21.01.1952
Neðri deild: 66. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er auðheyrt, að ég hef komið við hjartað í hv. 5. þm. Reykv. Hann segir ákveðið, að fyrr skuli öll kvikmyndahús hætta sýningum en skattur verði lagður á brennivín. Og varðandi spurninguna, hverjir eigi að borga í þennan sjóð, segir hv. 5. þm. Reykv. allt í lagi, þó að kvikmyndasýningar þurfi að hætta. En ef ekki á að leggja gjöld á kvikmyndahúsin, en brennivin ætti að hækka og gjöld af því að renna í bæjarsjóð, það væri þokkalegt ástand! Ég held, að það hafi komið vel í ljós, hverjum þessi hv. þm. vill hlífa og hverjum ekki. Hann prédikar, að Reykvíkingar verði að láta til skarar skríða, standa fast saman, halda vel á málum og láta ekki undan. Mér þykir, að ég hafi sem þm. Reykv. staðið allsæmilega að því máli. Hef ég fylgt hv. borgarstjóra og 5. þm. Reykv. dyggilega að málum, meðan hann hafði góða forustu, og hóf merkið sjálfur, þegar fór að gæta undanlátssemi. Ég held, að hv. 5. þm. Reykv. hafi byrjað að sýna undanlátssemi hér í hv. d., þegar hann greiddi atkvæði til þess að fella till. um, að söluskatturinn rynni að nokkru leyti til Reykjavíkurbæjar. Ég held því, að hv. þm. ætti ekki að prédika um of staðfestu og að menn eigi ekki að hopa í baráttunni, heldur eigi hann að sýna slíka staðfestu betur í verki, þegar um er að ræða, að bæjarsjóði Reykjavíkur verði réttilega tryggðar tekjur. — Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar.