23.11.1951
Efri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

109. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég er hræddur um, að mér takist ekki að fylgja hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. N-M. í öllu þeirra flugi í þessu máli, en það er eins og ég sagði í gær, að þeim ber allmikið á milli. Aðalatriðið í þessu máli er það, hvort samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, séu nægilega margir prestar til að gegna þeim störfum, sem þeim ber að gera. Ég svara þessu hiklaust eins og nefndin, að þeir séu nógu margir, og það þótt þeir ættu að húsvitja oft á ári. Ég held, að hv. þm. Barð. hafi í sannleika sagt ekki áttað sig á þessu máli. Ég get sagt honum það, að ég þekki ekki síður en hann til úti á landi, og ég veit, að íslenzk bændastétt telur þessu máli fullnægt með þessu frv., ef það verður samþ. Það ætti ekki að vera mikill vandi fyrir 7 presta að gegna störfum sínum í Rangárvallasýslu, þar sem er einn læknir. Í Árnessýslu eru prestarnir 8 og í Skagafirði 8. Það er ákaflega einkennilegt, að hv. þm. Barð. skuli vera að gera þetta að æsingarmáli, því að með frv. er vel séð fyrir öllu. Þetta er aðalatriðið í málinu, og ég skal ekki vera að teygja önnur atriði inn í það. Ég gerði grein fyrir því í gær, að meðan íslenzka ríkið væri jafnrausnarlegt í embættismannahaldi sínu, væri ekki rétt að fækka prestum meir en gert er ráð fyrir í frv. Hins vegar er mér ljóst, að sú rausn, sem hér á sér stað, geti orðið ofrausn, en þá er réttast að gera þær breytingar, sem með þarf almennt.

Annað atriði, sem leggja ber áherzlu á í þessu máli, er, að því sé hraðað sem mest og afgreitt fyrir áramót, því að annars taka lögin, sem samþykkt voru í fyrra, gildi. Hér liggja fyrir áskoranir frá 89 af 101 þjónandi prestum um það, að Alþ. samþykki þetta frv., og sýnir það, að vilji presta er á bak við það, og er það þungt á metunum, þegar gera á ráðstafanir gagnvart einhverri stétt, að hún álíti það heilbrigt og skynsamlegt. Það hafa komið fram öfgaraddir á kirkjuþingum um, að fjölga beri prestum í landinu frá því, sem nú er. Það á ekki að hlusta á svona öfgar. Mín skoðun er sú, og ég hygg, að hún styðjist við rök, að það er ekkert gæfumerki að hlusta á svona öfgar og fara eftir þeim. Ég dreg ekki dul á það, að ég álít, að hv. 1. þm. N-M. gangi of langt í þessu máli, og þótt hann færi ýmis rök fyrir sínu máli, tel ég það öfgar, og eru þær andstæðar þeim öfgum, sem komu fram á síðasta kirkjuþingi og hv. þm. Barð. virðist vera umboðsmaður fyrir í hv. d.

Því hefur verið beint til mín, að ég hafi óhreinan skjöld í þessu máli, en ég ætla ekki að fara að vitna hér í d. um trúarskoðanir mínar. Ég geri þó tæpast ráð fyrir því, að það verði talið, að sá maður, sem skipaði þessa 7 menn í nefndina, sem undirbjó þetta mál, hafi verið hlutdrægur, að minnsta kosti ekki á þá hliðina, sem hv. þm. Barð. vill halda fram, enda er það vonlaust verk fyrir hann að telja landsmönnum trú um, að svo sé. Það er mála sannast, að við undirbúning þessa frv. hefur verið unnið heiðarlega og í samræmi við þann vilja, sem kom fram á Alþ. í fyrra. Ég held því, að það verði happadrýgst að ganga frá þessu frv. sem allra líkast því, sem það er nú, og sem allra fyrst.

Menn hafa ýmislegt út á kennslupresta að setja. Ég sé nú sannast að segja ekki, hvernig ætti að koma því fyrir að hafa prest á þeim stað, þar sem eru 73 sóknarbörn, og hafa þar svo einnig kennara launaðan af ríkissjóði til þess að kenna börnum þessara fáu sóknarbarna. Við erum orðin auðug þjóð, ef við höfum efni á slíku. Það er alveg tvímælalaust, og það vitum við, að þar sem gert er ráð fyrir að verði kennsluprestar, þá eiga þeir ákaflega auðvelt með að anna þessum störfum og hafa ekki meira að gera en nauðsynlegt er til að halda andlegri heilsu, því að svo má búa að mönnum, að þeir hafi svo lítið að gera, að þeir bíði tjón á sálu sinni, og ég held, að það sé misþyrming við mann að setja hann í prestakall með 73 sálum. (HV: Hvernig mundi hv. þm. Barð. una við það?) Ég held nú, að annar eins atorkumaður og hv. þm. Barð. mundi ekki geta afborið það, og vegna þess að hann hefur talað svo mikið um Klepp nú undanfarið í þessari hv. d., þá held ég, að hann mundi lenda þar.

Hv. 1. þm. N-M. var að gefa það í skyn, að ég væri að neyða presta til að okra. Ég skil þetta nú ekki almennilega. En ég held, að reynslan sé sú, að það þurfi ekki að neyða neinn til að c;kra, og ef prestarnir okra, þá held ég að þar sé þeirra eigin breyskleika um að kenna.