21.01.1952
Neðri deild: 66. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, er ég í minni hl. í n., en ég sé ekki ástæðu til að skila sérstöku nál.

Þetta stendur þannig af sér, að hér í Reykjavík hefur bæjarsjóður lengi tekið sætagjald af bíósýningum, sem talið var eins konar leyfisgjald fyrir því, að menn mættu hafa bíósýningar. Bæjarstjórnin gerir ráð fyrir 450 þús. kr. tekjum af þessu árlega. Aðrar bæjarstj. hafa ekki haft heimild til að taka sérstakt gjald af bíósýningum, annað en útsvar, og hafa ekki framkvæmt það á þann hátt, sem það er gert hér. Nú hafa bíóeigendur neitað þessu og hafa ekki greitt þessi gjöld, þrátt fyrir það að bæjarstj. hafi lækkað þau. Mér skilst, að bæjarstj. Reykjavíkur hafi haft þetta upp úr tveimur eða þremur bíóhúsum, sem voru hér áður. Ég held, að hún verði að horfa á þetta burtséð frá hinni sögulegu hlið málsins. Þetta hefur verið sérstaða hjá Reykjavík, að innheimta þetta sætagjald. Þetta er almennur skattur á bíósýningar, sem rennur í bæjarsjóð. Nú er það sjálfsagt ekki óeðlilegt, að bæjarsjóður fái rétt til að leggja skatt á það, sem hægt er að skattleggja með góðu móti. En ég held, að biósýningar séu orðnar mikið áskipaðar með tilliti til þess, hvað kaupgeta almennings er orðin litil og menn hafa orðið að draga að sér hendurnar með óþarfa útgjöld. Ég býst við, að þarna sé leitað tekna, sem komi óþægilega við allan almenning í landinn, þó að það lendi á þeim einstaklingum, sem reka bíóhúsin. Nú eru ýmis gjöld orðin svo há til ríkisins, t.d. skemmtanaskattur, og fer hann í að greiða til þjóðleikhússins og nokkur hluti hans ætlaður í félagsheimilasjóð. Þá er söluskattur af þessu og sérstakt gjald fyrir innflutning á þessum myndum. Ég held, að það hafi verið afnumið, þegar gengislækkunin var samþ., en fyrir 1948 mátti leggja gjaldeyristoll á filmur. Svo er greitt útsvar, og er sá skali mjög hár hér í þjóðfélaginu, og loks er greiddur af þessu tekjuskattur. Þegar horft er á allar aðstæður, þá finnst mér, að nýr skattur sé lagður á með þessu frv., nýr skattur, sem verður til þess, að verð miðanna hækkar. Þetta er einhver ódýrasta skemmtun, sem fólk veitir sér, og er illa farið, ef aðgangurinn er orðinn svo dýr, að aðsókn minnkar að verulegu leyti að þessum bíósýningum. Sérstaklega vil ég benda á, að ég get ekki séð betur en að hv. flm. ætlist ekki til að fá annað en svona 450–500 þús. kr., þegar reiknað var með 8–9%, að frádregnum skemmtanaskatti, en frv. talar um 10%. Þegar þessi upphæð er athuguð hjá Reykjavíkurbæ, sem er með fjárhagsáætlun upp á 80 millj. kr., er þetta sáralítill tekjustofn, en getur komið óþægilega og leiðinlega við hina fátæku, en þetta er ódýrasta skemmtun, sem þeir geta veitt sér. Þess vegna er ég á móti þessu.

Ég vil benda á, að mér finnst óeðlilegt, að þessu máli sé hrundið inn á þing undir lokin og hv. flm. leggi ofurkapp á, að það verði afgr. nú, þó að það sé seint fram komið. Ég vil hinkra við, og það gæti ekki munað svo miklu, þó að það biði til næsta þings og yrði athugað í næði. Mér finnst ekki vera ástæða til að hraða því svona, því að þetta skiptir ekki Reykjavík svo miklu. Ég hef lýst mig andvígan þessu máli og legg til, að frv. verði fellt, af því að hv. flm. leggur svo mikið ofurkapp á, að málið nái fram að ganga.