21.01.1952
Neðri deild: 66. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þótt hv. frsm. hafi gert glögga grein fyrir þessu máli, er ekki hægt annað en að svara örfáum orðum ræðu hv. þm. Siglf. — Ég vil undirstrika það, sem hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) sagði, að frv. þetta er flutt vegna þess, að bæjarstjórnin vill fá örugga heimild til að leggja á þetta gjald, sem hefur verið innheimt í 8 ár. Samkomulag var um þetta í bæjarstjórn, og létu flokksbræður hv. þm. Siglf. þar sér þetta vel líka. Mér finnst furðulegt, að hv. þm. skuli taka málið upp á þann hátt að telja, að hér sé um nýjan og almennan skatt að ræða. Það hefur verið dregið í efa af eigendum kvikmyndahúsanna, að nægileg heimild sé til að leggja þetta gjald á, og er þetta því aðeins deila milli eigenda kvikmyndahúsanna og Reykjavíkurbæjar, sem hér er um að ræða í raun og veru. Ég vænti þess, að þetta nægi til þess að eyða hugsanlegum misskilningi hjá hv. þm., sem ræða hv. þm. Siglf. kann að hafa valdið, og að frv. verði samþykkt.