17.12.1951
Efri deild: 46. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

109. mál, skipun prestakalla

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Umr. um þetta mál eru nú orðnar langar og miklar, og er það eins og vænta mátti, þar sem málið er stórt, þýðingarmikið og vandasamt. Ég skal því ekki halda langa ræðu, en aðeins mæla fyrir tveimur brtt., sem ég hef flutt við frv. við þessa umr., á þskj. 413.

Fyrri till. er í 5 undirliðum, og allir liðirnir fjalla um breyt. á skiptingu landsins í prófastsdæmi. Ég sá það, þegar ég fór að athuga frv. og einkanlega, hvernig landinu er skipt í prófastsdæmi, eftir að þær breyt., sem líkur eru til að verði gerðar á prestakallaskipuninni, hafa verið samþ., að sums staðar verða prófastar yfirmenn yfir sjálfum sér og engum presti, og á mörgum stöðum er prófastur yfirmaður eins prests auk sjálfs sín og á nokkrum stöðum yfir tveimur prestum. Þetta finnst mér ekki vera eins og vera ber, úr því að verið er að gera gagngerða breyt. á l. um skipun prestakalla yfirleitt. Ég hef því flutt þessar till. með það fyrir augum að færa saman nokkur prófastsdæmi. — Fyrsti liður fyrri till. er um það, að rómverskir liðir III og IV verði einn liður, er heiti: Skaftafellsprófastsdæmi. Þetta er sökum þess, að nú er þarna gert ráð fyrir Austur-Skaftafellsprófastsdæmi út af fyrir sig og Vestur-Skaftafellsprófastsdæmi út af fyrir sig. Í því fyrrnefnda eru tveir prestar auk prófasts og sömuleiðis í því síðara. Ef próföstum er ætlað að inna af hendi félagslegt starf, þá getur ekki verið verkefni fyrir tvo prófasta t. d. í þessum prófastsdæmum. Það verður enginn fundur, þegar þessir tveir prestar koma saman með sínum prófasti til að ræða sín mál, kristindóm og önnur, og það er ekkert félagslegt verkefni með þessum tveimur mönnum, þar sem svo er ástatt, sem er víða. — Þá er b-liður, sem er sama eðlis, um það, að rómverskir liðir IX og X verði einn liður, er heiti: Mýra- og Borgarfjarðarprófastsdæmi. Í Mýraprófastsdæmi er nú einn prestur auk prófasts, en ég læt koma undir einn prófast alla presta í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. — Þá er 3. liður fyrri till. um það, að rómv. liðir XI og XII verði einn liður, er heiti: Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi. Að vísu eru nokkuð margir prestar auk prófasts í Snæfellsnesprófastsdæmi, en í Dalaprófastsdæmi eru tveir prestar auk prófasts. Landfræðilega heyra þessi svæði saman, og lægi ekki illa við að halda sameiginlega fundi með prestum á öllu þessu svæði, í Snæfellsnessog Dalasýslum. — Þá er 4. liður um, að rómverskir liðir XVI og XVII verði einn liður, er heiti: Stranda- og Húnavatnsprófastsdæmi. Í Strandaprófastsdæmi eru aðeins tveir prestar auk prófasts, þar sem í Húnavatnsprófastsdæmi eru fjórir prestar auk prófasts. Þetta tel ég að eigi að verða eitt prófastsdæmi í þessum sýslum báðum. Þá er 5. og síðasti liður till., að rómverskir liðir X og XXI verði einn liður, er heiti: Þingeyjarprófastsdæmi. Í Suður-Þingeyjarprófastsdæmi eru að vísu fimm prestar auk prófasts, en í Norður-Þingeyjarprófastsdæmi eru aðeins tveir prestar auk prófasts. Þetta tel ég að gæti verið eitt prófastsdæmi, og gætu þá þarna 8 prestar með einn prófast landfræðilega starfað sem ein félagsleg heild að málefnum kirkjunnar.

Hvort mönnum sýnist þeir geta fylgt þessari till. eða ekki, skal ég ekki um segja, en mér finnst það ekkert ofverk prófasta að hafa milligöngu milli kirkjustjórnar og presta á þeim svæðum, sem hér er lagt til. Það eru sem sé 5 prófastsdæmi, sem verða þannig til úr 10 prófastsdæmum. Mér hefur verið bent á, að prófastarnir í Norður- og Suður-Múlaprófastsdæmum haldi sinn árlega prestafund sameiginlega á einum stað, og ýmsir vilji einnig flytja till. um að steypa þeim prófastsdæmum saman í eitt, sem héti þá Múlaprófastsdæmi. En með því að þarna eru 6 prestar auk prófasts í hvoru prófastsdæmi, þá tók ég ekki þetta með í mínar till., en í framkvæmdinni er þetta eins og það væri eitt prófastsdæmi og prestafundur árlega á einum stað á mörkum þessara sýslna, og ef það er framkvæmanlegt, þá álít ég það framkvæmanlegt, sem í mínum till. felst.

Seinni till. mín er um það, að orðið „Súgandafirði“ í 6. gr. falli niður, þ. e. a. s., að í Súgandafirði verði kennsluprestur. Það liggur fyrir bréf frá prestinum í Súgandafirði, þar sem hann lýsir andúð sinni við þetta ákvæði um kennslupresta, sérstaklega að því er snertir hans sókn, og kveðst jafnvel mundu segja af sér prestsskap heldur en að eiga að burðast með prestsþjónustu og vera einnig kennari, en svo virðist eiga að vera samkvæmt frv. Ég tel mjög veigamikil rök hníga að því, að presturinn í Súgandafirði eigi ekki að vera kennsluprestur, þar sem söfnuðurinn er á fjórða hundrað manns. En flest af þeim prestaköllum, sem lagt er til að verði kennsluprestaköll, eru miklu fámennari en þessi staður. Ég tel því, að Súgandafjörður hafi þarna verið tekinn með af einhverjum öðrum ástæðum eða kannske ekki verið full vitneskja um það, hvernig þarna hagar til nú. Í þorpinu Suðureyri er skóli með skólastjóra og tveimur kennurum, og presturinn þar hefur haft á hendi unglingafræðslu og er ljúft að halda því starfi áfram auk prestsþjónustustarfsins, sem hann rækir af samvizkusemi. — Þetta er það, sem ég vildi segja um brtt. á þskj. 413.

Þá vil ég aðeins að gefnu tilefni minnast á brtt. hv. 2. þm. S-M. á þskj. 422. En till. hans er í fyrsta lagi um það að kennsluprestum verði gert að skyldu að fullnægja ákvæðum gildandi fræðslulaga um menntun kennara. Ég bjóst við því, að enginn mundi andmæla þessu, og taldi það sjálfsagt. Það var skýrt tekið fram í grg. frv. af mþn., að það væri til þess ætlazt, að þessir prestar fullnægðu kröfum um kennaramenntun, og ég heyrði í dag, að hæstv. kirkjumrh. sagðist fylgja þeim brtt., sem færðu frv. til þeirrar áttar, sem mþn. gekk frá því, og þetta er það, sem n. gefur til kynna að hún ætlist til að því er þessi embætti snertir. Hins vegar tel ég eins og hv. flm. sjálfsagðan hlut, ef ætlazt er til að koma fram breyt. á einhverjum greinum frv., að fella það inn í, sem ætlazt er til að verði fellt inn í þetta frv. Það breytir engu í þessu efni, þó að hæstv. kirkjumrh. færi fram einstök dæmi þess, að kennara hafi mistekizt í sínu starfi, án tillits til þess, hvort hann hafi beitt í vinnubrögðum nýjum eða gömlum uppeldisfræðikenningum. Það hefur komið fyrir bæði fyrr og síðar. Það fara ekki miklar sögur af því, að Rousseau hafi verið mikill kennari í praksis, en uppeldisfræðikenningar hans þóttu góðar um aldir, og það er hægt að sýna þess mörg dæmi, að prestar hafi verið ómögulegir kennarar. En það er ekki út frá einstökum dæmum, sem á að mynda sér skoðanir um þetta. Ef það væri svo, að það væru einhverjar óskir á ferðinni um það, að menn hefðu einhverja þekkingu á sálarfræði, uppeldisfræði og kennslufræðum, þá þyrfti kannske að skoðun hæstv. kirkjumrh. að setja ákvæði um það, að menn misstu ekki villukenningar inn í uppeldisfræðina, því að það leiddi til ófarnaðar, uppeldi á börnum uppeldisfræðinga væri hið versta uppeldi, og hjá þeim kennurum, sem styddust í starfi sínu við nýjustu kenningar í uppeldisfræði, færi allt úr böndunum. Það er kannske orðið svo, að menn megi ekki hafa kennararéttindi, ef þeir eiga að vænta þess, að starf þeirra fari vel úr hendi. Það er kannske frá sjónarmiði einhverra hlálegt, að maður, sem búinn er að stunda háskólanám í mörg ár og á að stunda kennimannsstarf, skuli ekki vera jafnvel menntaður og vel búinn undir kennarastarfið og þeir, sem búnir eru að vera 4 ár í kennaraskóla og hafa þannig miklu styttri námsferil að baki en prestar. En slíkur prestur hefur ekki fengið menntun í sálarfræði og ekki heldur menntun í uppeldisfræði og ekki leiðbeiningar í almennri kennslu. Ég held því, að það sé ekki um annað að ræða en að lögfesta það, sem tekið er fram í grg. frv. að vaki fyrir mþn., að væntanlegir kennsluprestar skuli hafa kennararéttindi, að öðrum kosti mundu kennarar rísa upp gegn þessu, því að þá ættu prestar forgangsrétt að þessum kennaraembættum, og þá væri torvelduð í framkvæmd þessi lagasetning um kennsluprestana. Þess vegna er nauðsynlegt, að það sé skýrt, að þeir, sem ætla sér að fá slík embætti, verði samtímis háskólanámi sínu í guðfræði að verða sér úti um þessa aukakennslu, sem er viðurkennt af kirkjunnar mönnum að þeir þurfi að útvega sér, svo að þeir geti orðið góðir kennarar. Ég vil þess vegna vænta þess, að þessi till. hv. 2. þm. S-M. verði samþ., því að hvað sem hæstv. kirkjumrh. segir, þá álit ég ekki til bölvunar að nota sálarfræði og uppeldisfræði og sízt til bölvunar að hafa leiðbeiningar duglegra og reyndra kennara í uppeldisfræði, svo að menn þurfi ekki sjálfir að þreifa sig áfram frá grunni í kennarastarfinu.

Ég vil aðeins taka það fram viðvíkjandi till. hv. þm. Barð. um að leysa prestsmálið á Þingvöllum á þann veg, að þar sæti prestsöldungur, sem væri ætlað það hlutverk að kynna sögu staðarins innlendum og erlendum mönnum, að ég tel þessa hugmynd athyglisverða og tel, að þetta starf væri mjög geðþekkt aukastarf fyrir prest, sem væri góður tungumálamaður og sögumaður, virkilegur menntamaður. Ég hygg, að slíkur maður mundi ekki kunna því illa að inna slíkt trúnaðarstarf af hendi fyrir sína þjóð. Ég býst því við, að ég muni fylgja þeirri hugmynd, sem hv. þm. Barð. flytur og ég nú ræddi um.