17.12.1951
Efri deild: 46. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

109. mál, skipun prestakalla

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð um brtt., sem ég flutti áður og tók aftur við 2. umr. Þessi breytingartillaga er viðvíkjandi Stóra-Núpsprestakalli í Árnessýslu. Þetta prestakall samanstendur af þremur sóknum, Stóra-Núps-, Hrepphóla- og Ólafsvallasóknum, og presturinn situr á Skarði. Eins og það er nú í frv. mþn., þá er lagt til að leggja þetta prestakall niður og leggja Stóra-Núp og Hrepphóla undir Hruna og Ólafsvallasókn undir Hraungerðisprest. Brtt. mín fer fram á, að þetta verði óbreytt eins og nú er og prestakallið ekki lagt niður. Hæstv. kirkjumrh. lét þau ummæli falla áðan í ræðu sinni, að hann væri ekki fylgjandi þessari till., kvaðst ekki hafa heyrt nein rök, sem honum þættu nægileg til að samþ. hana.

Ég vil með fáum orðum minnast á það, sem ég álit vera rök í þessu máli og mæla með því, að mín brtt. verði samþ. Þetta prestakall samanstendur af þremur sóknum, eins og ég gat um, og í þessum sóknum eru 588 manns, eftir því sem mþn. segir í skýrslu sinni, sem fylgir frv. Þetta eru blómlegar sveitir, þar sem fólkinu er að fjölga og einnig býlum, svoleiðis að það getur ekki verið ástæða mþn. til að leggja þetta prestakall niður, að þarna sé um sveitir að ræða, sem séu að eyðast að fólki. Það hljóta að vera einhver önnur rök fyrir því að leggja prestakallið niður, sem mér eru ekki ljós. Þar sem lagt er til í frv. á öðrum stöðum, að prestaköll séu lögð niður, þá er fjölmennasta prestakallið með 284 menn og allt niður í 29. Það er nokkuð annað, þegar svona stendur á, að sameina prestaköll, en það á ekki við um Stóra-Núpsprestakall. Ég vil einnig minna á það, að þegar ég mælti fyrir þessari till. við 2. umr., þá komu fram skrifleg mótmæli frá sóknarfólki í Stóra-Núpssókn, þ. e. a. s. úr Gnúpverjahreppi, undirrituð af 85 mönnum, sem lögðu til, að prestakallið yrði ekki lagt niður. Síðan hefur borizt annað skjal, sem liggur frammi, undirritað af 92 sóknarbörnum í Skeiðahreppi, með sömu ósk, að prestakallið fái að halda áfram og verði ekki lagt niður. Þetta finnst mér vera nokkuð, sem Alþ. verði að taka til greina, vilja svona fjölmennrar sóknar um að leggja ekki prestakallið niður. Mér hefur borizt bréf frá sóknarprestinum í Skarði, sem þjónar þessu prestakalli, og ætla ég að lesa það bréf, með leyfi hæstv. forseta. Þar koma fram nokkrar upplýsingar og sjónarmið hans í þessu máli. Það hljóðar þannig:

„Skarði, Árnessýslu, 12. nóv. 1951.

Í frumvarpi því um skipun prestakalla á Íslandi, sem nú hefur verið lagt fyrir Alþingi, er ráð fyrir því gert, að Stóra-Núpsprestakall í Árnesþingi sé lagt niður og sóknum þess skipt niður á milli Hruna- og Hraungerðisprestakalla. Ég hef þjónað þessu prestakalli í 18 ár og er því gerkunnugur öllum staðháttum og vilja sóknarmanna um þetta atriði. Vil ég því tjá yður, hr. alþingismaður, að ég tel þetta mjög fjarri réttu ráði, svo fremi að stjórnarvöld og Alþingi telji kirkju og kristnihald nokkru skipta í lífi og þróun þjóðarinnar.

Núverandi Stóra-Núpsprestakall var áður þrjú prestaköll, og voru prestarnir þá að Stóra-Núpi, Hrepphólum og Ólafsvöllum. Árið 1882 sameinast Stóra-Núps- og Hrepphólaprestaköll, og er prestssetur ákveðið að Stóra-Núpi. Samkvæmt prestakallalögunum frá 1907 skyldi svo Ólafsvallasókn bætt við prestakallið. Gerðist það við andlát séra Brynjólfs Jónssonar árið 1925. En þá hafði svo skipazt, að Stóri-Núpur var ekki lengur hið lögákveðna prestssetur, því að jörðin var nú komin í einkaeign, en prestssetur ákveðið að Skarði í Gnúpverjahreppi, og er sú skipun í gildi nú. Á árunum 1930–32 var uppi vilji þáverandi stjórnarvalda um sameiningu Stóra-Núps- og Hrunaprestakalla, og skyldi prestssetur vera að Hruna. Voru haldnir fjölsóttir safnaðarfundir allra sókna um mál þetta. Voru þar samþykkt eindregin og einróma andmæli gegn þvílíkri breytingu. Féll því ráðagerð þessi niður um sinn, enda urðu stjórnarskipti um það leyti.

Liðu nú tímar fram. En árið 1941 kom fram frumvarp á Alþingi um breytingu á skipun prestakalla. Var þar lagt til, að Stóra-Núpsprestakall skyldi lagt niður. Voru fundarhöld í sóknum og enn samþykkt mjög eindregin mótmæli gegn þessari breytingu. Var þátttaka mikil og almenn. Ekki var frumvarp þetta afgreitt á þingi. Og enn var vegið í sama knérunn. Á s. l. þingi voru samþykkt lög um skipun prestakalla. Í frumvarpinu — eins og það var lagt fyrir Alþingi — var gert ráð fyrir, að Stóra-Núpsprestakall yrði lagt undir Hruna. Var tími naumur til fundahalda, en sóknarnefndir tveggja sóknanna komu þó bréfum til þingsins og tjáðu því eindregin mótmæli safnaðanna. Brást þingið vel við og felldi ákvæðið um Stóra-Núpsprestakall brott úr frumvarpinu. Mun alþm. Eiríkur Einarsson hafa átt drjúgan þátt í þeirri afgreiðslu. Voru það ein allra síðustu afskipti hans af málum á Alþingi.

Hefði nú mátt ætla, að lokið væri öllum eltingaleik við Stóra-Núpsprestakall. En svo er ekki. Enn er að því vegið. Ég tjái yður hér með, hr. alþm., að sami er vilji safnaðarmanna sem fyrr. Munu koma fram eindregnar óskir þeirra um, að ákvæðið um Stóra-Núp verði fellt úr frumvarpinu og prestakallið fái að standa í lögum meðal annarra prestakalla landsins. Við manntal 31. des. s. l. voru 592 manns búsettir í prestakallinu. Hefur fólki fjölgað hin síðari árin. Enn fremur er þess að geta, að nýbýli risa hér ört, og eru horfur á, að fólki muni fjölga hér á komandi árum. Þess ber og að geta, að prestakallið ávann sér hefð í hugum landsmanna með því, að séra Valdimar Briem sat hér og þjónaði þessu prestakalli all0 sína prestskapartíð. Mundi það þykja ömurleg þakklátssemi fyrir innblásna sálma hans, ef Alþingi gyldi jáyrði við niðurlagningu prestakalls hans.

Eins og fyrr getur, er prestssetrið hér að Skarði í Gnúpverjahreppi. Hefur svo verið síðan 1933, að ég tók við þjónustu þessa prestakalls. Prestsseturshús var byggt hér árið 1934. Þótt nokkurs sé ávant, svo að fyllstu kröfum sé fullnægt, þeim, sem nú eru gerðar til slíkra húsa, tel ég, að vel sé fyrir íbúðarþörf prestsins séð. Endurbóta nokkurra er þörf. En ef ekkert prestssetur væri lakar hýst, væri slíkt í góðu horfi. En útihús eru flest gömul og fallandi.

Virðingarfyllst,

Gunnar Jóhannesson, prestur.“

Hér er bent á eitt, sem ég hef ekki bent á, og það er, að Skarð er sæmilega hýst, og þarf ekki að byggja upp þar, þó að prestur yrði þar áfram. Það er nokkuð nýleg bygging þar og fullsæmileg, eftir því sem fram kemur í bréfinu, þótt þörf sé á umbótum. — Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en vona, að hv. deild fallist á þessi rök og að Stóra-Núpsprestakall verði ekki fellt niður, en brtt. mín samþ.