22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mig undrar það stórlega, að jafnreyndur og greindur þm. og hv. 1. þm. N-M. skuli láta svona vitleysu frá sér fara eins og hann hefur gert viðvíkjandi málinu um sundhöll í Reykjavík, sem var hér til umræðu rétt áðan. Ég hélt, að hv. þm. myndi eftir því, að í l. um sundhöll í Reykjavík eru ákvæði um það að veita nemendum úr skólum ríkisins ókeypis sundkennslu. Slík skylda mun ekki hvíla á öðrum sundlaugum á landinu. Það er ljóst, að þessi skylda, sem sundhöll Reykjavíkur hefur fram yfir aðrar sundlaugar landsins, er orðin óbærileg. Forustumenn ríkisins í þessum málum hafa viðurkennt það og talið þetta eðlilega ósk af hálfu bæjarfélagsins. Ég þykist því vita, að hv. þm. muni falla frá aths. sínum, er hann fær betri upplýsingar í málinu.

Varðandi það mál, sem nú er til umr. hér, þ.e.a.s. frv. um gjald af kvikmyndasýningum, þá eru skoðanir hans á því máli byggðar á algerum misskilningi. Hv. þm. heldur því fram, að hér sé um nýtt gjald að ræða. Þetta er alls ekki ætlunin, eins og fram kemur í grg. við frv. og ég tók fram hér áðan. Hér er aðeins um löggjöf að ræða til þess að skera úr ágreiningi, sem kominn er upp milli Reykjavíkurbæjar og eigenda kvikmyndahúsa. Kvikmyndahúsin hafa greitt þetta gjald síðan árið 1943, en vegna minnkandi aðsóknar og þá minni ágóða af kvikmyndasýningum færast eigendur þeirra nú undan því að greiða þetta gjald. Til þess að skera úr þessari deilu og vegna hinna breyttu aðstæðna er þetta frv. flutt, og er í frv. gert ráð fyrir, að kvikmyndahúsin greiði ákveðinn hundraðshluta af seldum aðgangseyri í stað hins fasta gjalds, sem áður tíðkaðist.

Það er vissulega ástæða til þess að auðvelda sveitarfélögunum sem mest sína skattheimtu, þegar ríkið gengur jafnlangt í sinni skattheimtu og kunnugt er. Ég legg því áherzlu á, að þetta frv. verði afgr. áður en þingi er slitið, því að eins og ég hef áður sagt, er hér ekki um neinn nýjan skatt að ræða, heldur aðeins lög til að skera úr ágreiningi. Ég er því sannfærður um, að þegar hv. 1. þm. N-M. hefur kynnt sér þetta mál betur, muni hann vera því samþykkur.