brjósti skoðað, að þetta sé framkvæmanlegt. Hitt er svo annað mál, að til þess að svona virkjunum sé sinnt, verða auðvitað mælingar og annað því um líkt að fara fram, eins og gert er ráð fyrir í 3. gr. frv. Það er ekki bara á þessu sviði, sem það er eins og hæstv. ráðh. í rauninni drap á, þó að bann færi ekki út í einstök atriði. Maður hefur stundum leyft sér að koma með till. um að byggja vita á þessum og þessum stað, án þess að fyrir fram væri búið af hálfu vitamálastjórnarinnar að rannsaka aðstæður. Það eru mörg dæmi til þess, þar sem svona leikmenn eins og gerist og gengur álíta að þörf sé á framkvæmdum á einn eða annan hátt, að þeir komi fram með till. um þau efni eða uppástungur. Það er engin nýlunda, eins og hér hefur verið tekið fram, að á Alþ. komi fram slíkar till. eða jafnvel heimildir fyrir ríkisstj. að framkvæma slík verk, og þetta er ekkert óskylt því.

Ég held þess vegna, að þetta mál geti hvorki talizt hégómamál né óþarft; ég eyði ekki orðum að því að tala um, að það geti verið til ills, að það sé samþykkt.