07.12.1951
Efri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

109. mál, skipun prestakalla

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. hefur nokkrum sinnum komið að því, að sér þætti vinnubrögð menntmn. nokkuð slæleg og óeðlileg, þegar um slíkt nauðsynjamál væri að ræða. Um þetta atriði þarf ekki að fjölyrða, þar sem hv. form. menntmn., hv. 11. landsk. þm., hefur þegar gert grein fyrir þessu, og hefur verið leitað álits skrifstofustjóra Alþ. um það, hvort venjulegt væri, að nefnd skilaði áliti í tilfelli eins og þessu. Nefndin hefur aðeins flutt frv. eftir óskum ráðh., og allir nm. hafa áskilið sér rétt til að hafa óbundnar hendur um málið. Mér er engin launung á því, að afstaða manna í nefndinni til frv. var þannig, að einn nm. vildi fylgja frv. óbreyttu, en taldi sig þó knúinn til að flytja eina brtt., sem snerti sóknaskipun heima í hans kjördæmi, en þetta var hv. 2. þm. Árn. Form. nefndarinnar vildi einnig halda sig að mestu leyti við frv. óbreytt, en hann boðaði þó brtt., sem hann hefur nú flutt. Svo er einn af milliþinganefndarmönnunum, og hefur hann tjáð, að hann hafi boðað í milliþn. allmargar brtt., þótt hann hafi skrifað undir nál. með fyrirvara, sem sagt, að hann mundi stuðla að flutningi þess í þinginu, þótt hann kæmi fram með brtt. við það. Það er því auðséð, að meiri hl. menntmn. hefur ekki haft aðra afstöðu sameiginlega til þessa máls en að mæla með flutningi þess. Fyrir þessum brtt. öllum hefur nú verið gerð skilmerkileg grein, og hv. dm., sem hlýtt hafa á ræðurnar, fengið þannig skilmerkilega vitneskju um till., efni þeirra og þann rökstuðning, sem að þeim hnígur. Ég held því, að málið liggi ekki eins óljóst fyrir og hv. þm. Barð. vildi gefa í skyn, og sízt af öllu skyldi maður trúa því, að málið lægi óljóst fyrir honum, sem hefur gert mikið til að kynna sér það sem bezt og sýnt brennandi áhuga fyrir lausn þess. Þessi hv. þm. vill ekki ganga inn á neina fækkun presta í strjálbýlinu og telur milliþn. hafa gengið of langt í þessu atriði, og hann fullyrðir, að nefndarmenn hafi ekki komið fram í þessu máli sem fulltrúar fólksins. Þetta þýðir, að hann gagnrýnir mjög skipun milliþn. Ég þykist þó ekki geta séð annað en nefndin hafi einmitt fyrst og fremst verið skipuð út frá óskum kirkjunnar og forsvarsmanna hennar, þar sem í henni áttu sæti prófastur við íslenzku þjóðkirkjuna, séra Sveinbjörn Högnason, prófessor í guðfræði við háskólann, Ásmundur Guðmundsson, og fulltrúi biskups, Sveinn Víkingur biskupsritari. Ættu þessir menn að vera allgóðir formælendur kirkjumálanna. Þá komu tveir menn frá hinni veraldlegu hlið, ef svo mætti segja, sem báðir voru valdir með tilliti til þess, að þeir hafa mjög góða yfirsýn yfir alla landsbyggðina, þ. e. búnaðarmálastjóri og landnámsstjóri, menn, sem komið hafa í hvert hérað landsins og eru öllum mönnum kunnugri um legu og staðháttu í sveitum landsins.

Ég læt mér ekki detta í hug, að þessir tveir fulltrúar hafi verið valdir sem fjandmenn kirkjuþjónustunnar og kristninnar í landinu, en hitt virðist auðsætt, að hinir þrír, biskupsritarinn, prófasturinn og guðfræðiprófessorinn, hafa verið valdir í nefndina með það fyrir augum, að þeir gætu rætt það hlutverk að gæta hagsmuna presta og kirkju, ekki aðeins í Reykjavík, heldur hvarvetna í byggðum landsins. Ég get því ekki stillt mig um að hugsa, að þessir menn hafi orðið fyrir óverðskulduðu aðkasti frá hv. þm. Barð., sem hefur fullyrt, að þeir hafi ekki starfað sem fulltrúar fólksins í landinu, og það vegna þess, að manni skilst, að þessir menn hafa viðurkennt breytta tíma og breytta staðhætti, sem gera það sjálfsagt og eðlilegt að leggja niður eitt og eitt prestakall og breyta til um sóknaskipun. Þetta virðist ofur eðlilegt, og ég get ekki fengið mig til að túlka þessi störf þeirra á nokkurn hátt sem fjandskap við kirkjuna í landinu. Hér hefur verið deilt um, hvort það sé réttlætanlegt að fækka prestum eitthvað í strjálbýlinu, og hv. þm. Barð. heldur því fram, að það sé óverjandi. En á grundvelli þess, sem ég hef sagt áður um milliþn., tel ég, að sú fækkun, sem hún leggur til að verði gerð, muni þó alltaf vera réttlætanleg og kirkjulífinu í landinu muni ekki stafa hætta af þeirri fækkun. Sízt get ég þó verið í efa um, að óhætt sé að fylgja till. nefndarinnar um fækkunina, eftir að hafa séð meðmæli stjórnar Prestafélags Íslands um það, að frv. verði samþ., því að það sé til bóta út frá sjónarmiði kirkjunnar í landinu. Annars er ég ekki viss um, að sú stefna sé rétt, að höfðatalan í söfnuði eigi að ráða því, hvort prestakall skuli verða lagt niður eða ekki. Mér finnst hugsanlegt, að þannig standi á, að það beri að íhuga vandlega, hvort réttara sé að leggja niður prest og kirkju í einu fámennu byggðarlagi en öðru, sem kannske er miklu fjölmennara og vel sett með samgöngur. Ég dreg í efa, hvort réttmætara sé að leggja niður prestakali í Aðalvík á Ströndum, þótt þar séu ekki eftir nema 30–40 sálir, heldur en leggja t. d. niður eitt eða tvö prestaköll af fjórum hérna uppi á Borgarfjarðarundirlendinu. Bezt gæti ég trúað því, að það væri réttlætanlegra að leggja niður einn prest í Borgarfirðinum heldur en leggja niður prestakallið í Aðalvík, meðan ekki er útséð um það, hver verða örlög þeirrar byggðar, hvort byggðin leggst í eyði eða vonir standa til, að byggð blómgist þar aftur. Ég er í vafa um þetta sökum þess, að í Aðalvík gæti skeð sá atburður, að það atriði, hvort prestur hefði þar aðsetur eða ekki, gæti haft úrslitaþýðingu um það, hvort fólkið gæfi upp vörnina og flytti á brott úr byggðarlaginu. Ég hef því tilhneigingu til að flytja till. í þá átt, að Staðarprestakall yrði ekki afmáð úr tölu prestakalla með þessu frv., en hins vegar sett inn í það ákvæði um það, að Staðarprestakalli í Aðalvík yrði fyrst um sinn þjónað frá Stað í Grunnavík. Það þýðir í raun og veru, að aðeins er slegið á frest að taka ákvörðun um, hvort leggja skuli niður prestakallið í Aðalvík, og fólkinn tryggð prestsþjónusta, en prestakallið í Aðalvík yrði áfram, ef byggðin innan þriggja ára rétti sig við. Hins vegar, ef hún hefur dáið út á næstu þrem árum, þá hverfur það prestakall af sjálfu sér. Í þeirri till., sem ég boða, felst ekkert annað en þetta, að þar er gengið út frá því, að prestakallið í Aðalvík verði lagt niður, ef það sýnir sig, að byggðin ætlar ekki að lifa næstu árin, en meðan úr þessu er ekki skorið, þá verði þessu prestakalli þjónað frá Stað í Grunnavík. Ég er sannfærður um, að það er álitamál, hvort ekki væri réttlátt að fækka t. d. um 1–2 presta í Rangárvallaprófastsdæmi eða um 2 presta á Fljótsdalshéraði, þar sem samgöngur eru ágætar.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þessa þætti frv., en snúa mér að nýmælinu í 6. gr. um kennsluprestana. Ég sé ekki, að mþn. taki þetta nýmæli upp vegna þess, að hún ætli sér með því að reyna að tryggja þessum prestaköllum, sem eru fámenn og erfiðlega hefur gengið að fá presta til að sækja um, presta. Eftir því, sem ég þekki til, þá hafa sum þessi prestaköll, svo sem Árnes á Ströndum, Sauðlauksdalur o. fl., verið prestslaus árum saman undanfarin ár, en þetta eru allt fámenn prestaköll, og ég efa ekki, að meginástæðan til þess, að prestar eru svo tregir til að sækja um þau, er sú, að þeir telja sig ekki hafa þar fullnægjandi starf og óttast að forpokast fyrr en aðrir stéttarbræður þeirra, af því að andlegt líf þrífst ekki í iðjuleysi. Þá hefur prestakallanefnd hugsað sér að bæta úr þessum voða með því að sjá þessum prestum fyrir nægu starfi; það skyldi vera kennslustarfið. Nú er auðsætt, að þessi prestaköll hafa ekki verið eftirsótt af prestum landsins undanfarin ár og hafa þess vegna verið prestslaus, og þá er spurningin: Eru líkur til þess, að þessi prestaköll, eftir að þessi nýja skipun er komin á, sem 6. gr. gerir ráð fyrir, yrðu eftirsótt, þegar presturinn ætti að vinna sem prestur og kennari? Breytingin, sem þarna yrði á högum prestsins, er sú, að auk þess sem hann ætti að þjóna prestsembættinu, þá ætti hann að taka að sér 6 klst. kennslu á dag. Með þeim undirbúningi, sem þessi störf krefjast, og með þeirri aukavinnu, sem fylgir fullri kennslu, þá verður að telja það fullt starf, sem prestinum er þar með fengið, hvort sem um er að ræða fámennan sveitaskóla eða fjölmennan skóla, þar sem kennarinn á að kenna fullskipaðri bekkjardeild. Fyrir þetta starf á kennslupresturinn að færast upp um einn launaflokk. Prestar taka laun samkvæmt 9. launaflokki og fá 8400 kr. í grunn, en nú ættu þéir við það að taka að sér fullt kennslustarf með prestsembættinu að færast upp í 9 þús. kr. í grunn. Ég er hræddur um, að þeir mundu verða fáir guðfræðinemendurnir, sem mændu alveg sérstaklega á þessi 10 kennsluprestaköll og hugsuðu með sér: Ég verð að undirbúa mig, þótt það kosti lengri námstíma, undir það að hafa bæði prests- og kennararéttindi, til þess að ég geti orðið þess aðnjótandi að sækja um eitt af þessum 10 kennsluprestaköllum. — Ég held, að þau þættu sízt eftirsóknarverð, svoleiðis að menn, þegar þeir eru að undirbúa sig undir prestsstarfið, vildu sízt af öllu lengja námstímann til þess að gera sig hæfa til þess að hljóta þau. Ég býst við, að þeir verði tiltölulega fáir, sem auk kandídatsprófs í guðfræði tryggðu sér kennsluréttindi. Þó er það svo, að ef einhver væri slíkur, að hann mændi á þetta takmark og hugsaði sér að fá þarna embætti, sem væri launað einum launaflokki betur en prestsembætti, þá gæti svo farið, þegar hann væri búinn að ljúka sínu námi, að honum opnuðust möguleikar til að sækja um annað embætti en þessi 10 og yrði kannske kosinn af söfnuði, þannig að þeir fáu menn, sem líkur mætti telja til, að öfluðu sér hvorra tveggja réttindanna, gætu farið í önnur prestaköll áður en varði. Þannig eru í fyrsta lagi líkur til þess, að það yrðu fáir, sem öfluðu sér hvorra tveggja réttindanna til þess að hafa rétt til kennsluprestakalla. Í annan stað eru líkur til þess, að þeir færu hingað og þangað í önnur prestsembætti, því að þeir hafa óskertan rétt til annarra prestakalla, og gæti þá orðið hörgull á þessum mönnum, sem fullnægðu hvorum tveggja réttindunum. En það, sem ég tel óheppilegast við þetta fyrirkomulag, er það, að kennslustarfið yrði í þessum prestaköllum aðalstarf; hins vegar hefði maðurinn, sem ætlar að gegna kennslustarfinu, aðalmenntun sína í guðfræði, en aukaundirbúning í kennslufræðum. Hann hefði aðalundirbúning í því starfi, sem ætti að vera aukastarf, en aukaundirbúning í því starfi, sem ætti að vera aðalstarf. Ef ætlunin er að taka upp eitthvert skipulag í þá átt að reyna að komast af með einn mann til að gegna kennara- og prestsembætti, þá væri sönnu nær að hugsa sér það á þann hátt, að kennari undirbyggi sig með aukanámi í guðfræði í viðbót við kennaranámið og væri þá fær um að annast bæði kennslu- og prestsþjónustustörf. Þá væri maður, sem hefði aðalmenntun í kennslustarfi, við kennslu sem aðalstarf, og prestsþjónustustarfið væri þá aukastarf.

Ég skal aðeins nefna eitt dæmi um það, hvernig það hefur gefizt að haga þessu svona. Það var á 19. öld, þegar prestslaust var í Grímsey, að þá beittu kirkjuyfirvöldin sér fyrir því, úr því að enginn guðfræðimenntaður maður fékkst í þetta starf, að úr 4. bekk lærða skólans var fenginn maður til að taka prestsvígslu til Grímseyjar; það var Pétur Guðmundsson, og innti hann af höndum merkilegt prests- og kennimannsstarf. Ég skal þó ekki fullyrða, að það skipulag kynni að gefast vel heldur, og mundi að sjálfsögðu ekki gerlegt nema undir þeim kringumstæðum, þegar prestsmenntaðir menn fást ekki til að þjóna ákveðnum brauðum, en þörf þykir fyrir að hafa mann til prestsþjónustu og ekki er þægilegt að ná til prests úr nágrannaembætti.

Þar sem um það er rætt í frv., að prestsbústöðum í kennsluprestaköllum ætti jafnvel að haga þannig, að prestsbústaðurinn væri byggður sem heimavistarskóli, þá verð ég að segja, að ég held, að það væri þá alveg horfið, að presturinn ætti nokkurn tíma að taka til prestlegra starfa fyrir söfnuðinn, ef hann ætti að vera skólastjóri í heimavistarskóla, því að það held ég að heimti manninn allan og sé erfiðasta embætti, sem þekkist hér á landi. Ég er hræddur um, að þeir menn, sem ætluðu að tryggja sér sérstaklega kennsluprestaköllin, þegar þeir undirbúa sig undir lífsstarfið, það væru sérstaklega þeir menn, sem ekki byggjust við því að eiga margra kosta völ, og yrðu það kannske ekki úrvalsmenn stéttarinnar, sem byggju sig þannig undir sameiginlegt prests- og kennarastarf. Ég veit þess vegna ekki, frá því sjónarmiði, hvort þetta væri nema bjarnargreiði fyrir strjálbýlið og fyrir hinar fámennu byggðir, þó að það sé vel hugsað af tillögumönnum. Ég er hræddur um, að það yrði ekki mannval prestastéttarinnar, sem gerðist sameiginlega andlegir leiðtogar sem prestar og kennarar í einni persónu.

Svo er annað við þessa grein, sem mér er þó einna verst við. Það kemur að vísu ekki fram í neinni lagagr. frv., en er sagt fullum fetum í skýringum við 6. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef þessi ákvæði verða að lögum, leiðir af því, að ekki mundu aðrir sækja um skólaprestaköll en þeir, sem fúsir eru til þess að taka að sér bæði störfin og hlutgengir eru til þess. Ekki mundi prestur í slíku prestakalli heldur síðar geta afsalað sér öðru starfinu en haldið hinn. Á sama hátt mætti yfirstjórn fræðslumálanna ekki heldur ráðstafa til frambúðar kennarastarfi á slíkum stöðum, þótt prestslaust yrði um sinn.“

Ef til frambúðar er gengið þannig frá kennsluprestsembættunum, að hvorugt starfið mætti fræðslumálastjórnin veita og ekki festa þangað kennara, þótt prestslaust væri, þá gæti þetta gengið þannig árum saman. Þetta finnst mér háskalegt og tel, að það mundi verða hnekkir fyrir fræðslumál viðkomandi héraðs, kannske svo að árum skipti. — Ég skal ekki ræða frekar um þetta nýmæli, en ég er hræddur um, að það reynist hinum fámennu byggðarlögum hvorki til góðs sem úrlausn í kennaravandræðum né prestavandræðum. Mér er nær að halda, að það yrði til þess, að þessi umdæmi væru bæði prestslaus og kennaralaus um langa hríð, því að það er þannig um hnútana búið, að úrvalsmenn í presta- og kennarastétt sækja ekki um þessi embætti.

Þá skal ég víkja að hinu nýmælinu, sem í frv. felst og er fram sett í 7. gr., það er um hina 2 aðstoðarpresta, sem biskup er falið að ráða. Ég skal játa, að þegar við í menntmn. gerðum okkur grein fyrir efni þessarar gr., þá töldum við þetta eingöngu forfallapresta, sem ættu að boði biskups að fara til Austfjarða, ef prestarnir þar væru veikir um lengri tíma, eða ef slíkt bæri að höndum einhvers staðar, þá ætti aðstoðarprestur úr Reykjavík að fara þangað til að annast prestsþjónustu, og annað hlutverk gerðum við okkur ekki ljóst, að þessum prestum væri ætlað. Við í menntmn. lítum svo á, að þá gæti svo farið, að þessir aðstoðarprestar sæju löngum í Reykjavík án þess að hafa verkefni. Við litum hins vegar svo á, að nálega alls staðar í landinu væri fært að fá nágrannaprest til að þjóna, þegar prestur í einhverju kalli væri forfallaður, nema kannske í einu prestakalli eða tveimur, Vestmannaeyjum og Grímsey, undir slíkum kringumstæðum væri gott að geta gripið til svona aukapresta. Þá sögðum við: Eru ekki margir aldraðir prestar hér í Reykjavík, sem vildu fara í einstaka tilfellum til prestsþjónustu um sinn í þessi prestaköll, án þess að þurfa að fá sérstaka embættismenn í þetta? — Það töldum við færa leið. Nú hefur einn prestur gert mér grein fyrir því, að þetta fyrirkomulag sé kunnugt a. m. k. á Norðurlöndum, og biskup hefur tjáð mér, að Norðmenn hafi t. d. 19 slíka aðstoðarpresta og þetta þyki þar gefast vel. En þeir segja, að þessir aðstoðarprestar hafi meira hlutverk en að vera forfallaprestar. Við gætum t. d. hugsað okkur, að annar presturinn væri valinn með tilliti til íþróttahreyfingarinnar og unga fólksins; hann hefði sérstaka aðstöðu til að ná til íþróttaæskunnar, hann gæti t. d. farið í skíðaskálana, þegar unga fólkið er þar, og prédikað yfir því. Ef þetta væri maður, sem runninn væri úr sjómannastétt, þá væri rétt, að hann hefði tækifæri til að ná til sjómannastéttarinnar; hann gæti ferðazt um landið til þess að hafa sjómannamessur o. s. frv. Ég held, að þetta gæti verið heppilegt fyrirkomulag, auk þess sem þessir prestar kæmu þar til, sem ekki er hægt að fá nágrannaprest til að þjóna. En það færi auðvitað um þetta eins og önnur nýmæli, að það mundi gefast eftir því, hvernig stjórnendum kirkjunnar tækist að velja menn í þetta hlutverk. Meðan þetta er óreynt, væri nóg að hafa einn mann við það, en ef það gæfist vel, þá væri rétt, að kirkjustjórnin fengi aðstöðu til að fjölga þeim, kannske í 2 eða 3. Þó fyndist mér hugsanlegt, ef þetta ætti að ná til sérstaks hóps manna, t. d. unga fólksins, að það væri hægt að finna í prestastétt menn, sem vildu fara út í þetta lífræna starf með kaupi fyrir þann tíma, án þess að þetta væri aukaembætti, svo að ég er enn, þrátt fyrir góðar upplýsingar biskups og kennimanna, sem við mig hafa rætt, óráðinn um það, hvort ég tel nauðsynlegt að taka upp þessa tvo aðstoðarpresta, sem 7. gr. fjallar um, en jafnákveðinn er ég í því að vera andvígur því skipulagi, sem felst í 6. gr., þ. e. a. s. kennsluprestunum. Ég hef tekið fræðispeki um þessi atriði og önnur með sálarspekt og ró, því að það er skiljanlegt, að prestastéttin sé áfram um það, að þetta frv. komist í gegnum þingið í þeirri mynd, sem þeir telja affarasælast sinni stétt, þar sem þeir eru svo illa settir að eiga engan prest á Alþ. Þess vegna er eðlilegt, að þeirra viðtöl verði löng, þegar þeir geta komið því við.

Ég skal svo láta máli mínu lokið; það er komið nóg af löngum ræðum. En sannfærður er ég um það, að það er engin goðgá, þó að fækkað væri prestum nokkuð verulega frá því, sem er, og þeim séð fyrir fullu starfi, því að svo bezt er hægt að tryggja andlegt líf í landinu, að þeir, sem eiga að rækja þessi störf, geti ekki fallið í iðjuleysi og doða. Ég mun því fylgja sumum till. hv. 1. þm. N-M. um tilfærslu og í einstaka tilfellum fækkun presta, þar sem aðstaða er til þess, og það er augljóst, að aðstaða til að sækja kirkjur á ákveðnum stöðum hefur breytzt undanfarin ár. Það hafa t. d. ekki verið tiltök austan Hvítár að sækja kirkju í Skálholt til skamms tíma austan yfir, en þegar komin er brú hjá Iðu, þá breytist þetta, og þá á austurbakkinn hvergi hægara að sækja kirkju heldur en að Skálholti og mun vafalaust gera, þegar búið er að sýna staðnum þann sóma, sem ber að sýna honum. Þannig er hægt með nokkrum áföngum að færa fólksstrauminn til eftir aðstöðu til að sækja kirkju, og ber því að breyta sóknamörkum og fjölda kirkna eftir því og færa kirkjur eftir því, sem nauðsyn heimtar, alveg eins og ekki er hægt að slá neinu föstu um það, hvar heppilegast er að byggja skóla eða önnur embættissetur fyrir aðrar embættisstéttir landsins. Þetta á allt að vera breytingum háð, og má sízt leggja það út sem fjandskap við viðkomandi stétt.

Í heild blasir málið svo við mér: Ég er því fylgjandi, að allt, sem gert verður í þessu máli hér á hv. Alþ., verði miðað við þarfir kristinnar kirkju. Ég er sannfærður um, að margar af till. þeim, sem hv. 1. þm. N-M. hefur lagt hér fram, eru til bóta, og mun því fylgja þeim. — Ég álít, að nú hefði einnig átt að breyta prófastaskipuninni landinu. Það er engin meining í því, að tveir prestar séu í einu prófastsdæmi og annar þeirra þá prófastur, eins og t. d. í Dalaprófastsdæmi. (ÞÞ: Í Austur-Skaftafellssýslu er einn prestur, og er hann jafnframt prófastur.) Það styðst ekki við neina skynsemi, að einn prófastur skuli vera yfir einum presti, og ég held, að enginn geti kallað það fjandskap við presta, þótt lagt yrði til, að prófastsdæmunum yrði fækkað.

Þá eru það nokkur orð um frávísunartill. hv. þm. Barð. Hún er of snemma fram komin, og þess vegna var það till. mín og annarra í menntmn., að hún yrði tekin aftur til 3. umr., en þá verður séð, hvort málið er í slíkt óefni komið, að hún sé réttlætanleg. En eins og ég tók fram áðan, þá finnst mér of snemmt, að hún komi fram nú við 2. umr. Það er ekki enn þá séð, hvort málið fær viðunandi afgreiðslu í þessari hv. d. Ef til vill á hv. þm. Barð. eftir að bera fram fjölda brtt. í þessu máli, og mér finnst rétt, að við fáum tækifæri til að sjá sem flestar till. frá þessum hv. þm., þar sem honum er þetta svo mikið hjartans mál, að hann þykist kunna miklu betri skil á því en t. d. Ásmundur Guðmundsson prófessor, séra Sveinbjörn Högnason prófastur og biskupsritarinn.