07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

134. mál, girðingalög

Páll Zóphóníasson:

Það er margt í þessu frv., sem gerir miklar hreyt. frá girðingal. eins og þau eru nú. Ýmis ákvæði vegal., sem nú gilda, breytast allverulega, en alveg sérstaklega um kvöð ríkissjóðs að kosta girðingar móti einstaklingum eða algerlega, þegar vegur liggur gegnum tún, engjar og í sumum tilfellum beitiland. Þessi skylda er að vísu til nú, en vanrækt að láta hana gilda eins og fleira í lögum okkar víða, svo að það lendir oft í mesta stríði, þegar ríkið leggur veg meðfram túni. Á þessu er hert, en þó höfum við í Ed. slakað til frá því, sem var þegar málið kom til okkar. Við höfum heldur linað á kröfum að því er snertir ríkissjóð.

Um aths. hæstv. dómsmrh. vil ég segja, að ef umrætt ákvæði er tekið þannig, að allar girðingar, sem eru gerðar meðfram götum, samsvari fimmþættri gaddavírsgirðingu, þá er um geysilegan kostnað að ræða. En ef við litum á, hvernig girðingar eru farnar að verða og hvernig við viljum hafa þær, — ég að minnsta kosti, — þá er þetta ekki þannig. Míg langar ekki til að fá hverja einustu lóðargirðingu mannhæðarháa. ekki heldur á minni eigin lóð. Ég tel það til lýta fyrir bæinn, en miklu hentugra að hafa svona hnéháa girðingu, sem afmarkar lóð og götu, svo að ekki sé rápað inn á lóðina, en garðar við húsin geti orðið til yndisauka fyrir þá, sem um götuna fara. Ég tel einmitt, að girðingar þær, sem nú eru í bæjum og samsvara hvað vörzlu snertir fimmþættri gaddavírsgirðingu, eigi að hverfa og eigi að koma girðingar, sem ekki samsvara fullkominni fimmþættri gaddavírsgirðingu að því er vörzlu snertir, því að við erum ekki að girða fyrir ágang af gripum, enda höfum við nú tekið girðinguna kringum Austurvöll, af því að við þurftum ekki lengur að girða fyrir hesta. Sá ég að vísu eitt sinn að næturlagi lögfræðing á vegum bæjarins opna hlið á Austurvelli og hleypa inn hestum sínum, en ég held það sé orðin lítil hætta á því, að með þessum hætti skapist mikill útgjaldaauki fyrir kröfur manna um háar girðingar. En sjálfsagt er að athuga þessa gr. milli umræðna og ræða um hana við Jónas Guðmundsson. Við hann hefur ekki verið rætt enn. En form. mþn., hv. 2. þm. Skagf. (JS), var búinn að tala við vegamálastjóra að því er snertir ríkissjóð og vegalögin. Nú var ég ekki inni, þegar hv. 11. landsk. talaði, en ég geri ekki ráð fyrir, að ágreiningur verði hjá okkur um það að vilja hlusta á Jónas Guðmundsson og athuga, hvort við getum fært frv. í það horf, sem hann kann betur við en þarna er.