22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þó að mál það, sem ég vil fara nokkrum orðum um, sé ekki á dagskrá nú, vil ég samt leiðrétta misskilning, sem fram hefur komið í umr. um það. Það er að vísu rétt, að ekki mun vera seldur aðgangur að sundlaugum úti á landi, en ríkið tekur þátt í viðhaldskostnaði þessara lauga á móti hrepps- og sýslufélögunum eða öðrum félögum, sem þær eiga, og leggur á þann hátt sinn skerf til starfrækslu þeirra, og það væri ekki nema í samræmi við þessa reglu, að ríkið léti eitthvað af hendi rakna til Sundhallar Reykjavíkur, en samkvæmt núgildandi lögum fá nemendur ríkisskóla þar ókeypis aðgang.