17.12.1951
Efri deild: 46. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

109. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þegar ég stóð upp síðast, athugaði ég ekki að gera grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli við málið yfirleitt. Ég vil taka fram, að eins og komið er, mun ég ekki fylgja Þingvallatill. hv. þm. Barð., heldur till. á þskj. 482, um að fresta þessu öllu, og álit ég það miklu heillavænlegra fyrir málið, að það sé athugað nú, eftir að búið er að kanna hugi manna hér til þess, og það síðan lagt fyrir næsta Alþ.

Úr því að ég er staðinn upp, vil ég aðeins minnast á það, sem bent var á í sambandi við Þingvallaprestinn. Ég hef lengi staðið í þeirri meiningu, að á þeim stað, þar sem koma margir útlendingar, yrði með tímanum reist vegleg kirkja og valinn í þá stöðu einhver af eldri höfuðklerkum okkar og hans aðalstarf yrði að halda ræður og boða kristindóm í kirkju sinni, en sókn er þar nálega engin, svo að það þarf ekki að velja hann frá því sjónarmiði, að hann sé gerður til hlaupa, heldur verði til prýði í sínu guðshúsi og geti talað við erlenda gesti, en hitt er annað mál, að hann eigi að hlaupa upp um holt og ása. Hér er ekki verið að tala um hópa eins og þeir Sigurður Nordal og Matthías Þórðarson fylgdu og eins og hæstv. ráðh. sagði settu lítið niður og héldu sínum heiðri fyrir það. Það er ekki verk prestsins að fylgja ferðamönnum, heldur kirkjustörf. Þetta er umfangsmikið svæði að hlaupa um. Ég veit, að hæstv. kirkjumrh. er fljótur í förum, en Þingveilir eru nú nokkuð víðlendir. — Ég vildi benda á þetta, og það er rétt hjá hv. þm. Barð., að ef er settur prestur þarna, þarf að vanda val hans, og hann þarf að vera fær um að segja útlendingum til og helzt að vera fróður í sögu staðarins og geta bent frá hlaði og stofuglugga á staði, en að hann fari að snúast með þeim um staðinn, hefur ekki verið í hans hug, hann er það bragðvís á, hvað landinu er til sóma, en ekki til niðurlægingar.

Ég vil svo enda með því að segja, að hv. þm. Barð. fór dálítið út fyrir efnið, er hann var að drótta að kollegum, — ég veit ekki hvort heldur mínum eða kollegum prestanna, — að þeir færu ekkert nema fyrir mikla peninga og væru ágjarnir, og játa ég, að það má til sanns vegar færa, að seint fyllist þeirra sál. Þó tekst hvorugum þessum að keppa við kaupmannslundina.