06.12.1951
Efri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

109. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar ég féll frá orðinu, gerði ég það vegna þeirrar yfirlýsingar, sem komið hafði frá hæstv. 1. varaforseta á síðasta fundi, um, að hann mundi taka brtt. mína til athugunar sem formaður menntmn. Óskaði ég þá eftir, að styttar yrðu umr. um þetta mál, ef n. gæti komið sér saman um að fylgja brtt. Ég vil því vænta þess, að hæstv. forseti skoði ekki þessa ræðu mína sem athugasemd, heldur gefi hann mér leyfi til þess að ræða þetta mál nú, eftir að komin er fram yfirlýsing frá formanni n. um, að ekki sé samkomulag um brtt. mínar. Auk þess hafa hér komið fram ýmis atriði síðan, sem ég þarf að leiðrétta og gefa sumpart tilefni til nýrra athugasemda. Hins vegar skal ég lofa hæstv. forseta því að beita ekki málþófi í þessu máli, heldur halda mér aðeins við kjarna málsins.

Ég vil þá í fyrsta lagi leyfa mér að leiðrétta og mótmæla þeim ásökunum, sem á mig hafa verið bornar af tveimur hv. þm., annars vegar hv. 1. þm. N-M. og hins vegar hv. 6. landsk. þm. Báðir þessir menn hafa haldið því fram, að ég hafi í ræðu minni svívirt tvo nm. með mínum málflutningi, þá séra Sveinbjörn Högnason og prófessor Ásmund Guðmundsson. Eftir upplýsingum hv. þm. N-M. ætti svívirðing mín að liggja í því, að ég hafi átt að segja, að þessir menn hefðu stéttarsjónarmið í n. Ég vil nú leyfa mér í sambandi við þessi ummæli að benda á, að það var einmitt hæstv. kirkjumrh., sem upplýsti hér við 1. umr., að hann hefði skipað prófessor Ásmund Guðmundsson og séra Sveinbjörn Högnason til þess að gæta sérstaklega hagsmuna kirkjunnar sjálfrar og prestastéttarinnar. Sagði hann, að það væri ekki nema eðlilegt og ekkert við það að athuga. Væri beinlínis ætlazt til þess, að það ríkti fyrst og fremst stéttarsjónarmið hjá þeim í sambandi við þetta mál. Skyldu þeir gæta hagsmuna stéttarinnar annars vegar og kirkjunnar hins vegar. Mér fannst þetta síður en svo athugavert, og það getur þá ekki heldur verið nein svívirðing, að þetta sé viðurkennt hér af mér, eftir að hæstv. kirkjumrh. hefur útskýrt þetta svo rækilega. Segir hæstv. ráðh., að hann hafi einnig skipað biskupsritara í n., og finnst mér ekkert athugavert við það. Hæstv. ráðh. lýsti því líka yfir, að sér hefði þótt ástæða til þess að vega upp á móti þessum kirkju- og stéttarhagsmunum í n. með því að setja þar einn fjandmann málsins og kirkjunnar, mann, sem hefur allt aðra skoðun á þessum málum en hinir nm., eins og hann tók til orða, þ. e. a. s. hv. 1. þm. N-M., og þar að auki setti hann í n. landnámsstjóra. Þetta er einmitt gert til þess að ná þessu takmarki, sem ég hef bent á, þ. e. að ná jörðunum undan kirkjunum. En ég benti hæstv. ráðh. á, að á sama tíma setti hann ekki í n. fulltrúa fólksins, sem verið er að taka prestana frá. Ég benti honum líka á, að það væri misskilningur að taka ekki tillit til þeirra radda, sem komu fram á kirkjufundinum, þar sem einmitt fólkið talaði, en þetta fólk átti engan fulltrúa í n. Og ég skýt því undir dóm bæði hæstv. forseta og meðþm. minna hér, hvort í þessu liggi nokkrar svívirðingar á hendur Sveinbirni Högnasyni eða prófessor Ásmundi Guðmundssyni. Ég fæ ekki skilið það, og sé svo, er það ekki frá mér; heldur frá hæstv. kirkjumrh. Annað hef ég ekki sagt um störf þessara manna í n. eða n. í heild.

Það er þess utan hreinn útúrsnúningur og ágizkun og fullyrðing, sem ekki á sér stoð í því, sem rétt er, þegar hv. 1. þm. N-M. segir, að ég hafi dróttað því að n., að hún hafi verið með því að reyna að ná í jarðir fyrir framsóknarbændur. Það var ekki n., sem gerði það. Ég sagði mjög ákveðið, að það hefði legið á bak við hjá hæstv. kirkjumrh., þegar hann lét semja frv. í fyrra og þvinga því í gegnum þingið, og þarf ekki að fara í grafgötur að leita að því, hvernig farið hefur verið með þessi mál áður. Hvernig var farið að því að reyna að ná Kaldaðarnesi undir ákveðinn framsóknarmann fyrir sama og ekkert fé? Og hvernig er búið að fara með Brjánslæk, til þess á sama hátt að koma honum undir annan ákveðinn framsóknarmann? Og ég gæti haldið þannig áfram, en ég vil ekki tefja d. með umræðum um það mál. Það er því fullkomin ástæða fyrir mig að halda því fram, að formaður Framsfl. geri sér far um að ná jörðum undan ríkinu undir svo og svo marga Jörunda, en það á ekkert skylt við störf n. Hitt kann vel að vera, að einmitt sá nm., sem settar var í n. af ráðh. og hafði fullan fjandskap á málinu, hafi stuðlað hér að ákveðnu marki í þessu máli og stuðli enn betur að því með brtt. sínum.

Hv. 1. þm. N-M. sagði, að það væri alrangt, að ekki mætti nú selja jarðir nema gera þær að ættaróðulum, en bætti við, að til þess þyrfti að setja sérstök lög. Nú má ekki, samkv. gildandi l., selja ríkisjarðir, nema sett séu um það sérstök l., þannig að fullyrðing mín um það atriði var hárrétt, enda er líka stefnt að því hér með þessu frv., að selja megi ákveðnar jarðir án þess, að þetta atriði sé sett inn, sem styrkir þá skoðun mína, að þetta sé allt gert í einum og sama tilgangi.

Hv. 1. þm. N-M. sagði, að sér væri óskiljanlegt, að andleg verðmæti gætu ekki skapazt í þéttbýli, og því óskiljanlegt, að prestar gerðu meira gagn í strjálbýli en þéttbýli. Hér er líka hreinn útúrsnúningur á því, sem ég hef sagt í þessu máli, og slíkur útúrsnúningur skapar náttúrlega ekki möguleika til þess að geta skilið, hvernig afgreiða eigi þetta stóra vandamál með sanngirni. Þetta er að fara undan í flæmingi, þegar menn eru orðnir rökþrota í sambandi við sínar eigin skoðanir. Ég hef bent á, að vafasamt er, að önnur eins verk hefðu skapazt, ef þeir menn hefðu verið í fjölbýli, þar sem þeir hlutu að verða að vinna að allt öðrum verkefnum dag og nótt, oft mjög langan vinnudag. Og ég veit ekki betur en að þetta verk, Yassiusálmarnir, hafi yljað og leitt þúsundir manna, hvort sem var í borg eða bæ. Það verður aldrei sannað, að slíkt verk hefði ekki getað orðið skapað t. d. af dómkirkjupresti í Reykjavík, sem hefði þurft að slíta sér út við sín daglegu störf. En sennilegra er, að slík verk skapist hjá manni, sem hefur betri ró og tíma, en hinum, sem verður að slíta kröftum sínum til allt annars. Þótt hv. þm. reyni að snúa út úr orðum mínum, verður það ekki til þess að styrkja málstað hans né þeirra, sem vilja, að þetta mál gangi fram.

Hv. þm. skaut því einnig að mér, að ég væri í þeirri n., sem starfaði að viðreisn Hrafnseyrar. Ég hef aldrei skoðað það sem hlutverk mitt að vera í þeirri n. nema einn sumartíma, sem er liðinn. Ég veit ekki til, að n. starfi að þeim verkefnum, sem þm. minntist á. Form. n. kallaði n. saman til Hrafnseyrar til að leysa ákveðið spursmál á ákveðnum tíma, og var það gert, og síðan álít ég, að starfi mínu í n. sé lokið. Það er þess vegna misskilningur, að sérstök skylda hvíli á þeim mönnum að byggja upp Hrafnseyri. N. ráðgaðist um það við sóknarn. og hreppsn. á þeim tíma, hvaða leið þætti bezt, og það var að byggja staðinn upp á ný, byggja heimavistarskóla og halda þar við presti og kennslu, en leggja ekki prestsembættið niður. Hins vegar var það ekki verk n. að hafa neinar framkvæmdir í því máli, og til þess hafði hún ekki neitt fé, og er því misskilningur að halda, að ég hafi nokkuð um þetta nú að segja. Ég hef ekki heldur heyrt, að neitt hafi komið frá form. n., hvorki fundarboð né annað, og tel ég, að hann hafi sömu skoðun á því máli og ég.

Hv. þm. sagði, að hann væri ekki viss um, hvor okkar væri í meira samræmi við vilja fólksins, hann, sem vill leggja niður svo og svo mikið af prestaköllum í landinu, og ég, sem vil ekki, að prestum verði fækkað. En ég vil leyfa mér að spyrja: Hefur hv. þm. og aðrir hv. þm. ekkert kynnt sér öll þau mótmæli, sem hafa komið gegn því að fækka prestum í sveitum, frá fólkinu sjálfu, og ekki n. heldur? Ég verð að segja, að ég tek ekki minna mark á því, sem fólkið sendir til Alþ., fólkið, sem verið er að taka ákveðna hluti frá, en prestarnir segja, sem hafa von um, að með samþykkt frv. verði hagur þeirra bættur, því að það er ekki verið að fækka prestunum, heldur er verið að flytja þá frá lakari stöðum og gefa þeim betri lífsskilyrði á öðrum stöðum á landinu. Það eru hins vegar ekki skammir um prestana, þó að því sé haldið fram, það er ekki nema mannlegt, þótt þeir vilji, að prestum sé fjölgað í Rvík og öðrum kaupstöðum og þeir fluttir til. En það eru sannarlega ekki raddir fólksins, þær eru allt aðrar, nefnilega að það vill ekki láta flytja prestana frá sér, hvort sem um það er að ræða að flytja þá til Reykjavíkur eða leggja prestsembættið niður. — Ég fullyrði því, að ég er í miklu meira samræmi við raddir fólksins en hv. 1. þm. N-M., ef marka má hans ræðu og hans þskj. hér í þessu máli. Hitt er svo annað atriði, að það kunna að vera einstöku sóknir í landinu, sem er sama, þó að prestar þeirra fari þaðan. Það er svo um alla menn, að þeim er sama, hvort lélegir menn eru við starf eða ekki, og mundi það ekki síður gilda um presta, sem kannske slíta sér út fyrir utan sitt prestakall meiri hluta ársins; það er sérstakt atriði.

Hv. þm. sagði, að hann væri að spara bæði fyrir fólkið og ríkissjóð, m. a. með því að leggja niður prestssetur á Prestsbakka og flytja prestinn að Kirkjubæjarklaustri, hann væri með því að vinna fyrir fólkið. En hvers vegna er á sama tíma verið að parta niður höfuðbólið á Prestsbakka? Það getur verið, að það sé góð till. út af fyrir sig að flytja prestssetrið að Kirkjubæjarklaustri, ég hef ekki nægilega þekkingu á því. En þyki það tilhlýðilegt að leggja part úr jörðinni Prestsbakka til prestsins, sem situr á Kirkjubæjarklaustri, hvers vegna má hann þá ekki halda allri jörðinni? Til þess að gefa hæstv. ráðh. tækifæri til þess að ráðstafa þeim hluta, sem ekki fer til prestsins, til einhvers annars. Það er einmitt ein sönnunin fyrir því, að hér sé ekki verið að hugsa um fólkið, heldur um ákveðna hagsmuni ákveðinna manna.

Hv. þm. talaði einnig um kirkjur, sem ekki væri hægt að messa í, og því miður eru þær of margar, og það eru í slíku ástandi þær kirkjur, sem ríkissjóður á sjálfur. Mér er t. d. kunnugt um það, að í Barðastrandarsýslu eru að minnsta kosti þrjár kirkjur í eigu ríkisins, sem ekki er hægt að messa í, þ. e. í Gufudal, þar sem er heldur léleg kirkja, á Stað á Reykjanesi, þar sem er mjög léleg kirkja, og í Breiðuvík er mjög léleg kirkja. Þá er einnig mjög léleg kirkja í Sauðlauksdal, það er kannske hægt að messa í henni, en að minnsta kosti er hún ekki í neinu fyrirmyndar ástandi. Og þetta eru allt ríkiskirkjur, en svona er ástandið, af því að ríkissjóður vill ekki leggja fram fé til þess að byggja þær upp, sem hann er þó skyldugur til, og ekki hefur tekizt samkomulag við söfnuðina um, að þeir yfirtaki kirkjurnar, því að ríkissjóður hefur ekki viljað leggja með þessum kirkjum nægilega mikið fé. En ég er líka viss um það, að ekkert af þessu fólki vill láta taka kirkjurnar burt frá sér, og þekki ég það í sambandi við Breiðuvíkurkirkju, að fólkið, sem býr þar við mjög erfið lífskjör, vill ekki fyrir nokkurn mun láta flytja kirkjuna burt eða taka prestinn frá sér. Ég er ekki að kenna kirkjuyfirvöldunum um þetta eða kirkjumálastjórninni, en ástandið er svona.

En hvað er þá að segja um prestssetrin? Aðalástæðan til þess, hve erfitt er að fá presta, er sú, hve illa er að þeim búið í fjöldamörgum tilfellum. Á fjöldamörgum prestssetrum er þannig búið að íbúðarhúsum og peningshúsum, að það er ómögulegt fyrir menn að flytja þangað, og má t. d. í því sambandi nefna Sauðlauksdal. Þangað er nýkominn ungur mjög efnilegur maður, sem vill búa, en getur ekki flutt í hús, þó að hann hafi gert það í vetur í eitt herbergi, því að hann vildi ekki vera settur í brauðið upp á annað en vera sjálfur búsettur í sókninni. En enga skepnu getur hann látið í peningshús, því að þau eru ekki til og Alþ. hefur ekki fengizt til að leggja fram nægilegt fé á þessa árs fjárl. til að byggja þetta upp. Er þetta mjög illa farið, en ég er ekki að kenna kirkjuyfirvöldunum um þessi mál; biskup landsins hefur óskað eftir því, að látið yrði meira fé til þessara framkvæmda, þannig að þetta er ekki að hans ráði gert, en stafar af því, að Alþ. hefur skellt við því skollaeyrum eða talið, að annað ætti að ganga fyrir, en það er óverjandi að láta rangsleitni Alþ. í þessu máli verða til þess, að prestunum verði kippt burt frá fólkinu vegna þess, að ekki sé hægt að sjá þeim fyrir sæmilegum íbúðum.

Svo minntist hv. þm. á kirkjugarða. Við höfum ágætt fordæmi í sambandi við kirkjugarða, ég hef komið að Bessastöðum, þar sem búið er að þurrka kirkjugarðinn út. Mér er kunnugt um, að ekki hefur verið leitað til þeirra ættingja, sem eiga þar nýgrafna menn, um leyfi til að slétta kirkjugarðinn út. Og hvað þá um aðra kirkjugarða, þegar farið er á þann hátt með kirkjugarðinn á forsetasetrinu og það án þess að spyrja nánustu ættingja, sem mér er kunnugt um, að hefur ekki verið gert; m. a. ættingjar manna, sem ekki eru búnir að liggja þar í 10 ár, hafa ekki verið spurðir um það? Ef kirkjuyfirvöldin í landinu telja sig hafa heimild til þess að gera þessa hluti, er það a. m. k. ódýr lausn á því máli, og þarf þá ekki hv. þm. að hafa áhyggjur af því, að ekki sé hægt að koma þessu í sæmilegt horf, að minnsta kosti eins og á forsetasetrinu.

Ég sé ekki ástæðu til að svara meir hv. 1. þm. N-M. í sambandi við þetta mál, en vil snúa mér nokkuð að hv. 2. þm. S-M., sem flutti hér einmitt mjög góða ræðu í sambandi við þetta mál. Ég verð að segja, að ef þeir menn, sem ekki einasta voru í menntmn., heldur einnig voru í mþn., hefðu flutt mál sitt af sömu þekkingu og sanngirni og hv. 2. þm. S-M, þá væri kannske hægt að komast miklu fyrr að því sanna eða rétta í þessu máli. Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um, að það er mjög miklum erfiðleikum bundið að sameina barnakennslu og prestsþjónustu í hinum fámennu sveitum, eins og einnig hv. 6. landsk. benti á í gær. Og þó yrðu erfiðleikarnir vitanlega langmestir, þegar það kæmi á daginn, að ekki fengjust prestar, t. d. af þeirri ástæðu, að prestssetrin væru svo illa hýst, þannig að sumir prestar yrðu að fara að þjóna 2–3 prestaköllum og vera kennsluprestar í þeim öllum. Og þó að ég hafi lýst mig því fylgjandi, að á einstöku stöðum séu sett upp kennsluprestaköll, mun ég ekki sjá mér fært að fylgja því, þegar búið er að fækka prestunum eins og hér er gert.

Ég tel því öll rök hníga að því, að samþykkja beri till. mína um það að fresta málinu í heilt ár, og rök hv. 2. þm. S-M hnigu mjög í sömu átt. Það er margt, sem bendir mjög greinilega til þess, að þetta mál hafi ekki fengið þann undirbúning í mþn. sem með þurfti, sem líka er viðurkennt í sjálfri grg., sem n. samdi, og átti þó sæti í n. hinn ágæti menntafrömuður Ingimar skólastjóri. En það virðist svo sem andstaðan eða andúðin gegn prestunum í sveitum landsins hafi mátt sín meir í mþn. en þekkingin og vitið og samúðin með kirkjunni, og kemur það gleggst fram í herópi n. í sjálfri greinargerðinni.

Hv. þm. sagði, að þessi till. um að stofna kennsluprestaköll væri sjálfsagt fram komin vegna þess, að n. liti svo á, að prestarnir hefðu ekki nægilegt verkefni í prestsstarfi sínu. En ég vil nú spyrja: Hvað er verkefni presta, og hvenær er það nægilegt? Hæstv. forseti þessarar d. sýndi einmitt fram á, að gengið væri á rétt fólksins, ef lögskipa ætti, að eitt prestakall skyldi vera þannig sett, að fólkið fengi ekki messu nema sjötta hvern sunnudag, en fólkið í öðru prestakalli hefði möguleika á að fá messu á hverjum sunnudegi. Og sannarlega tekur það jafnlangan tíma fyrir prest að undirbúa ræðu sína, hvort sem hann á að lesa hana yfir 2 þúsundum í dómkirkjunni í Reykjavík eða 3 mönnum eða 4 í kirkju úti á landi. Það tekur nákvæmlega sama tíma, ef hann leggur sína vinnu og sína sál í það að semja þá ræðu. En ég hef bara ekki verið þeirrar skoðunar, að prestsverk séu þau ein að semja ræður og flytja þær eða skíra börn og jarða. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að ef fólk úti á landi við erfið lífskjör og baráttu við náttúruna og höfuðskepnurnar vill hafa prest og finnur styrk hjá sér til þess að halda áfram starfi, ef það hefur prest, þá tel ég sjálfsagt að svipta það ekki prestinum. Og það varðar minnstu, hvort það kostar ríkissjóð meira eða minna; hitt varðar miklu meira, hvort hægt sé að halda fólkinu í þessum héruðum, ef þetta er látið eftir því. Og það er þetta, sem hv. 6. landsk. kom inn á í gær og viðurkenndi hann, sem vill fækka prestunum svo og svo mikið, biður um að láta ekki þessa plágu koma yfir eitt allra fámennasta prestakallið, því að þótt þar séu ekki nema 30 manns, vill hann ekki láta ákveða með l. að það sé lagt niður, því að það gæti haft þau áhrif, að þetta fólk gæfi alveg upp baráttuna við að búa þar áfram. En hvað heldur hv. þm. um annað fólk, sem berst þessari baráttu á öðrum stöðum og verið er að taka prestana af, — hefur hann ekki hugmynd um, að það fólk muni gefast upp og flytja á eftir prestunum? Ég held, að hann hafi sjálfur talað miklu betur fyrir þessu máli en ég hefði getað gert. Og nákvæmlega sama hefur komið fram hjá öðrum, sem hér hafa talað. Þegar það hefur átt að snerta þeirra umbjóðendur, þá mátti ekki undir neinum kringumstæðum fækka prestunum. Nú snertir þetta frv. ekki einn einasta af mínum umbjóðendum, og ég hef því miklu meiri rétt til að tala um þetta mál fyrir hönd fólksins úti á landi en hinir, sem mæla með því, að frv. verði samþ., nema bara ekki láta pláguna koma yfir þeirra eigin umbjóðendur. Það er alveg sýnilegt, og það var einmitt þess vegna, sem þessi fámenna sókn á Mjóafirði sendi til kirkjuvaldsins, biskupsins, áskorun um það að mega halda sínum gamla, góða presti, sem kominn var langt yfir aldurstakmarkið, því að þetta fólk fann, að það var að tapa einhverju af sinni eigin sál, ef það var slitið úr sambandi við hann, ekki af því, að það vantaði prest til að skíra, jarða og ferma, heldur vegna þess, að því þótti sem verið væri að taka frá því eitthvað, sem það mat meira en fé. — Nú skal viðurkennt, að þetta er ekki algild regla, að ekki megi flytja eitthvað til í sóknum. Það, sem ég vil, að hv. deild sé ljóst, er, að fólkið vil] ekki missa það, sem verið er að taka frá því með þessu frv.

Síðan sagði hv. þm. annað, sem er athugunarvert: „Ef ég á þess kost að vinna að fækkun á embættismönnum, þá neyðist ég til þess að fylgja því.“ Ég vildi halda, að eins orðvar og varkár maður og hv. 2. þm. S-M. mundi ekki hafa sagt þetta, nema hann meinti það, því að hvað gerði til, þótt embætti væri lagt niður, ef verið væri að spara með því, og nú er verið að spara með þessu! En hér er bara ekki verið að spara, það er verið að taka prestana frá sveitunum og flytja þá til kaupstaðanna. Það er verið að gera þessa hreytingu á kostnað þeirra, sem eiga erfiðast í lífsbaráttunni. Nú má að vísu segja, að það sé of mikið fyrir einn prest að hafa sálgæzlu 5000 manns, eins og mun vera hér í Reykjavík. En hitt er vitað, að þótt menn hér hafi sinn ákveðna prest samkvæmt lögum, geta þeir leitað til annars prests. ef mönnum sýnist svo, alveg eins og til annars læknis. Það er því engin ástæða til þess að fjölga prestum í kaupstöðunum. Ég skal þó ekki mæla á móti því, að ástæða sé til að fjölga prestum í kaupstöðunum, en það á ekki að gera það á kostnað sveitanna.

Hv. 1. þm. Eyf. mótmælti fram kominni till. um að skipta Vallaprestakalli og færði þar fram sterk rök. En hvernig getur hann þá með góðri samvizku mælt með því að taka í burt presta annars staðar til þess að sameina prestaköll hjá öðrum og skapa þeim verri aðstöðu, þegar hann vill berjast fyrir því, að mönnum í þessu prestakalli sé sköpuð betri aðstaða? Einn prestur ætti þá að fara hér um 75 km leið á kirkjuna. Hann verður þá að undirbúa sig undir það sérstaklega, eins og presturinn á Völlum, sem á að fara til Hríseyjar. Þetta er eitt af því, sem lagt er til hér.

Svo kom hv. þm. inn á annað atriði líka, sem er alveg rétt, að ef fækka á prestum, þá er sjálfsagt að fækka kirkjunum líka. Hins vegar styður biskup þessar till., sem miða að því að brenna upp 11 kirkjur eða fleiri. Það er einkennilegt, sem maður á von á í þessum málum. Fyrst á að fækka prestunum og selja höfuðbólin, síðan á að rífa niður kirkjurnar eða brenna þær bara. Og fyrir þessu standa prestar með biskup sem forustumann. Það var því réttilega bent á það, að ef prestunum er fækkað, þarf að fækka kirkjunum líka. Þá minntist hv. 1. þm. Eyf. á meðferð málsins í n., og ég verð að segja, að mér fannst hann þar hafa töluvert mikil lög að mæla. Ég held, að það séu nokkuð sérstæðar deilur, sem fram fara um þetta mál hér á Alþingi. Það er farið með þetta mál og deilt um það eins og það væri fjárlög eða vegalög, og finnst mér nokkuð undarlegt að líta þannig á málið. Hér hefur menntmn. fengið málið til meðferðar og undirbúnings, en nefndin kemur ekki með nein gögn, sem hún leggur fyrir Alþ., þegar málið er lagt fram; hún leggur bara fram frv. sjálft með grg., sem lítið upplýsir þetta mál. Menntmn. hafði þetta mál til meðferðar, en n. kemur út jafnklofin og mennirnir eru margir í n., einn vill þetta og annar hitt. En ég ásaka ekki n. fyrir þetta. Ég held, að þetta hafi verið fyrirskipað frá hæstv. kirkjumrh., að þetta mál skuli ná fram að ganga vegna ákveðinna takmarka, sem hæstv. kirkjumrh. vill ná.

Langsamlega eðlilegast væri að fresta þessari umr. nú þegar og n. tæki málið aftur og reyndi þá að koma sér saman um hlutina. En mér er bókstaflega ómögulegt að taka brtt. mínar aftur til 3. umr., eins og forseti fer nú fram á. Ef ég léti brtt. mínar bíða til 3. umr., þá yrði búið að loka fyrir það, að ég gæti komið með aðrar brtt., ef þessar verða felldar, því að það er fyrst eftir 2. umr., sem menn fá yfirlit yfir málið, hvernig það er komið. Ef ég nú tek brtt. mínar til baka til 3. umr. og verði þær þá felldar, kem ég ekki neinum af mínum till. að. Þess vegna vil ég óska þess, að hæstv. forseti láti ganga atkv. um allar þessar till., sem hér liggja fyrir, einmitt nú, til þess að við getum fengið að sjá heildarmynd af frv. eins og má gera ráð fyrir að það verði. Ég veit ekki nema allar till. hv. 1. þm. N-M. verði samþ., og hvaða möguleika hefði ég þá til þess að koma með brtt. við 3. umr.? Þess vegna tek ég ekki aftur brtt. mínar, en óska þess, að þær verði bornar upp núna við 2. umr. og að sem flestar brtt. verði bornar upp núna. Þetta mál hefur skýrzt ótrúlega mikið við ræður hv. 1. þm. Eyf. og 2. þm. S-M., sem báðir hafa lagt móti því, að frv. yrði samþ., þótt þeir lýsi því yfir, að þeir fylgdu frv., ef það snerti ekki þeirra kjördæmi.

Hv. 6. landsk. vill ekki leggja Eyrarsókn undir prestinn á Ísafirði. En getur hann sætt sig við, að það sé tekið frá öðrum, sem þeir óska að hafa, og kirkjur, sem fólkið óskar eftir, séu lagðar niður?

Hv. 1. þm. N-M. vill helzt ekki hafa neinar kirkjur í landinu og lýsti því yfir, að honum hefði tekizt að snúa einum presti til trúar með ræðu á ungmennafélagsfundi. Hann getur því um leið og hann ferðast um landið og heldur hrossa- og kúasýningar verið trúboði. En hvort árangurinn af því trúboði yrði gagnlegur, er annað atriði.

Ég skal enda mál mitt á því að þakka hæstv. forseta fyrir að skoða ekki þessa ræðu mína sem athugasemd og læt máli mínu lokið við þessa umr.