20.11.1951
Efri deild: 31. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

109. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal fara um frv. þetta örfáum orðum sem frsm. menntmn. Frv. þetta barst n. frá kirkjumálaráðuneytinu, það var að vísu ekki neinn aufúsugestur, en n. flutti þó málið með fyrirvara. Eins og ég sagði, þá mun ég aðeins flytja örfá orð um málið að þessu sinni og einungis drepa á fá atriði.

Mál þetta var hér á þingi í fyrra, og voru þá lögfestar breyt. á fyrri skipun prestakalla. Á þeim tíma mætti málið talsverðri andstöðu, m.a. vegna þess, að það var ekki borið undir sóknarnefndir þær, sem hlut áttu að máli. Það kom síðar í ljós, að sumar þeirra vildu ekki búa við þau lög. Það er ekki að búast við því, að nú komi annað hljóð í strokkinn, ef flaustra á af þessu stórmáli nú, máske fyrir þær stórhátíðar, sem framundan eru. Hætt er við, að málið beri helzt til bráðan að.

Milliþinganefndin hefur að sumu leyti virzt vera sammála um málið. Ákvæði 7. gr. frv. finnst mér bera þess vott, að með þeim ákvæðum sé verið að fjölga prestum meir en þörf er. Í 7. gr. er gert ráð fyrir að ráða 2 presta til þess að gegna prestsverkum í forföllum á ýmsum stöðum. Áður var það algengt, að prestar hefðu tvö prestaköll. Þá var hlaupið undir bagga með nágrannapresti eða nágrannaprestum, og dæmi eru til þess, að einn og sami prestur hafi annað því að þjóna þremur prestaköllum um lengri eða skemmri tíma. Nú á þetta að hverfa. Nú virðist eiga að bæta við utanveltuprestum. Út í þetta skal ég ekki fara, en ég er andvigur þessu fyrirkomulagi, eins og 7. gr. frv. gefur tilefni til. Ég er andvígur till. um skipun presta í Reykjavík.

Ég skal ekki segja meir um þetta nú, en ég geri ráð fyrir, að hæstv. kirkjumrh. taki hér til máls, og einnig geri ég ráð fyrir, að hv. 1. þm. N–M. þurfi að segja eitthvað. Mun ég því ekki að svo komnu málí fara að halda lengri ræðu og læt máli mínu lokið.