23.01.1952
Efri deild: 70. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég álít eðlilegt að takmarka þetta ekki við Reykjavík. Eftir því, sem ég bezt veit, þó að ég hafi litla þekkingu á málinu, þá er þannig ástatt, að sætagjald, sem er innheimt, er ranglátt. Þegar sú greiðsla var ákveðin, var miðað við, að kvikmyndahúsin væru fullsetin. En nú er sætagjaldið óeðlilegt vegna þess, að nú standa þráfaldlega mörg sæti auð á kvikmyndasýningum. Þessi skattálagning getur því verið auðfarin leið til þess að gera kvikmyndahúsunum ómögulegt að starfa. Ég held þess vegna, að það sé til bóta að veita öðrum en Reykjavík þessa heimild til að leggja gjöld á.

Ég vil ekki, að seinni hluti till. sé felldur niður. Ég geri ekki ráð fyrir, að gjaldið verði lagt á þessa tegund kvikmynda. En úr því að till. er fram komin og ef hún verður felld, þá gefur það undir fótinn um það atriði, að þingið hafi ekki viljað útiloka, að gjöld væru lögð á þessar kvikmyndir. Þess vegna er verra að fella þessa till. Ég vil sérstaklega mælast til, að hv. þm. beri till. fram í tvennu lagi. Þá get ég greitt atkvæði gegn fyrri lið hennar, en með þeim seinni. (HV: Síðara atriðið verður borið fram sem varatill.)