21.01.1952
Neðri deild: 66. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

160. mál, sundhöll í Reykjavík

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Allshn. hefur haft mál þetta til athugunar og orðið sammála um afgreiðslu þess.

Eins og nál. á þskj. 768 ber með sér, er þar gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði hluta af þeim kostnaði, sem hlýzt af sundkennslu skólanemenda í Sundhöll Reykjavíkur. Hv. þm. virðast hafa álitið, að ríkið ætti að taka á sig bagga í sambandi við rekstur sundhallarinnar, en það hefur verið halli á henni undanfarin ár. Þetta er ekki rétt. Hv. þm. verða að gera sér ljóst, að hér er um að ræða, að ríkið verður að bera meiri hlutann af þessu tapi vegna sundskyldunnar, en þó er hér ekki um stórt fjárhagsatriði að ræða. — N. barst álit íþróttafulltrúa um málið, og mælir hann með því, að frv. verði samþ. með nokkurri umorðun á þá leið eins og gert er ráð fyrir í nál.

Það hefur verið svo fram að þessu, að ríkið hefur greitt nokkurn hluta af kostnaði vegna skólanna. Það varð um það samkomulag fyrir nokkrum árum, er rekstrarkostnaður var 110 kr. á rekstrarstund, að skólarnir greiddu 55.80 kr. á hverja stund. Síðan hefur þetta breytzt, og nú er kostnaðurinn orðinn 200 kr. Það varð samkomulag um það, að nemendur fengju þetta ókeypis vegna þess styrks, sem ríkissjóður veitti sundhöllinni. En eins og íþróttafulltrúi vekur athygli á, er þetta ekki meiri styrkur en aðrar sundlaugar hafa notið. Þess vegna segir hann, að hann telji eðlilegt, að bæjarsjóður Reykjavíkur njóti sömu fyrirgreiðslu og ríkissjóður greiði nokkurn hluta af þessari hækkun og greiði laun sundkennara. Svofelld breyt. á þessu yrði ekki svo mikil eftir yfirliti, sem fylgir álitsgerð íþróttafulltrúa. Hann heldur, að það láti nærri, að skólakostnaður ríkissjóðs hækki um 50 þús. kr. vegna þessara breyt. Ríkissjóður hefur greitt vegna sundkennslu, eftir þessari skýrslu, tæpar 30 þús., eða 27.2 þús., en mundi eftir breyt. greiða milli 60 og 70 þús. Þessi breyting skiptir ekki máli, því að hér er um reikningsfærslur bæjarins að ræða, þar sem skólakostnaður til sundhallarinnar er greiddur á móti ríkinu. Það er örðugt um vik í þessum málum, vegna þess að sundhöllin er bundin við sundkennslu frá 10 á morgnana til 16.15 á daginn, og dregur það úr aðsókn, þegar sundhöllin er lokuð á venjulegum tíma. Úr þessu mætti bæta, bæði hag bæjarsjóðs og ríkissjóðs, með því að koma upp laug fyrir kennslu, en sundhöllin er ekki ætluð fyrir sundkennslu. Þess vegna er það eðlilegt, að bæjarsjóður og ríkissjóður hafi áhuga á að bæta úr þessu og draga úr þeim erfiðleikum, sem sundhöllinni eru skapaðir. Að vísu er það svo, að slíkar stofnanir eru alls staðar reknar með halla, en sundhöllin er rekin með meiri halla, þó að hún hafi heitt vatn, og er meginorsök þess, að sundskyldan var leidd í lög hér.

Ég vænti svo, að með hliðsjón af þessu og meðmælum íþróttafulltrúa ríkisins geti hv. þm. verið sammála n. um að gera þessa breyt.

Ég vil svo að lokum vekja athygli á því, að prentvilla er í nál., þar stendur „fræðslumálastjóri“, en á að vera „fræðslumálastjórn“. Þetta verður leiðrétt. — Ég vona, að ég hafi greint frá aðalatriðunum, nema sérstakt tilefni gefist til að taka annað fram í málinu.