21.01.1952
Neðri deild: 66. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (2134)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 7. þm. Reykv. (GTh) sagði. Hann sagði, að bæjarstjórn Reykjavíkur óskaði eftir lagaheimild til að innheimta þennan skatt. Hví er þetta þá ekki orðað þannig? Það var það, sem ég fann að. Hví er þá verið að koma með frv. í lok þingsins um almenna heimild til handa öllum sveitarfélögum um þetta? Ég vil benda á það, að hv. 7. þm. Reykv. hefur alls ekki lagt málið fyrir þingið eins og hann lýsti í ræðu sinni. Ég tel óforsvaranlegt að afgreiða málið á þennan hátt. Við erum komnir í algert öngþveiti með þessi mál. Við vitum það í sambandi við skemmtanir íþróttafélaga t.d., að það hefur orðið að taka upp vínveitingar á þeim, til þess að þær bæru sig, og dugir þó ekki til lengur. Og svo á nú að fara að leggja á þessar einu almennu, ódýru skemmtanir. Það má búast við, að haldið verði áfram á þeirri braut, ef lagt er út á hana á annað borð, að byrjað verði með 10% gjald núna og svo verði það hækkað, næst í 15%, svo í 20% o.s.frv. Það er verið að gera bíóin að innheimtustofnun fyrir bæinn. Málið liggur alls ekki fyrir eins og hv. 7. þm. Reykv. sagði, heldur er verið að leggja nýjan skatt á, sem bíóin eiga að rukka inn.