23.11.1951
Efri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

109. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Ég skal fyrst fara nokkrum orðum um ræðu hv. þm. Barð. Ég tel fyrst og fremst, að það sé ákaflega ómaklega mælt í garð minna meðnm., að þeir hafi ekki haft hag kirkjunnar fyrir augum, og svo ómaklega, að ég þori að fullyrða um fleipur hv. þm., að hann talar frá lungunum, en ekki frá hjartanu. Hann ætti að blygðast sín fyrir þessi orð um guðfræðiprófessorinn, að hann vinni fyrir hag sinn, en ekki fyrir hag málefnisins. Hið sama er að segja um hina prestana báða. Þótt hann bregði mér um, að ég sé prestahatari, þá hrín það ekki á mér. En þeir, sem þekkja mig, vita, að ég er það ekki, en ég tel, að prestunum sé fyrir beztu, að þeir hafi eitthvað að gera, en sitji ekki eins og múmíur og haldi að sér höndum. — Þar sem hann talaði um mig, þá vil ég segja honum, að hvaða dag sem er, helgan sem virkan, má hann koma í Búnaðarfélagið, og hann mun geta hitt mig þar þangað til klukkan að ganga 7 á kvöldin alla daga ársins. Komi hann svo með annan mann, sem vinnur á skemmri tíma en ég mín störf. Meira hef ég ekki um það að segja. — Þetta er eitt af þessu venjulega, þegar talað er um prestana: Nei, við skulum fækka í einhverju öðru, sem ekki er til umr. Það er venja rökþrota manns að koma sér undan málefninu, sem verið er að ræða, með því að tala um annað. Ef það hefði verið nefnt, hvernig ætti að fækka prófessorum, þá var að koma með till. um það á sama grundvelli, að þeir væru ekki fleiri en það, að þeir hefðu nóg að gera í sínu starfi og gætu rækt það sæmilega. En nú voru það prestarnir, en ekki einhverjir aðrir, og þess vegna vann n. að því, en ekki einhverju öðru. Það getur fjvn. gert, hún hefur allt í sinni hendi og getur komið með till. um að fækka öðrum embættismönnum. En þessi n. var skipuð til að athuga prestastéttina út af fyrir sig og hvernig henni yrði haganlegast fyrir komið. Hún getur ekki komið og sagt: Það á að fækka læknum, kennurum, prófessorum o.s.frv. Það geta einhverjir gert, sem eru nógu svikulir til að vinna ekki það verk, sem þeim er ætlað að vinna, og fara í annað, sem þeim kemur ekki við á því stigi málsins.

Viðvíkjandi því, sem hér kom fram viðvíkjandi kennsluprestum, þá vil ég benda á, að það er almennt álit fræðslumálastjóra og fleiri manna, sem um það voru spurðir, að það sé ekki heppilegt að hafa þá, ef þeir hafa annexíur, þar sem eru heimavistarskólar, sem nú eru komnir víða, því að þar er umsjónin með krökkunum mest um helgar og aldrei meiri þörf á, að kennarinn hafi handleiðslu með börnunum, heldur en um helgar. Þess vegna var það, að það þótti ekki gerlegt að fara inn á kennslupresta almennt séð, nema þar sem var ein kirkja. Undantekning var þó gerð á einum stað, sem ég var ekki heldur með, þó að ég flytti ekki um það brtt.

Viðvíkjandi embættiskostnaði presta, sem ég sagði um að hefði verið bætt við sem launauppbótum á sínum tíma, við það stend ég, og ég get frætt hv. þm. Barð. um það, að ég er búinn að hafa kærur út af framtölum nokkurra tuga presta, oft sömu prestanna, einmitt út úr embættiskostnaði. Þegar þeir hafa verið að gera grein fyrir, í hvað það hefur farið, þá hefur þá alltaf brostið getu til þess, svo að þeir hafa alltaf fengið nokkurn hluta af kostnaðinum á sig sem laun, svoleiðis að ég veit vel, hvað ég er að segja um þessa hluti.

Þá skal ég enn til styrktar þeirri skoðun minni, að fækka beri prestum, benda á það, að 26 starfandi prestar hafa nú innan við 20 messur á ári og þar af 3 innan við 6, en 18 innan við 30. Þetta er ekkert starf, og væri ekki mikið, jafnvel þótt þeir húsvitjuðu tvisvar á ári og fylgdust með sálarlífi manna, eins og þeim ber að gera, en það gera ekki nema einstöku prestar og húsvitja þó aldrei oftar en einn sinni á ári. Ég hef aldrei verið heimsóttur af presti, eftir að ég stofnaði heimili, hvorki hér í Reykjavík né úti á landi, utan eitt vor hér í bænum, að prestur kom til mín og spurði mig, hvort ég ætti ekki barn, sem ætti að fermast.

Þá vil ég bæta hér við nokkrum orðum varðandi búsetu presta. Nefndin áleit, að það eigi að vera nokkrar góðar jarðir handa þeim prestum, sem vilja og geta búið. Ég var núna, áður en ég kom á fundinn, að taka saman skýrslu um búskap presta. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að það eru 30 prestar, sem búa sæmilega eða vel, 17 búa illa, og 12 nytja ekki jarðir sínar sjálfir, en leigja þær fyrir meira verð en þeir þurfa að borga fyrir þær. Þetta verður að breytast. Það á ekki að vera að leiða prestana í freistni með því að láta þá hafa jarðir til að okra á. Annars á það að vera þeim fjarri að leggja stund á okur, en það á samt ekki að gefa þeim tækifæri til að gera það. Það á ekki að láta þá presta, sem vilja ekki búa, háfa neinar jarðir, en það er sjálfsagt að láta þá hafa húsnæði.

Enn vil ég bæta því við, að aðhald að prestum ofan frá er ekki gott, og er sérstök ástæða til að minnast á það nú, þar sem biskupinn hlustar á. Það á ekki að líða prestum það að sitja í kaupstað mestan hluta ársins, en messa aðeins örsjaldan í sinn prestakalli. Það þarf að sjá um, að þeir láti halda við bæði kirkjum og kirkjugörðum miklu betur en nú er gert. Þetta er mál, sem þarf að taka miklu fastari tökum.

Ég held, að það geti margt gott af húsvitjunum presta leitt, því að sumir prestar geta haft mikil og góð áhrif á fólkið, þó að aðrir geti það ekki, og ef þeir yrðu látnir húsvitja, þá gæti svo farið, að þeir gætu forðað mörgum manninum frá því að fara á Klepp, eins og hv. þm. Barð. var að tala um hér í d. fyrir skömmu.

Það sýnir vel, hvernig þeir kasta höndunum að sínu starfi, að prestarnir í fjölmennustu sóknum landsins geta starfað sem kennarar við skóla bæði hér í Reykjavík og Hafnarfirði, og bendir það til, að þeir hafi ekki mjög mikið að gera við sálgæzluna. Þá leyfist prestum nú að gera ýmislegt, sem í mínu ungdæmi hefði ekki liðizt. Það er veila ofan frá í eftirlitinu. Þetta getur batnað, en ég hef litla trú á, að svo verði, eftir að merkur klerkur á 70. aldursári heimsótti mig til þess að reyna að öðlast þá trú, að annað líf væri eftir dauðann.