23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

109. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það má segja um afstöðu hv. 1. þm. N-M., að hún er að öllu leyti samkvæm þeirri afstöðu, sem hann tók í upphafi þessa máls í mþn., þar sem hann hafði sérstöðu, og hún kom fram í umr. um þetta mál. Að því leyti eru till. hans í samræmi við þetta og þá einnig það, að hann gerir sér ljóst, að ef þessar till. eru samþ., er hann ber fram bæði sem nefndarmaður og einnig á sérstöku þskj. margar brtt., sem n. hefur ekki fallizt á, þá fer frv. ekki í gegn á þessu þingi. Og það er hans afstaða í málinu, eins og fram kom við umr.

Ég gat þess, þegar málið kom aftur til þessarar hv. deildar, að ég vildi, að málið væri afgreitt á þessu þingi, ef unnt væri. Ég benti á það, sem að vísu þarf ekki að endurtaka, en má þó minna á, að sú n., sem farið hefur með þetta mál, hefur tekið tillit til þeirra tillagna, sem samþ. hafa verið, og gert að kennsluprestum álíka marga presta og fækkað hafði verið um í þeim l., sem hér hafa verið samþ., en framkvæmd hefur beðið á. Ég lýsti þá þó yfir, að þessi tala væri e. t. v. rausn af ríkisins hálfu, en það er svo um fleira og því ástæðulaust að ganga lengra í að fækka prestum að sinni, meðan ekkert slíkt er gert á öðrum sviðum í þjóðfélaginu. Það mætti að sjálfsögðu, ef þau mál væru hér til umræðu, benda á með svipuðum rökum, að hægt væri að fækka annars staðar. Ég hef álitið, að kirkjunni væri bezt borgið með því, að tölu presta væri stillt í hóf og hægt væri að byggja upp á prestssetrunum, en á því hefur orðið töf víða, og gert þannig við presta, að þeir hefðu hæfilega vinnu og sæmilega aðbúð af ríkisins hálfu. Við þetta miðaðist afstaða mín, er mér fannst tala presta rausn, og við þetta miðast fylgi mitt við frv.

Ég áleit, að ef frv. yrði raskað frá því, sem það kom frá n., yrði erfitt að koma því í gegnum þingið.

Sjónarmiðin eru næstum jafnmörg og þm. Það er svo með hv. 1. þm. N-M., að hann hefur verið í þessari n. og athugað þetta mál og hefur sína skoðun á því. En það hafa einnig allir aðrir hv. þm., sem þekkja til í einhverjum hluta landsins, og það má endalaust deila um, hvar prestssetur á að vera og hvar er of og hvar er van, og það er ekki líklegt, að betri niðurstöðu verði að finna í málinu en þá, sem n., er setið hefur yfir rannsókn málsins heilt sumar og í eru valdir menn, hefur komizt að niðurstöðu um.

Eins og ég tók fram, hefur þessu frv. verið breytt nokkuð í hv. Nd., og lýsti ég þeim breytingum, er umr. hófst, og sagði, að afstaða mín til málsins væri undir því komin, hvaða möguleikar væru til að koma málinu gegnum þingið, og það var af þeim ástæðum, að ég óskaði eftir, að menntmn. þessarar deildar héldi fund með menntmn. hv. Nd., og sá fundur hefur nú verið haldinn. Það kom í ljós á þessum fundi, að ekki er líklegt, að hægt verði að ná samkomulagi um málið, ef gerðar verða verulegar breytingar á því hér í þessari deild. Það stendur þannig á, að það er ekki hægt að fá þær breytingar á málinu, er ég lýsti yfir, þegar málið kom aftur til deildarinnar, að ég teldi eðlilegar breytingar, sem sagt, að málið væri fært í það horf, sem menntmn. hv. Nd. leggur til, og það stafar af því, að alþm. hafa mismunandi áhuga fyrir prestaköllunum, af því að þeir telja þau mismunandi nauðsynleg, m. a. hefur hv. Sósfl. staðið óskiptur með Breiðabólstað á Skógarströnd. Það er skrýtið, og er útilokað, að samkomulag náist um það, þótt samkomulag næðist um að fella niður önnur prestaköll. Sem sagt, það geta komið einkennileg atriði og áhugamál inn í þessi trúmál, ekki síður en önnur mál. Ég held þess vegna, að fyrsta leiðin til að ná samkomulagi sé sú að breyta ekki verulega til frá því, sem frv. var samþ. í hv. Nd. Það hefur, eins og ég gat um, sú breyting verið gerð á frv. frá því, sem það kom frá mþn., að fjölga um tvo presta, og það get ég ekki talið stórfellda breytingu. Ég hef þess vegna hugsað mér, að hægt væri að ná samkomulagi um frv. á þeim grundvelli, að samþ. væru úr till. meiri hl. menntmn. a-liðurinn og b-liðurinn, sem leiðir af samþykkt a-liðarins, því að þannig stendur á, að í Árnessýslu eru, eftir að frv. kemur frá Nd., 9 prestar. M. ö. o. fjölgar þar frá því, sem var, um einn prest, og raunar tvo, því þótt samkvæmt l. væri prestur á Þingvöllum, hafði það ekki komið til framkvæmda. Um leið og Stóri-Núpur er samþ. sem prestssetur, er eðlilegt að fella Selfoss niður sem sérstakt prestssetur og hafa prestinn í Hraungerði. Ef Selfoss svo stækkar og þessi brtt. verður samþ., er leyfilegt að flytja prestinn þangað. Með þessu móti verða 8 prestar í Árnessýslu. Hins vegar get ég ekki mælt með, að neinar aðrar till. hv. menntmn. verði samþ. Og satt að segja bjóst ég við því eftir samtali mínu við ýmsa nm., að þeir mundu fallast á að draga till. að öðru leyti til baka, af því að þeim er kunnugt eftir viðræðurnar við menntmn. hv. Nd., að ef þessar till. verða samþ., eru miklar líkur til, að frv. nái ekki fram að ganga, og mér er kunnugt um, að margir þeirra telja breytingarnar á frv., þar sem ekki er fjölgað um nema tvo presta, ekki svo stórvægilegar, að þeir geti ekki fellt sig við þær. — Með því að þessar breytingar hafa verið gerðar, leggjum við hæstv. dómsmrh. svo til á þskj. 753, að prestunum á Tjörn á Vatnsnesi og Staðarhrauni verði gert að skyldu að annast kennslu jafnhliða sínum prestsstörfum. — Ég vil svo ítreka þessi tilmæli mín og hef ástæðu til að halda, að sumir nm. muni geta fallizt á að verða við þessu. Afstaða hv. 1. þm. N-M. kann að vera sú, að hann geti ekki fallizt á þetta, vegna þess að hans afstaða til þessa máls, eins og ég sagði áðan, miðast við það, að málið nái ekki fram að ganga á þessu þingi. Ég þarf naumast að taka fram, að ég er andvígur till. hv. 1. þm. N-M. á þskj. 750, því að auðsætt er, að ef brtt. n., sem ég vek athygli á að er samin áður en n. átti samtal við menntmn. hv. Nd., yrði til að stöðva málið, gefur að skilja, að till. hv. 1. þm. N-M. yrði því fremur til að stöðva það, þar sem hún er enn fjarlægari vilja hv. Nd. — En til þess að fullnægja þeim sjónarmiðum, sem fram hafa komið í þessu máli í þessari deild, hef ég ásamt hæstv. utanrrh. flutt brtt. á þskj. 753 um, að Tjörn á Vatnsnesi og Staðarhraun verði gerð að kennsluprestaköllum. Það hafa ekki komið fram mótmæli um, að þessi háttur verði á hafður um Tjörn, enda erfitt að mótmæla því. Hins vegar komu frá hv. 1. þm. N-M. mótmæli gegn því, að prestinnm á Staðarhrauni væri gert að kenna jafnhliða, vegna þess að sýslan hefði í hyggju að stofna barnaskóla sameiginlega fyrir alla sýsluna. Það fer að verða vandlifað með þessa presta og störf þeirra, ef prestur á ekki að geta kennt í skóla, þó að hann sé ofar í héraðinu. Hvers vegna skyldi hann ekki geta búið í skólanum? Það mætti taka þau rök, sem háttvirtir andstæðingar hafa notað, og benda á, að prestar hafa sinnt kennslu í stórum stíl og ekki alltaf nálægt prestssetrunum, sem rök fyrir því, að prestarnir hafi lítið að gera. Hvers vegna ætti þessi prestur ekki að geta búið í skólanum yfir veturinn og sinnt kennslu? Ég vil benda á, að presturinn á Prestsbakka í Hrútafirði hefur á annan áratug kennt við Reykjaskóla og búið þar, og er þó meiri vegalengd að fara og oft ófært yfir Hrútafjörð. Held ég þó, að enginn á þeim stað, sem presturinn átti að þjóna, hafi haldið því fram, að þau störf væru ekki vel af hendi leyst. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, þar sem starf þessara manna er ekki meira en raun ber vitni, að þeir annist kennslu jafnframt. Það talaði enginn um, þegar séra Jón Guðnason var aðalkennari við Reykjaskóla, að hann sinnti illa starfi sínu, og hafði heldur enginn ástæðu til. Ef þessi brtt. verður samþ. ásamt a- og b-lið brtt. menntmn., held ég, að verði hægt að ná samkomulagi í Nd. og koma málinu fram. Og ég held, að það sé ekki hægt að ganga fram hjá því, að um leið og prestarnir taka við kennslunni, þar sem kennaralaun eru allhá, sé að því verulegur sparnaður fyrir ríkið, að prestar annist kennsluna, og með því er fullnægt að nokkru sjónarmiði þeirra, sem vildu fella prestssetrin niður. Það verður alltaf að reyna að samhæfa sjónarmiðin þannig.

Hvað viðkemur till. hv. 2. þm. S-M. um að taka aftur upp Mjóafjörð, þá greiddi ég atkv. gegn því, að hann væri felldur niður, og mun greiða atkv. með því, að hann verði aftur tekinn upp. Ég geri ráð fyrir eftir áhuga hv. Nd. á að hafa marga presta í landinu, að það verði ekki til fyrirstöðu þar.

Varðandi till. hv. þm. Barð. um Þingvallaprestinn veit ég ekki, hve mikla áherzlu Nd. leggur þar á. En ég get sagt það hér, að vitanlega er þetta ekkert annað en formsatriði fyrir ráðherra, því að engum kirkjumrh. dytti í hug að skipa í þetta embætti nema að fengnum tillögum frá biskupi og guðfræðideild háskólans.

Viðvíkjandi því að fella niður 7. gr. frv., þá finnst mér þetta vera svona álíka og Holtavörðuheiði vegamálanna, þ. e. a. s., þessi prestur hefur ekki fast aðsetur í neinu ákveðnu kjördæmi og er því ekki neitt sérstakt áhugamál neins hv. þm. En ég mun greiða atkvæði á móti því að fella þessa gr. niður, af því að ég hafði ákveðið að fylgja frv. nokkurn veginn í aðalatriðum eins og það kom frá milliþn.

Ef samþ. eru a- og b-liður till. meiri hl. menntmn. og brtt. mín og hæstv. dómsmrh., tel ég víst, að frv. verði samþ. í hv. Nd. Ég tel því, að þeir hv. þm., sem eru á móti því að taka upp þessa nýju presta, sem samþykktir voru í Nd., ættu að sættast á þessa lausn, svo að málinu verði borgið á þessu þingi.