21.01.1952
Neðri deild: 66. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. þm. Siglf. hefur í rauninni gengið frá flestu því, sem hann hafði á móti frv. í fyrstu. Í síðustu ræðu sinni sagði hann, að þetta væri almenn heimild fyrir öll sveitarfélög, sem vildu nota sér hana. — Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að hv. Alþ. mætti ekki ganga í lið með bæjarfélögunum um að hækka álög á bæjarbúa. Hér er um hvorugt þetta að ræða. Ef verð á bíómiðum hækkar, er það ekki vegna þessa skatts, heldur vegna annarra skatta, sem bærinn hefur ekki lagt á. Það er allt of mikil hræsni, þegar þm. kommúnista reka hv. 2. þm. Reykv. til að segja þetta. Þeir keppast við að hækka gjöldin til bæjarfélaganna, tvö- eða þrefaldlega, en þegar á þing kemur, segja kommúnistar, að ekki megi hækka gjöldin, heldur verði að fella þau niður. Kemur það úr hörðustu átt, þegar hv. 2. þm. Reykv. talar eins og hann talaði hér áðan. Hér er ekki verið að leggja á nein ný gjöld, heldur er aðeins reynt að halda í skækilinn og tryggja, að bæjarsjóður fái svipaðar tekjur og áður á sama tíma og öll gjöld hækka og ríkissjóður reynir að hækka sínar tekjur og aðrir aðilar að hækka sín gjöld. Hv. 2. þm. Reykv. spurði, hvort templararnir ættu kannske að borga gjöld til ríkissjóðs af brennivíninu. Það væri sannarlega ekkert ranglátt, þó að góðtemplararnir yrðu að greiða eitthvað líka. Það er víst búið að leggja nóg á þá, sem fá sér glaðning, en „hóflega drukkið vin gleður mannsins hjarta“, eins og þar stendur. Eins og þegar hefur verið tekið fram, er aðaltilgangurinn með þessu frv. að tryggja það, að bæjarsjóðirnir fái að halda sínum hlut. En ef aðgöngumiðar á kvikmyndasýningar hækka og kvikmyndahúsareksturinn stöðvast, þá er það af öðrum ástæðum. Það er ekki nema eðlilegt, að bæjarfulltrúar og þingfulltrúar haldi fast á málinu. En ef þetta verður eitthvað til að torvelda rekstur kvikmyndahúsanna, þá er ekki annað um það að segja en að það mundi knýja fram endurskoðun þessara mála, en ekki á að láta bæjarsjóð Reykjavíkur gjalda þessara erfiðleika og kasta hlut hans fyrir borð af þeim sökum.