04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

134. mál, girðingalög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Á næstsíðasta búnaðarþingi, eða árið 1949, var um það rætt, að breyta þyrfti girðingal. Þá vorum við Þorsteinn Þorsteinsson sýslumaður fengnir til að gera athuganir á þessu máli milli þinga. Þetta gerðum við og lögðum brtt. okkar fyrir búnaðarþing í febrúar–marz. Búnaðarþing gerði nokkrar breytingar á þeim, þar sem þeim líkaði ekki alls kostar það, sem við höfðum gert. Var það meðfram vegna þess, að okkur vannst ekki tími til að ganga frá því eins og við vildum. Það var því ákveðið að setja mþn., sem átti að fjalla um þetta mál, ábúðarlögin o.fl. Í hana voru svo settir þeir Jón frá Reynistað, Ásgeir Bjarnason og Gunnar Þórðarson frá Grænumýrartungu. — Okkur í landbn. þótti rétt að láta málið koma fyrir eins og það var frá búnaðarþinginu, en það voru a.m.k. þrjú atriði, sem ég var ekki sammála um, og ef til vill fleiri, sem ég vildi þá gera breyt. á. — Vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann taki mál þetta ekki á dagskrá aftur, fyrr en n. er tilbúin með brtt. sínar og lætur hann vita.