07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

134. mál, girðingalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Það er mjög einkennileg rökfærsla hjá form. landbn., að vegna þess að hann vill ekki, að í kaupstöðum séu jafnvandaðar girðingar og eru úti á landsbyggðinni og eru nú víðs vegar í kaupstöðum, þá vill hann láta skylda sveitarsjóði til þess að borga helming af jafnvönduðum girðingum og eru úti um sveifir landsins. En hvað getur frekar ýtt undir eigendur kaupstaðarlóða til þess að hafa girðingar kostnaðarmiklar og háar og rammbyggðar en ef þeir fá borgaðan kostnað úr opinberum sjóði? (Rödd: Það er helmingur, sem eigandi á þar sjálfur að borga.) Ég sé ekki, að það haggi neinu. Rökfærslan er skrýtin vegna þess, að hann telur, að of rammbyggilegar girðingar eigi að leggjast niður, og til þess að fá lóðaeigendur til að hverfa frá þeim, vill hann gefa þeim ávísun á bæjar- og sveitarsjóði um það, að þaðan eigi þeir að fá helming alls kostnaðar. Þetta fær ekki staðizt og er ekki hugsað til neinnar hlítar. Við skulum játa það hreinskilnislega. Ég hef ekki ánægju af að gera lítið úr starfi n. og stóð ekki upp til að hártoga það, sem hv. 1. þm. N-M. sagði. Um það, til hvers er leitað um umsögn, vil ég taka fram, að ég legg áherzlu á, að ekki sé leitað til Jónasar Guðmundssonar persónulega, heldur sé stjórn sambandsins að þessu spurð, vegna þess að þar eru saman komnir fulltrúar ýmiss konar sveitarfélaga, bæði bæja, þorpa og sveita, og það er mjög mikilsvert, því að allir verða að játa, að hér er um stórkostlegt fjárhagsatriði að ræða. Má að sjálfsögðu færa einhver rök fyrir því að leggja kostnað á sveitarsjóði vegna þessara framkvæmda. En ég vil, að þetta mál sé athugað betur en gert hefur verið enn þá, og ég skoða það sem loforð frá form. hv. landbn., að frv. skuli verða sent til stjórnar Sambands sveitarfélaga. Þar með hef ég ekkert á móti því, að umr. haldi áfram og nefnd athugun verði gerð milli 2. og 3. umr.