22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Um þetta mál er það sama að segja og það næsta á undan, um sundhöll í Reykjavík, að það er flutt að tilhlutun bæjarráðs Reykjavíkur og hefur haft greiðan framgang í Nd. og þó ekki ágreiningslaust. — Efni þessa frv. er raunverulega ekki annað en að staðfesta það, sem uppi hefur verið nú um nær fullan áratug, að bæjarstjórnin geti lagt sætagjald á kvikmyndahúsin. Þessi háttur hefur verið á hafður síðan 1943. Að vísu hefur því stundum verið mótmælt af kvikmyndahúsunum, en þó hefur ekki komið til árekstra fyrr en nú, en eins og nú háttar hygg ég, að kvikmyndahúsin hafi mótmælt að greiða gjaldið, — telji sig ekki hafa skyldu til þess. Þar sem hér er um gamlan gjaldstofn að ræða, sem þessi kvikmyndahús hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir að þau yrðu að greiða og mörg þeirra stofnuð eftir að þetta gjald var tekið upp, með fullri vitund um, að það yrði innheimt, sýnist ekki gengið á rétt neinna, þó að hér sé staðfest það, sem upp hefur verið tekið, með því að veita nú þessa heimild, og þar sem samþykkt l. nú mundi að líkindum koma í veg fyrir málaferli, er mikilsvert, að frv. verði samþ. á þessu þingi. — Þar sem málið er svo einfalt, sé ég ekki ástæðu til, að því verði vísað til nefndar í þessari hv. deild.