22.11.1951
Efri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

109. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það hafa nú tveir — reyndar þrír — hv. alþm. talað í þessu máli. Mér eru minnisstæðari tvær síðustu ræðurnar en sú fyrsta, vegna þess að í tveimur síðustu ræðunum gætti meir hinna stóru andstæðna í þessu máli. En hjá þeim hv. þm., er framsögu hafði, gætti meira hófs í málinu. Ég geri ráð fyrir, að það sé svo í þessu máli eins og öðrum, að það séu ekki hinar stóru öfgar, sem leysa málið, hið rétta sé eitthvað annað, hvar svo sem það kann að liggja á milli. Ég geri ráð fyrir, að svo sé í þessu máli einnig og auðvelt sé að leiða rök að því.

Eins og hv. dm. er kunnugt, var haldið mjög fast á því við ríkisstj. á síðasta þingi að spara á ýmsum sviðum, einkum þó í sambandi við hið mikla embættismannabákn, sem mjög þyrfti að draga saman. Mál það, sem hér liggur fyrir, kom til mín sem kirkjumrh. sem frv. til l. um prestakallaskipun. Það er því algerlega rangt hjá hv. þm. Barð., að ég hafi sérstaklega komið fram með þetta mál. Það voru tillögur nefndar, sem ég lagði hér fram, og það hefðu verið mikil firn, ef ég sem kirkjumrh. hefði ekki flutt málið hér, þar sem hinir ágætustu og gagnkunnugustu menn, sem valdir voru í nefnd þá, er um þetta fjallaði, hlutu að hafa til að bera hina beztu þekkingu, sem unnt var að fá um þessi mál. Nú er það svo um þetta mál, að það var að vísu undirbúið í mesta flýti, þar sem nefndin hafði svo skamman tíma til umráða. En ríkisstj. var öll sammála um það á ríkisstjórnarfundi, þar sem ég bar málið fram, að leggja þessar till. fram. — Þetta er þá það frv., eins og það var lagt fram af n., ásamt rökstuddri grg. frá kirkjumrn., og sýnir það, svo að ekki er þörf um að deila, hvernig það er komið inn í þingið.

Það verður að kannast við það, að fækkun á prestum í sveitum er í sjálfu sér alveg eðlileg. Í fyrsta lagi vegna þess, að fólki hefur fækkað á þessum svæðum, og í öðru lagi vegna þess, hve mjög samgöngur hafa batnað. Það má til dæmis taka Auðkúluprestakall og hina ágætu nýju brú yfir Blöndu, hversu aðstaðan hefur batnað til að þjóna hinum tveim kirkjum sitt hvorum megin árinnar. Ég skal nefna annað dæmi, úr Strandasýslu, þar sem yfir sjö ár var að fara á stuttum kafla, sem voru oft margar eða allar ófærar. Nú eru komnar brýr á allar þessar ár. Svona er þetta á mörgum öðrum stöðum, að það var miklu erfiðara að gegna þessum störfum, og skal ég ekki hafa fleiri orð um það. Fólksfækkunin er svo greinilega sönnuð af manntalsskýrslum okkar, og samgöngurnar hafa líka batnað, eins og allir vita. Þess vegna væri líka eðlilegt, að prestunum væri eitthvað fækkað.

Þegar þetta mál kom til hv. Nd. í fyrra, fékk það þann mótbyr, að samkomulag varð um að skipa nefnd til að rannsaka málið. Áður en l. um fækkun prestakallanna frá 14. marz 1951 kæmu til framkvæmda, skyldi kirkjumrh. skipa nýja nefnd til að athuga, hvað tiltækilegt þætti að gera í þessu. Ég skipaði þessa nefnd og er nú ásakaður fyrir að hafa skipað fjandmenn þess málstaðar að fækka ekki prestaköllunum. Ég skil þessa ásökun varla, því að séra Sveinbjörn Högnason er einn alheitasti andstæðingur þess að fækka prestaköllunum um eitt einasta. Ég hélt, að flestir þm. þekktu það til skapferlis séra Sveinbjarnar Högnasonar, að þeir vissu, hve vonlaust væri að sveigja hann frá sannfæringu sinni og það ekki sízt í öðru eins hjartans máli og honum er þetta, og reyndar í hverju máli sem er. Séra Sveinbjörn kom til mín og spurði mig, hvað ég héldi um niðurstöðu þessa máls og hvers vegna ég hefði skipað sig í þessa nefnd. Ég svaraði honum því, að ég hefði skipað þessa nefnd til þess að hún starfaði eftir sannfæringu sinni og skilaði sínu áliti. Þá geri ég ekki ráð fyrir, að margir hafi það álit á séra Ingimar Jónssyni, að hann láti sveigja sannfæringu sína, og það er einnig kunnugt um hann, að hann vill alls ekki láta fækka prestum um einn einasta. Ásmundur Guðmundsson prófessor hafði meira að segja skrifað um mig heldur leiðinlega og rætna grein, og þó skipaði ég hann í nefndina, — nú, og Svein Víking, ritara biskups. Allir vita, hver muni vera afstaða biskups í þessu máli, en ég áleit rétt, að biskupsskrifstofan fengi fulltrúa í nefndina. Svo er Sigurður Bjarnason; um hans afstöðu var einnig vitað, því að hann hafði lýst sig andvígan fækkuninni á Alþ. Svo er Pálmi Einarsson, sem mér þótti sjálfsagt að skipa í nefndina sökum kunnugleika hans á öllum jörðum á landinu. Svo er Páli Zóphóníasson, sem eins og kunnugt er er búnaðarmálastjóri. Var eðlilegt, að hann fylgdist með þessu máli. Það er ekki óeðlilegt, þegar þess er gætt, að allir hinir eru frá annarri hliðinni, að einn maður sé settur til að túlka hinn málstaðinn. Ég held þess vegna, að hv. þm. Barð. muni sjá það, þegar hann athugar þetta, að ég hafi ekki verið hlutdrægur í þessu máli, a.m.k. ekki á þá hliðina, sem hann hefur haldið fram, heldur mætti segja með nokkrum rétti, að það hafi verið hlutdrægni hjá mér fyrir þann málstað, sem vill enga fækkun. En hinn málstaðurinn hafði einnig komið fram. Hins vegar taldi ég rétt að halda fyllilega við það, sem um var talað og ákveðið.

Ég skal svo ekki ræða einstök atriði frv., en auðvitað sjáum við það, er á frv. er litið sem heild, að ekki er um að ræða neina fækkun. Ég held meira að segja, að það sé einum presti fleira, eins og ráð er fyrir gert í frv., en í l., sem nú gilda, en 10 þessara presta eru jafnframt gerðir kennarar, vegna þess að prestsstörf þeirra eru ekki svo mikil, að nægilegt starf þyki handa manni til að taka full laun fyrir.

Að lokum, ef litið er lauslega á frv., sjáum við, að í Norður-Múlasýslu eru 7 prestar, í Suður-Múlasýslu 7 prestar, í Rangárvallasýslu 7 prestar, í Árnessýslu 8 prestar, og í Skagafjarðarsýslu, þar sem nú eru ágætir vegir innan þeirrar skeifu, sem fjörðurinn myndar, að undanteknum einum dal, sem er utan við fjarðarhringinn, þar eru 8 prestar. Það virðist því vera, allvel séð fyrir því, að prestar séu nógu margir í þessum sýslum. Ég segi það eins og er, að mér finnst nefndin hafa gengið svo langt sem unnt hefur verið með því að gera þessa 10 presta að kennsluprestum. Og vitanlega væri auðvelt að halda því fram með þungum rökum, að ekki væri þörf fyrir svo marga presta. Þetta er það sanna í málinu, og ég hygg, að ef menn skoða þetta öfgalaust, sé það sú skoðun, sem þeir komast að, ef þeir athuga málið rólega. Hins vegar er þess að gæta, að meiri hluti mannanna í n., sem fjallaði um þetta, er úr prestastétt, og draga þeir því eðlilega taum hennar. Sama mundu allar aðrar stéttir gera. Ég held, að það sé engin stétt í landinu, sem ekki mundi gera það sama undir sömu kringumstæðum. Ég hefði a.m.k. gaman af að heyra hana nefnda. Það er því eðlilegt, að þeir dragi þann tauminn, að prestum verði ekki fækkað, og haldi því fram, að þörf sé fyrir svo marga presta sem þeir telji sér fært að halda fram.

Afstaða mín er sú, að ég álít, að þessi n., sem um málið fjallaði, hafi, eftir því sem við var hægt að búast, stillt kröfum sínum furðanlega í hóf, og þegar þess er gætt — og það eru sterkustu rökin gegn prestafækkuninni —, að meðan ekki er gerð gangskör að því að fækka embættismönnum yfirleitt, er óeðlilegt að sverfa þar nær, ef hægt er að segja, að nærri sé sorfið. Eða m.ö.o., ég álít, að rétt sé að hafa prestana þetta marga, meðan ekki er gerð gangskör að því að fækka embættismönnum yfirleitt. Það er nú einmitt þannig, að landsmenn vilja alltaf láta fækka embættismönnum, þangað til kemur að þeirra eigin embættismönnum. Það er fræg samþykktin úr einu kjördæmi á Suðurlandi, þar sem ríkisstj. og Alþ. voru harðlega ávítuð fyrir óþarfa eyðslu og óþarft embættismannahald og síðan í lok samþykktarinnar skorað á þing og stjórn að stofna tvö ný embætti í kjördæminu. Frá Vestfjörðum kom nýlega önnur svipuð samþykkt, og svona samþykktir koma alls staðar að. Sama er um bændurna að segja. Þeir vildu með engu móti láta fækka prestum og gerðu um það samþykkt á stéttarfundi sínum í sumar. Það þarf því enginn að undrast, þótt komi fram samþykkt frá kirkjufundum um, að það megi undir engum kringumstæðum fækka prestunum. Annars er það um þetta að segja, að þegar að því kemur að fækka embættismönnum yfirleitt, þá hefur prestastéttin það til síns máls, að rétt sé, að sú fækkun sé gerð almennt og gengið sé jafnt á allar stéttir. Og þar sem þessi n. hefur sýnt þá tillitssemi gagnvart ríkissjóði og þann lit á sanngirni að fela 10 af prestunum, þar sem talið er að minnst sé að gera, að taka upp kennslustörf ásamt prestsstörfum og spara þannig laun 10 kennara, tel ég, að skynsamlegast sé fyrir þingið að samþykkja till. eins og þær koma fyrir. Þó að nokkuð beri á milli þessa frv. og þess frv., sem hér var borið fram í fyrra um þessi mál, þá er það ekki svo mikið, að ég geti ekki sveigt til og fallizt á, að þær till. verði samþ., eins og sakir standa. Og ég held, að það sé skynsamlegt, þegar jafnágætir menn hafa verið skipaðir í nefnd til að athuga um þetta, og ég held, að það verði erfitt fyrir Alþingi og kirkjumrh. að ganga alveg fram hjá till. þeirra. Og ég gerði mér það ljóst, þegar ég beygði mig, til þess að þessi mál yrðu endurskoðuð í fyrra, að þær till., sem prestakallanefnd kæmi fram með, yrðu verulega bindandi. Nú hefur þetta verið gert. Ríkisstj. skipaði fjóra áreiðanlega menn úr hópi presta í nefnd og með þeim þrjá leikmenn. Ég held því, að í framhaldi af því, sem Alþingi gerði í fyrra, og þó að alþm. séu ekki alls kostar ánægðir með þeirra till., þá sé rétt að fallast á frv. í höfuðatriðum. Meðal presta standa málin þannig, að þessar till. munu hafa yfirgnæfandi meiri hluta þeirra að baki.

Hjá einstaka mönnum, sem því öfgakenndari eru, hefur það komið í ljós, að þeir vilja ekkert sveigja til. En ég hygg, að ef þetta mál verður dregið á langinn og það sent út í sveitirnar til hinna ýmsu sóknarnefnda til umsagnar, þá sé þar með stefnt til fundarhalda og ófriðar, sem ég efast um að verði kirkjunni til nokkurrar blessunar, og ég held, að það stoði kirkjuna lítið í þessu máli, þótt auðvitað sé erfitt að segja, hvernig það er. En þetta er að minnsta kosti skoðun margra, og ég held, að þeir hafi rétt fyrir sér.

Ég tel rétt, að þessu máli verði vísað til nefndar, sem þá athugi það, en ég óska eindregið eftir því, að því verði hraðað svo sem kostur er á, því að vitanlega er það nauðsyn, að þessu máli verði lokið fyrir áramót, áður en l. frá í fyrra koma til framkvæmda. Og ég held, að vorkunnarlaust sé að afgreiða þetta mál fljótt, því að það er vel undirbúið.