22.11.1951
Efri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

109. mál, skipun prestakalla

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða þetta mál mikið við þessa umr., en mér þykir hlýða að skýra frá því, að ég mun flytja við frv. brtt., sem þá gefst tækifæri til að ræða við 2. umr.

Viðvíkjandi þessum umr., þá kom það m.a. í ljós hjá hæstv. kirkjumrh., að allir nefndarmenn væru ánægðir með frv., eins og það liggur fyrir, en mér er kunnugt um, að svo er ekki. Það eru ekki allir nefndarmenn sammála um það, að fækka beri prestum í dreifbýlinu. En það, sem ræður mestu um áhuga þessara manna, mun vera áhugi fyrir því, að þetta mál nái fram að ganga, áður en lögin frá í fyrra taka gildi um þessi áramót.

En það þarf að athuga þetta frv. vel, áður en lengra verður gengið. Það er fleira í því en að leggja niður nokkur prestaköll, það er ýmislegt annað í því, sem getur orðið mikilsvert. Ég skal ekki fara út í það nú, en það nægir að minna á kennsluprestaköllin, sem nokkur uggur kom fram um hjá hv. 2. þm. S-M. Ég veit nú reyndar ekki, hvort þau eru eins hættuleg og hann hélt. Í öðru lagi er það um hina tvo aðstoðarpresta, sem biskupi er heimilt að ráða. Ég held, að það geti orðið mjög mikilsvert, að þeir verði starfandi. Það mætti hugsa sér, að þetta yrðu áhugasamir prestar, sem ferðuðust til þeirra staða, þar sem deyfð væri og erfitt að fá presta.

Mitt sjónarmið er ekki það, að það eigi að fækka prestunum úti á landinu, en ég skal ekki fara að ræða það sjónarmið nú. Hitt vil ég taka fram varðandi það, að hv. þm. Barð. taldi, að rétt væri að láta þetta mál nú niður falla og láta allt vera í sama horfinu og verið hefur og senda þetta frv. út um allt land til umsagnar sóknarnefnda og viðkomandi sóknarbarna, að ég er ekki viss um, að ég mundi aðhyllast þá skoðun, vegna þess að þetta frv. er svo kunnugt úti um land; það er svo kunnugt, að raddir hafa komið utan af landi um það hingað í þingið. Það sýna bezt allar þær undirskriftir, sem hingað hafa borizt; þær sýna, að fólkið veit, hvað er að gerast, og þær sýna, að fólkið er á móti því, að prestum sé fækkað, og ég get vel skilið það sjónarmið, því að það er nú svo, að starf prestanna er ekki eingöngu það, sem það sýnist, heldur eru þeir andlegir leiðtogar fólksins úti um allt land og störf þeirra eru því meiri og betri, sem þeir eru í nánari tengslum við fólkið og áhrifa þeirra gætir meira.

Ég held svo, að það sé ekki fleira, sem ég vil taka fram við þessa umr.